Mál nr. 37/2016
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 37/2016
Sérmerking bílastæða
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 29. ágúst 2016, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 20. október 2016, lögð fyrir nefndina sem og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 6. nóvember 2016, og athugasemdir gagnaðila, dags. 12. desember 2016. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 11. janúar 2017.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar eiga sína íbúðina hvor í fjöleignarhúsinu D. Ágreiningur er um hvort álitsbeiðanda hafi verið heimilt að sérmerkja sér bílastæði á sameiginlegri lóð fasteignarinnar.
Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:
Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda sé heimilt að sérmerkja sér bílastæði á lóð í samræmi við eignaskiptayfirlýsingu og lóðarleigusamning.
Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi hafi einkaafnotarétt af téðu bílastæði.
Í álitsbeiðni kemur fram að þrjú stæði á lóð fasteignarinnar hafi verið sérmerkt og hafi átt að fylgja íbúðum D x, x og x. Íbúðum D hafi ekki fylgt sérmerkt stæði á lóð. Íbúðareigendur hafi ekki virt sérmerkingu bílastæðis og álitsbeiðandi því sérmerkt stæði sem einkastæði. Því til stuðnings sé þinglýst eignaskiptayfirlýsing þar sem stæðið er merkt og lóðarleigusamningur þar sem segir að kvöð sé um not á bílastæðum. Gagnaðili hafi ýmist sagt að íbúð álitsbeiðanda fylgi ekki sérmerkt stæði eða að hið sérmerkta stæði íbúðar álitsbeiðanda ætti að vera annars staðar á lóðinni.
Í greinargerð gagnaðila segir að sérmerking bílastæða í eignaskiptayfirlýsingu sé ekki gild. Sérmerkingin komi fram á teikningu sem yfirlýsingunni fylgdi en sérmerkingin sé krotuð inn á skjalið eftir á með tússpenna. Gagnaðili bendi á að mistök hafi orðið er íbúðum við D hafi verið gefið númer en götunúmer við D . Hið umdeilda stæði sé fyrir framan íbúð númer x en ekki fyrir framan íbúð álitsbeiðanda sem sýni að ekki hafi verið ætlunin að sérmerkja álitsbeiðanda umrætt stæði. Eigi sérmerkt stæði að fylgja íbúð álitsbeiðanda hefði það fremur átt að vera stæði fyrir framan eign hans. Gagnaðili leggur fram sáttatillögu þar sem hún áréttar þó að samkvæmt veðbókarvottorði séu stæði á bílastæði í sameign og að sömu upplýsingar hafi hún fengið hjá byggingarfulltrúa.
Í athugasemdum álitsbeiðanda við greinargerð gagnaðila segir að undarlegt sé að gagnaðili telji teikningu sem fylgdi eignaskiptayfirlýsingu gilda hvað varðar bílastæði hennar í bílageymslu en ekki hvað varði bílastæði fyrir framan hús.
Í athugasemdum gagnaðila segir að hún hafi greitt sérstaklega fyrir stæði sitt í bílageymslu en stæði á lóð hafi aldrei verið talin í einkaeigu einhvers enda enginn greitt sérstaklega fyrir þau.
III. Forsendur
Aðila greinir á um hvort íbúð álitsbeiðanda fylgi sérmerkt stæði. Álitsbeiðandi styður kröfu sína með eignaskiptayfirlýsingu þar sem fram komi að íbúðum x, x og x fylgi sérmerkt stæði. Gagnaðili telur fylgiskjöl eignaskiptayfirlýsingarinnar ekki gild, þau séu einnig á misskilningi byggð og því ekki á eignaskiptayfirlýsingunni byggjandi.
Í 1. mgr. 33. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, segir að bílastæði á lóð fjöleignarhúss séu sameiginleg og óskipt, nema ákveðið sé í þinglýstum heimildum að tiltekin bílastæði fylgi ákveðnum séreignarhlutum. Í eignaskiptayfirlýsingu fyrir D x-x (oddatölur eingöngu), x–x (jafnar tölur eingöngu) og x–x (jafnar tölur eingöngu), sem þinglýst var 21. júlí 1988, segir að henni fylgi teikningar sem sýni stærð og legu hverrar íbúðar fyrir sig og hvað henni fylgir sérstaklega. Á slíkri teikningu er umþrætt stæði merkt. Kærunefnd telur að skilja verði merkingu stæðisins þannig að það fylgi. Fær þetta einnig stoð í fylgiblaði skiptayfirlýsingar þar sem fram komi eignarhlutföll hverrar íbúðar í bílastæðum en íbúðum fylgi stærri hlutföll en hinum íbúðum. Kærunefnd telur því að fallast beri á kröfur álitsbeiðanda.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar húsamála að álitsbeiðanda sé heimilt að sérmerkja bílastæði sitt á sameiginlegri lóð og að hún hafi ein afnotarétt af téðu bílastæði.
Reykjavík, 11. janúar 2017
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Eyþór Rafn Þórhallsson