Hoppa yfir valmynd
13. september 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 128/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 128/2017

Miðvikudaginn 13. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 23. mars 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. febrúar 2017 um 50-60% styrk til kaupa á bifreið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. janúar 2017, sótti kærandi um 50-60% styrk til kaupa á bifreið frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. febrúar 2017, var umsókninni synjað þar eð skilyrði fyrir styrkveitingu voru ekki talin uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. mars 2017. Með bréfi, dags. 5. apríl, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. maí 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2017. Viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfi, dags. 14. júlí 2017, og voru þau kynnt stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlega kröfu í málinu en ráða má af kæru að hún gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um styrk vegna kaupa á bifreið verði endurskoðuð.

Í kæru segir að niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins sé kærð þar sem kærandi sé með astma og lungnaþembu.

III. Sjónarmið Tryggingastofnun ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að þó að í málinu reyni eingöngu á 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þá sé einnig nauðsynlegt að rekja á stuttan hátt hvaða kröfur séu gerðar vegna 1. mgr. 10. gr. laganna og 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegar og örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vantar líkamshluta.

Í 1.-3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Þá hljóði 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar svo:

„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og t.d. noti tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Í 4. mgr. 4. gr. komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé svo veitt heimild til Tryggingastofnunar til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukaútbúnaðar. Í þeim tilvikum þurfi að vera um að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. og aki sjálfur eða annar heimilismaður. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá þennan styrk þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót til samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr.

Við mat á hreyfihömlun þann 13. febrúar 2017 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 19. janúar 2017. Fram komi meðal annars að kærandi sé með verulega skerta hreyfigetu vegna mæði og andþyngsla sökum astmasjúkdóms. Einnig komi fram að kærandi sé með stoðkerfisverki, eigi meðal annars erfitt með heimilisverk. Hún geti ekki gengið nema 100 metra án þess að fá verulega mæði og andþyngsli. Þetta hindri hana í að fara út úr húsi. Einnig komi fram að hún sé með geðræn vandamál og að einangrun geri geðsjúkdóminn verri.

Varðandi göngugetu hafi komið fram að hún væri undir 400 metrum. Ekki hafi komið fram sértækar upplýsingar varðandi hreyfihömlun, engin hjálpartæki til gangs.

Niðurstaða hreyfihömlunarmats hafi verið sú að kærandi uppfyllti skilyrði um hreyfihömlun en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks.

Tryggingastofnun hafi metið kæranda hreyfihamlaða. Eins og fram hafi komið í greinargerðinni þá uppfylli kærandi skilyrði hreyfihömlunar og gæti því átt rétt á uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar. Stofnunin telji hins vegar að kærandi uppfylli ekki þau viðbótarskilyrði sem séu sett fyrir því að umsækjandi geti átt rétt á styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Heimild Tryggingastofnunar til að veita styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar eigi við í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi að sýna fram á að vegna hreyfihömlunar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr. fyrir. Kærandi hafi ekki sýnt fram á það.

Styrkur samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar hafi verið miðaður við það að hinn hreyfihamlaði sé í þannig aðstæðum að hann geti ekki farið úr rafmagnshjólastól til þess að komast inn í bifreiðina. Í þeim tilvikum þurfi hinn hreyfihamlaði bifreið sem sé nægilega stór að hann geti, með nauðsynlegum breytingum, verið fluttur í hjólastólnum inn í bifreiðina þar sem hjólastóllinn sé svo festur niður. Í flestum tilvikum sé um svokallaða hjólastólalyftu að ræða en í undantekningartilfellum sé notast við ramp.

Eins og gefi að skilja þá séu þeir bílar, sem hægt sé að lyfta fullvöxnum einstaklingi inn í á meðan hann sitji í rúmfrekum rafmagnshjólastól, mjög stórir og í næstum öllum tilvikum sé nauðsynlegt að um sendibifreið sé að ræða. Á þessum bifreiðum þurfi líka að gera verulegar sérbreytingar sem séu meiri en þær sem almennt þurfi að gera þegar um sé að ræða styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar sé ætlað að mæta þörfum þessa hóps.

Ekki sé hægt að sjá af gögnum málsins að kærandi þurfi á sérútbúinni og dýrri bifreið að halda vegna mikillar fötlunar og ekki hafi Hjálpartækjamiðstöð borist umsókn um hjálpartæki í slíka bifreið. Af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi noti hjálpartæki til gangs.

Tryggingastofnun ríkisins telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu leyti verið í samræmi við almannatryggingalög og reglugerð nr. 170/2009.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. febrúar 2017 á umsókn kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar gildir sama um rekstur bifreiðar. Þá er samkvæmt 3. mgr. sömu greinar heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Á grundvelli 2. málsl. nefndrar 3. mgr. setur ráðherra reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu og er gildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að styrkja kaup á sérútbúnum og dýrum bifreiðum. Þar kemur fram í 1. mgr. að heimilt sé að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar ef um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Þá segir að heimildin eigi einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar.

Í læknisvottorði B, dags. 19. janúar 2017, segir svo um sjúkdómsástand kæranda og hvernig það valdi hreyfihömlun:

„A, er með verulega skert hreyfigeti sökum mæði og anþryngsli vegna asthma, einnig stoðkerfisverki lítil sem hún getur gert í heimilis verki , getur ekki labbað 100m ánþess að finna fyrir veruleg mæði og andþyngsli , þetta hindrar hana í að fara út úr húsi og kaupa inn, auk þess hún með geðrænnvandamál , og einnangrún gerir geðsjúkdóminn hennar verri.

A er háð því að eiga bifreið , mælt með að henni sé veit bifreiða styrkur til bíla kaup.“

Í læknisvottorði C, dags. 26. júní 2017, segir svo um sjúkdómsástand kæranda og hvernig það valdi hreyfihömlun:

„A hefur sögu um astma frá unga aldri og í seinni tíð talin hafa langvinna lungnateppu. Hefur verið í eftirliti hjá lungnalækni vegna þessa. Tekur púst daglega. Hefur verið versnandi undanfarna mánuði með aukinni mæði ásamt hósta og uppgangi. Á erfitt með að ganga langar vegalengdir vegna mæðinnar. Til viðbótar má nefna að verið slæm af stoðkerfisverkjum um árabil. Verkirnir eru einna verstir í mjóbaki og liggja stundum niður í rass/fætur. Versnaði snarlega eftir aftanákeyrslu fyrr á þessu ári. Verkirnir hamla henni við hreyfingar í baki og fótum.“

Ágreiningsefni þessa máls snýst um hvort skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda byggir á því að þar sem ekki liggi fyrir mat á þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja, til dæmis bílalyftu og/eða rennibraut fyrir hjólastólanotendur, séu skilyrði 5. gr. reglugerðar ekki uppfyllt.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sem sett er á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, er skilyrði fyrir 50-60% styrk til kaupa á bifreið að um sé að ræða einstakling sem komist ekki af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Í fyrrgreindum læknisvottorðum koma fram upplýsingar um skerta göngugetu kæranda en ekki verður af þeim ráðið að hún noti hjálpartæki að staðaldri. Því er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði ráðið af gögnum málsins að kærandi komist ekki af án sérútbúinnar bifreiðar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, uppfyllir kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslu 50-60% styrks til bifreiðakaupa, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Úrskurðarnefndin tekur ekki afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, enda sótti kærandi ekki um slíkt.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um 50-60% styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta