Hoppa yfir valmynd
29. júní 2021 Forsætisráðuneytið

1014/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 1014/2021 í máli ÚNU 21010010.

Kæra og málsatvik

Með kæru, dags. 12. janúar 2021, kærðu A og B afgreiðslu Dalvíkurbyggðar á beiðni þeirra um aðgang að gögnum.

Með tölvupósti, dags. 25. nóvember 2020, óskuðu kærendur eftir útgefnu graftrar/byggingarleyfi vegna Hringtúns 17 og 19. Sveitarfélagið svaraði erindi kærenda með tölvupósti, dags. sama dag, þar sem fram kom að þar sem kærendur teldust ekki aðilar að umræddu máli bæri þeim að óska eftir upplýsingunum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 og þeim leiðbeint um að senda inn beiðni um upplýsingarnar með því að fylla út eyðublað á vefsíðu sveitarfélagsins.

Kærendur ítrekuðu framangreinda beiðni sína með tölvupósti, dags. 14. desember 2020, og vísuðu til þess að þeir teldu sig aðila málsins samkvæmt nágranna/eignarétti. Því óskuðu þau eftir aðgangi að byggingarleyfi og upplýsingum um útgáfudag þess auk upplýsinga um hvenær byggingarleyfið hafi verið sent til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá var einnig óskað eftir mæliblaði sem unnið væri eftir í Hóla- og Túnahverfi. Í svari sveitarfélagsins, dags. 11. janúar 2021, var kærendum synjað um aðgang að umbeðnum upplýsingum. Í svarinu kom fram að ekki væri unnt að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.

Í kæru kemur fram byggingarleyfi sé opinbert gagn sem nauðsynlegt sé fyrir kærendur að kynna sér áður en ákvörðun verður tekin um hvort lögð verði fram kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitingarinnar.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Dalvíkurbyggð með bréfi, dags. 25. janúar 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 15. febrúar 2021. Í umsögninni kom fram að byggingarleyfi hefði enn ekki verið gefið út vegna umræddra lóða. Þegar af þeirri ástæðu teldi sveitarfélagið kæruna ekki tæka til efnismeðferðar af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hvað sem því liði teldi Dalvíkurbyggð rétt að fjalla um málið út frá þeim sjónarmiðum sem væru undirliggjandi. Þá var tekið fram að í svari sveitarfélagsins til kærenda hefði mátt koma fram með skýrari hætti að leyfið hefði ekki verið gefið út en það hefði væntanlega verið til þess fallið að skýra málið nánar.

Í umsögninni eru raktir málavextir í tengslum við meðferð sveitarfélagsins á máli sem tengist fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðum nr. 17 og 19 við Hringtún á Dalvík. Þar er áréttað að upplýsingar þær sem beiðni kærenda lúti að séu því marki brenndar að vera ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Þannig hafi engum teikningum verið skilað inn, enda ekkert byggingarleyfi verið gefið út. Kærendur bendi á í kæru til úrskurðarnefndarinnar að framkvæmdir séu þegar hafnar á umræddum lóðum. Tekið er fram að það sé ekki rétt enda þær framkvæmdir einungis á grundvelli greinar 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í nefndri grein sé sveitarfélagi veitt heimild til þess að gefa framkvæmdaraðila leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdarsvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Það leyfi hafi verið gefið út 16. nóvember 2020 en þar komi skýrt fram að eingöngu sé um að ræða „greftrarleyfi“ og að frekari framkvæmdir séu háðar útgáfu byggingarleyfis að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í áðurnefndri grein 2.4.4 í byggingarreglugerð. Að öllu virtu byggi Dalvíkurbyggð á því að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Komi fram ósk frá kærendum um aðgang að þeim gögnum sem til eru vegna þeirra framkvæmda sem átt hafi sér stað á lóðunum við Hringtún 17 og 19 fái slík beiðni hefðbundinn framgang innan sveitarfélagsins.

Umsögn sveitarfélagsins var send kærendum, með bréfi, dags. 15. mars 2021, og þeim veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kærenda, dags. 15. mars 2021, eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi fyrr komið fram að byggingarleyfi hafi ekki enn verið gefið út. Sveitarfélagið hafi fyrst viðurkennt það í tengslum við kærur kærenda til annars vegar úrskurðarnefndar um upplýsingamál og hins vegar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá eru gerðar athugasemdir við að kærendum hafi ekki verið leyft að kynna sér gögn sem lágu til grundvallar leyfi til könnunar á jarðvegi og mæliblað vegna hæðakvóta en því hafi verið hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Kærendur telja lög hafa verið brotin við meðferð málsins í tengslum við umræddar framkvæmdir á lóðunum og telja sveitarfélagið alls ekki hafa reynt að upplýsa um neitt eins og haldið sé fram í umsögn sveitarfélagsins. Jafnframt kemur fram að kærendur hafi kært útgáfu byggingarleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða

1.
Í málinu er deilt um afgreiðslu Dalvíkurbyggðar á beiðni kærenda um aðgang að útgefnu byggingarleyfi vegna Hringtúns 17 og 19 og mæliblaði vegna hæðakvóta sömu lóða. Dalvíkurbyggð heldur því fram að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu enda hafi ekkert byggingarleyfi verið gefið út.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Eins og áður segir kemur fram í umsögn sveitarfélagsins að byggingarleyfi sé ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu enda hafi það enn ekki verið gefið út. Í ljósi skýringa sveitarfélagsins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umrætt gagn séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.



2.

Í málinu er einnig deilt um rétt kærenda til aðgangs að mæliblaði fyrir hæðakvóta í Hóla- og Túnahverfi á Dalvík. Hvorki verður ráðið af synjun sveitarfélagsins né umsögn þess til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að tekin hafi verið afstaða til réttar kæranda til aðgangs að gagninu.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði nefndin, með tölvupósti, dags. 17. maí 2021, eftir upplýsingum frá lögmanni sveitarfélagsins um hvort tekin hefði verið afstaða til réttar kæranda til aðgangs að mæliblaðinu og sveitarfélaginu jafnframt veitt færi á að koma á framfæri frekari röksemdum teldi það tilefni til. Í svari frá lögmanni sveitarfélagsins, dags. sama dag, kom fram að hann vissi ekki betur en að gagnið hefði legið fyrir þegar beiðni kæranda barst. Hins vegar yrði ekki séð að það félli undir beiðni kæranda.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér samskipti kærenda við sveitarfélagið. Í tölvupósti kærenda, dags. 14. desember 2020, þar sem kærendur ítreka upphaflega beiðni sína frá 25. nóvember 2020 um aðgang að upplýsingum, kemur m.a. fram að þeir óski eftir afriti af mæliblaði sem unnið sé eftir í Hóla- og Túnahverfi. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að beiðni kærenda hafi m.a. lotið að umræddu mæliblaði.

1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Þá leiðir af ákvæðum upplýsingalaga að stjórnvöldum beri að afmarka beiðni um upplýsingar við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.

Eins og fyrr segir verður ekki séð að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gangabeiðninnar, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun Dalvíkurbyggðar né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda að þessu leyti, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Dalvíkurbyggð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.







Úrskurðarorð:

Ákvörðun Dalvíkurbyggðar, dags. 11. janúar 2021 um að synja kærendum, A og B, um aðgang að mæliblaði fyrir hæðakvóta í Hóla- og Túnahverfi á Dalvík, er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar meðferðar. Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta