Hoppa yfir valmynd
25. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 133/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 133/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020014

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. febrúar 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2019, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli atvinnuþátttöku þann 17. maí 2001 með gildistíma til 15. febrúar 2002. Var leyfið endurnýjað þrisvar sinnum og þann 10. desember 2004 var kæranda veitt búsetuleyfi hér á landi. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fluttist kærandi til heimaríkis þann 1. júní 2011 og féll búsetuleyfi hans sjálfkrafa niður að liðnum 18 mánuðum frá þeim tíma skv. 5. mgr. 15. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þann 13. júní 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar sl., var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 24. janúar sl. og þann 4. febrúar sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 27. febrúar sl. ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að fjallað væri um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla í 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins sé heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. mgr. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögunum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. geti til sérstakra tengsla m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem ekki verði endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra tilvika. Þá skuli fara fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið og skuli við það mat að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Þá vísaði stofnunin til þess að í 5. mgr. 78. gr. væri fjallað um tengsl sem ekki gætu talist til sérstakra tengsla við landið. Þá væri í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, fjallað um skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla, hafi umsækjandi áður búið á Íslandi. Vísaði stofnunin til þess að kærandi væri [...] ára gamall, ríkisborgari [...] og að gögn máls bentu ekki til annars en að þar hefði hann búið alla sína tíð að undanskyldum þeim 10 árum sem hann hafi verið búsettur og starfað hér á landi. Hefði kærandi flutt til Íslands árið 2001, þegar hann var [...] ára gamall, og flutt aftur til heimaríkis árið 2011. Hefði hann nú verið búsettur í heimaríki í rúmlega 7 ár. Vísaði stofnunin til þess að samkvæmt b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga skuli almennt ekki veita dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla ef kærandi hefur dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt gögnum málsins eigi kærandi eiginkonu og barn fætt á [...] þann [...]. Hér á landi eigi kærandi föðursystur og fjögur frændsystkini. Engin gögn í málinu bentu til þess að umönnunarsjónarmið væru til staðar. Þrátt fyrir að kærandi hefði dvalið lengi hér á landi yrði að telja að hann hefði sterkari tengsl við heimaríki sitt heldur en við Ísland. Var það mat Útlendingastofnunar m.t.t. gagna málsins og aðstæðna kæranda, þ.e. dvalartíma, fjölskyldutengsla og annarra atriða sem rakin hefðu verið, að undantekningarregla 78. gr. laga um útlendinga ætti ekki við. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt heildarmat á aðstæðum hans heldur einungis byggt á því að kærandi hafi dvalið erlendis lengur en 18 mánuði frá því hann dvaldi síðast hér á landi og hefði þar af leiðandi sterkari tengsl við heimaríki sitt. Telur kærandi að rökstuðningur stofnunarinnar standist ekki og að ákvörðunin sé ekki í samræmi við lög. Hafnar kærandi þeirri fullyrðingu stofnunarinnar að hann hafi sterkari tengsl við heimaríki en Ísland. Þá sé sá samanburður sem stofnunin geri á tengslum kæranda við heimaríki og sérstakra tengsla við Ísland án lagastoðar, þ.e. að ólögmætt hafi verið að synja kæranda um dvalarleyfi á þeim grundvelli að hann hefði sterkari tengsl við heimaríki en Ísland. Þá telur kærandi að tilgreindur viðmiðunartími b-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sé án lagastoðar. Tekur hann fram að það sé málefnalegt og lögmætt sjónarmið að horfa til þess tíma sem liðinn sé frá því útlendingur dvaldi hér á landi síðast, en það eitt og sér geti ekki haft úrslitaáhrif. Líta verði til þess að kærandi hafi búið hér á landi í áratug og á þeim tíma myndað sterk tengsl við land og þjóð, tengsl sem ekki hafi rofnað þrátt fyrir langa dvöl nú í heimaríki. Síðan kærandi hafi flust af landi brott hafi hann viðhaldið þeim fjölskyldu- og vinaböndum, sem myndast hefðu við dvöl hans hér á landi. Þá eigi kærandi vinnu vísa komi til þess að hann fái dvalarleyfi hér á landi og sé með hreinan sakaferil. Vísar kærandi til þess að þegar öll gögn málsins séu skoðuð og aðstæður hans í heild, þ.e. fyrri dvalartíma hans hér á landi og fjölskyldutengsl auk annarra atriða, beri að leggja til grundvallar, þrátt fyrir dvalartíma erlendis, að uppfyllt séu skilyrði 78. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því ákvæði 19. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, skorti lagastoð. Tilvitnað ákvæði reglugerðar er sett með stoð í 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga þar sem segir að ráðherra setji reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu, m.a. um tilgang dvalar, til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvort sérstök tengsl við landið teljist vera til staðar og hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. sama ákvæðis. Löggjafinn hefur því framselt ráðherra vald til að útfæra framangreint ákvæði laganna nánar og að mati kærunefndar ljóst að fyrrgreint ákvæði reglugerðarinnar skortir að formi til ekki lagastoð.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi, sem er [...] ára, búsettur hér á landi á árunum 2001-2011. Þrátt fyrir að kærandi hafi dvalið hér löglega í langan tíma og myndað hér tengsl m.a. með atvinnuþátttöku verður ekki framhjá því litið að langt er liðið frá dvalartíma hans hér. Þannig hefur kærandi dvalið samfellt erlendis frá árinu 2011 eða langt umfram þá 18 mánuði sem vísað er til í b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður því ekki talið að lengd lögmætrar dvalar kæranda hér á landi hafi mikið vægi við mat á því hvort veita á kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Að því er varðar fjölskylduaðstæður kæranda benda gögn málsins til þess að föðursystir kæranda og fjögur frændsystkini hans búi hér á landi en að hann eigi eiginkonu og barn í heimaríki. Þá benda gögnin ekki til þess að umönnunarsjónarmið sem tengjast fjölskyldumeðlimum kæranda hér á landi séu fyrir hendi í málinu eða að öðru leyti séu fyrir hendi í málinu slík félagsleg tengsl, menningarleg tengsl eða önnur sambærileg tengsl að rétt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga, og verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                                               Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta