Hoppa yfir valmynd
1. júní 2017 Innviðaráðuneytið

Ný lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi taka gildi í dag

lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi taka gildi í dag, 1. júní, og falla um leið eldri lög þess efnis úr gildi. Einnig hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra með heimild í nýju lögunum sett tvær nýjar reglugerðir sem taka gildi í dag. Þá taka gildi í dag breytingar á gjaldskrá Samgöngustofu.

Með nýju lögunum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi falla úr gildi lög um fólksflutninga og farmflutninga á landi nr. 73/2011. Nýju reglugerðirnar eru annars vegar reglugerð nr. 474/2017 um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi og hins vegar reglugerð nr. 475/2017 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.

Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi

Reglugerð nr. 474/2017 sem tekur gildi í dag felur í sér innleiðingu þriggja grunngerða Evrópusambandsins um flutninga á vegum og sex afleiddra gerða sem er ætlað að skapa samræmdar reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins um skilmála og skilyrði til að mega stunda flutningastarfsemi á landi og tryggja að þeim kröfum sé hægt að fylgja eftir með viðeigandi eftirliti og viðurlögum.

Í reglugerðinni er jafnframt að finna nýmæli sem ekki leiðir af innleiðingu þessara gerða og felst í ákvæði um sérstakt ferðaþjónustuleyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni. Nýmæli þetta byggist á nýmæli 10. gr. laga nr. 28/2017 þar sem kveðið er á um slík ferðaþjónustuleyfi. Samgöngustofa getur veitt ferðaþjónustuleyfi til umsækjanda sem hefur annað hvort rekstrarleyfi sem ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi auk þess að hafa almennt rekstrarleyfi til farþegaflutninga og uppfyllir skilyrði laga og reglugerðarinnar að öðru leyti. Ferðaþjónustuleyfi má veita enda þótt bifreiðar sem notaðar eru rúmi færri farþega en níu, þótt lögin gildi almennt bara um farþegaflutninga með ökutækjum sem rúma fleiri en níu farþega. Eingöngu er heimilt að nýta ferðaþjónustuleyfi í tengslum við ferðaþjónustu.

Með auglýsingu um breytingu á gjaldskrá Samgöngustofu skv. auglýsingu 338/2015 með síðari breytingum verður innheimt gjald fyrir ferðaþjónustuleyfi að upphæð kr. 4.000 og árlegt gjald vegna hverrar bifreiðar þegar hún er færð til skoðunar verður kr. 1.400. Um er að ræða sömu fjárhæð og nú er innheimt fyrir leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða.

Rétt er að vekja athygli á því að með reglugerðinni er gerð breyting á því hvað telst fullnægjandi fjárhagsstaða fyrirtækis en hún er eitt af skilyrðum fyrir því að geta fengið útgefið almennt rekstrarleyfi til farþegaflutninga á landi. Til að teljast hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu verður fyrirtæki nú að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 1.150.000 fyrir fyrsta ökutæki og kr. 640.000 á hvert ökutæki umfram það, í stað kr. 850.000 fyrir fyrsta ökutæki og kr. 450.000 á hvert ökutæki umfram það líkt og eldri reglugerð kvað á um. Fjárhæðina skal uppfæra árlega í samræmi við ákvæði 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1071/2009. Að öðru leyti eru skilyrði almenns rekstrarleyfis sambærileg við það sem verið hefur til þessa.

Gildistaka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð

Reglugerð nr. 475/2017 er ætlað að innleiða í heilu lagi ofannefndar Evrópureglugerðir í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins skv. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með reglugerðinni eru m.a. settar fram reglur um flutninga með hópbifreiðum sem varða bann við mismunun farþega, réttindi farþega ef slys ber að höndum, réttindi farþega með fötlun, réttindi farþega þegar ferð er aflýst eða henni seinkar, lágmarksupplýsingar sem veita á farþegum og meðferð kvartana. Ákvæði reglugerðarinnar eru að miklu leyti innleidd efnislega í lögum nr. 28/2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta