Innanríkisráðherra skipar nefnd til að undirbúa millidómstig
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur skipað nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa millidómstig. Meðal markmiða í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að tekið verði upp millidómstig bæði í einkamálum og sakamálum og að Hæstiréttur starfi í einni deild.
Með skipun nefndarinnar er ráðherra að hrinda þessu verkefni af stað og mun nefndin útfæra fyrirkomulag, tímamörk, kostnað og önnur atriði er snerta tilurð millidómstigs. Einnig skal í lagafrumvarpi fjallað um starfsemi og fyrirkomulag sameiginlegrar stjórnsýslu dómstóla landsins, eftirlit dómskerfisins með dómurum og starfsemi dómstóla. Stefnt er að því að leggja megi frumvarp fyrir Alþingi í mars á næsta ári.
Formaður nefndarinnar er Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður og aðrir nefndarmenn eru Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við HÍ, og Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.