Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 584/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 584/2023

Fimmtudaginn 22. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. nóvember 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. nóvember 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 9. janúar 2023 til 31. maí 2023.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu janúar til maí 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir þá mánuði. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 292.152 kr., að meðtöldu 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 21. desember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 4. janúar 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi tekið 50% fæðingarorlof frá 10. janúar 2023 til 16. júní 2023. Alls hafi kærandi fengið greitt inn á reikning sinn 980.000 kr. frá sjóðnum. Samkvæmt fyrsta bréfinu sem kæranda hafi borist hafi hann átt að greiða 450.000 kr. til baka til sjóðsins. Kærandi hafi gert athugasemd og þá hafi Fæðingarorlofssjóður séð villur í sínum útreikningum og krafan hafi verið lækkuð niður í tæpar 300.000 kr. með svokölluðu álagsgjaldi. Á meðfylgjandi launaseðlum sjáist glögglega að kærandi hafi unnið 50% vinnu samhliða fæðingarorlofi. Kærandi hafi ekki verið að vinna fullt starf og nýta sér það að svíkja út peninga úr Fæðingarorlofssjóði á sama tíma. Hann hafi verið heima að sinna barninu. Ekki hafi verið ætlunin að svíkja út neina fjármuni heldur hafi hann hreinlega ekki áttað sig á að þar sem grunnlaun hans hefðu hækkað úr 619.618 kr. á meðan á viðmiðunartímabilinu hafi staðið upp í 730.706 kr. þegar fæðingarorlof hafi verið tekið út í upphafi ársins 2023 myndi það koma út eins og að hann hefði unnið of mikið. Kærandi hafi ekki unnið of mikið, hann hafi unnið nokkra yfirvinnutíma. Stundum hafi kærandi þurft að vera lengur í vinnunni til þess að þetta 50% fyrirkomulag gengi upp því að vinnuveitandi hans hafi verið að taka gríðarlegt tillit til erfiðra heimilisaðstæðna fjölskyldunnar.

Ákvæði 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof megi auðveldlega misskilja. Mánuðirnir sem verið sé að krefjast endurgreiðslu fyrir séu á árinu 2023 en ekki 2021 þegar barnið hafi fæðst. Í millitíðinni hafi átt sér stað kjarahækkanir, í tilfelli kæranda upp á 18%. Kærandi spyrji hvort íslenska ríkinu sé stætt á því að hirða kjarabætur sem foreldrar fái frá því að viðmiðunartímabil eigi sér stað og þar til fæðingarorlof sé tekið út. Það geti liðið þrjú ár frá viðmiðunartímabili og þar til að fæðingarorlof sé tekið út. Það hafi ekki verið tekið tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana né launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum kæranda frá viðmiðunartímabili og fram að því tímabili sem greitt sé fyrir.

Til þess að Fæðingarorlofssjóður kæmi ekki á eftir þeim hjónum með gríðarlega háan reikning hefði vissulega verið öruggast fyrir þau að kærandi hefði tekið út sitt fæðingarorlof að fullu, þ.e. 100% fæðingarorlof, og ekki dreift því. Um jafnréttismál sé að ræða. Vissulega sjái þau hjónin það núna þegar þau eigi að greiða tæplega 30% af orlofsgreiðslum kæranda til baka að auðvitað hefði bara verið best að eiginkonan, og tekjulægri aðili heimilisins, hefði verið heima lengur. Það hefði verið best að eiginkonan hefði verið heima, hvorki unnið sér inn lífeyrisgreiðslur né veikindarétt. Á meðan hefði karlmaðurinn á heimilinu haldið sínum tekjum án þess að íslenska ríkið væri á eftir þeim. Hann hefði þá unnið sér inn betri lífeyrisréttindi, betri veikindarétt og allt það sem launafólk vinni sér inn. Auðvitað eigi tekjulægri aðilinn (oftast konan í gagnkynja samböndum) bara að vera heima í þessari jafnréttisútópíu sem margir telji sér trú um að Ísland sé. Eða hvað?

Kærandi mótmæli hinni kærðu ákvörðun, en hann hafi aldrei fengið tækifæri til að laga hin meintu „brot“ á ofgreiðslum úr sjóðnum á meðan á orlofinu hafi staðið þar sem greiðsluáskorunin hafi borist löngu eftir úttekt fæðingarorlofsins. Fyrri greiðsluáskorunin sé dagsett 7. september og sú seinni 2. nóvember. Ef það eigi að fara á eftir saklausu fólki með þessum hætti þurfi að gera það þannig að fólk geti breytt tilhögun fæðingarorlofs. Ef tilkynning um þetta hefði borist strax hefðu þau breytt tilhögun fæðingarorlofsins þrátt fyrir að það hefði reynst mjög erfitt fyrir heimilið. Ekki sé um venjulegt heimili að ræða. Þau eigi þrjú börn og það elsta (sem hafi verið átta ára á meðan á úttöku fæðingarorlofs hafi staðið) sé með langvinnan og ólæknandi sjúkdóm. Hann sé með lyfjadreypi undir húð allan sólarhringinn, alla daga ársins og það sé lífshættulegt ef dreypið detti út, ef of stór skammtur sé gefinn af lyfjadreypinu eða of lítill skammtur. Svokallaður grunnskammtur sé gefinn af dreypinu allan sólarhringinn og síðan þurfi að gefa auka lyfjaskammt af dreypinu margoft yfir sólarhringinn, til dæmis með hverri máltíð. Stundum þurfi einnig að stöðva lyfjadreypið. Ekkert af þessu sé á færi átta ára gamals barns að ráða við og þetta sé ekki á færi neins fullorðins að ráða við nema einstaklings sem hafi undirgengist mikla þjálfun og hafi auk þess mikinn skilning á sjúkdómnum. Umönnunarbyrði foreldranna sé því gríðarleg og báðir aðilar eigi ekki möguleika á því að sinna fullu starfi á vinnumarkaði samhliða veikindum barnsins.

Öllum sé það ljóst að það að eiga nýfætt barn sem ekki hafi fengið dagvistun þýði að foreldri þurfi að vera heima með barnið, nema fjölskyldan hafi bakland sem geti aðstoðað. Það sé eðlilega ekki öllum ljóst hvers konar álag það sé á fjölskyldur að eiga barn með dauðlegan sjúkdóm en veikindi átta ára barnsins hafi haft áhrif á það hvernig þau foreldrarnir hafi þurft að nýta fæðingarorlofsrétt sinn. Þess vegna hafi þau brugðið á það ráð að kærandi væri í 50% fæðingarorlofi yfir nokkurra mánaða tímabil. Kærandi voni að litið verði á mannlega þáttinn í kærunni, skilningur sýndur og mildi yfir því að þau hafi verið að gera þeirra besta til að halda heimilinu á floti fjárhagslega, auk þess að halda barni á lífi með því að sinna erfiðum veikindum samhliða því að vera með lítið barn.

Meðfylgjandi launaseðlar sanni að kærandi hafi verið í 50% starfshlutfalli yfir fæðingarorlofstímann. Fyrirtæki kæranda greiði út eftir á og 15. hvers mánaðar. Því eigi launaseðill 15. janúar ekki við um fæðingarorlof í janúar.

Þess sé krafist að skerðingarákvæði laganna nái yfir kæranda og að málið verið látið niður falla vegna þess að hann hafi aldrei fengið viðvörun á þeim tíma sem hann hafi haft tækifæri til að breyta tilhögun fæðingarorlofs.

Heimili kæranda sé brothætt og með stærri áskoranir en flest önnur heimili. Það brjóti í honum hjartað ef ekki verði tekið tillit til þeirra, að minnsta kosti að einhverju leyti, og greiðsluáskorun látin niður falla eða lækkuð.  

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir janúar til og með maí 2023 þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá sínum vinnuveitanda á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2021.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. september 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir janúar til og með maí 2023. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Þar sem engin gögn, útskýringar, andmæli né ósk um lengri frest hafi borist frá kæranda hafi honum verið send greiðsluáskorun, dags. 18. október 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð ásamt 15% álagi. Í framhaldinu hafi borist skýringar frá kæranda ásamt launaseðlum og upplýsingum úr tímaskráningarkerfi, dags. 19. október 2023, auk skýringa vinnuveitanda, dags. 27. október 2023. Í kjölfarið hafi kæranda verið send ný greiðsluáskorun með lægri endurkröfufjárhæð, dags. 2. nóvember 2023, sem sé hin kærða ákvörðun. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og innsendum skýringum og gögnum að kærandi hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá komi fram í 7. og 8. málsl. sömu greinar að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.

Með umsókn, dags. 2. nóvember 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuði vegna barns sem hafi fæðst X 2021. Tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda og hann verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun, dags. 12. desember 2022. Í tölvupósti með greiðsluáætlun, dags. 12. desember 2022, hafi kærandi verið upplýstur um svigrúm til greiðslna frá vinnuveitanda samhliða skertu hlutfalli fæðingarorlofs.

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hans verið 905.706 kr. á mánuði sem hafi verið lagt til grundvallar við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna, enda hafi þau lækkað í 889.738 kr. frá því að viðmiðunartímabilinu hafi lokið og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs kæranda, þ.e. á tímabilinu maí 2021 til og með október 2021. Þannig hafi verið kannað hvort viðmiðunarlaun kæranda hefðu tekið breytingum til hækkunar, kæranda til hagsbóta, við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu í samræmi við 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020. Þá sé ekki heimilt að miða eingöngu við launakjör foreldris á því tímamarki er foreldri hefji töku fæðingarorlofs né að taka tillit til hugsanlegra launabreytinga eftir upphaf fæðingarorlofs foreldis við mat á ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna.

Tímabilið 9. til 31. janúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 216.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 661.165 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 445.165 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir janúar 2023 hafi kærandi þegið 1.035.705 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna tímabilið 9. til 31. janúar 2023 493.446 kr. Hann hafi því fengið 48.280 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum á því tímabili en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir 9. til 31. janúar 2023 sé því 29.888 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1.til 28. febrúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 905.706 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 605.706 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir febrúar 2023 hafi kærandi þegið 687.359 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna í febrúar 2023 687.359 kr. Hann hafi því fengið 81.653 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir febrúar 2023 sé því 48.567 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1.til 31. mars 2023 hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 905.706 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 605.706 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir mars 2023 hafi kærandi þegið 696.993 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna í mars 2023 696.993 kr. Hann hafi því fengið 91.287 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir mars 2023 sé því 56.039 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1.til 30. apríl 2023 hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 905.706 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 605.706 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir apríl 2023 hafi kærandi þegið 670.626 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna í apríl 2023 771.803 kr. Hann hafi því fengið 166.097 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir apríl 2023 sé því 100.871 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1.til 31. maí 2023 hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 905.706 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 605.706 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir maí 2023 hafi kærandi þegið 798.122 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna í maí 2023 640.945 kr. Hann hafi því fengið 35.239 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir maí 2023 sé því 18.680 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd, að viðbættu 15% álagi, óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt skýringum kæranda sé um að ræða greiðslu launa fyrir vinnu frá 9. janúar til og með maí 2023. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Í kæru geri kærandi athugasemd við mat Fæðingarorlofssjóðs á launahækkunum fram að upphafi fæðingarlofs. Samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 komi eins og áður segi skýrt fram með hvaða hætti og fyrir hvaða tímabil sé heimilt að taka tillit til breytinga á launum. Það hafi verið gert í máli þessu eins og rakið hafi verið að framan. Enga heimild sé að finna í lögunum til að framkvæma matið með öðrum hætti eða fyrir önnur tímabil en leiði af tilhögun fæðingarorlofs foreldris og ákvæðum laganna.    

Kærandi geri einnig athugasemd við að greiðsluáskorun hafi borist eftir að töku fæðingarorlofs hafi lokið. Þar sem eftirlit samkvæmt 40. gr. laga nr. 144/2020 byggi meðal annars á að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar við upplýsingar frá skattyfirvöldum sé óhjákvæmilegt annað en að slík samkeyrsla eigi sér stað nokkru eftir að fæðingarorlofi ljúki þegar nauðsynlegar upplýsingar séu orðnar tiltækar.

Þá geri kærandi athugasemd við að hann hafi ekki fengið viðvörun á þeim tíma sem hann hafi haft tækifæri til að breyta tilhögun fæðingarorlofs. Eins og áður segi hafi kæranda verið sendur tölvupóstur, dags. 12. desember 2022, í kjölfar tilkynningar hans um tilhögun fæðingarorlofs um nýtingu fæðingarorlofs í skertu hlutfalli samhliða störfum hjá vinnuveitanda. Í þeim tölvupósti hafi kæranda verið leiðbeint sérstaklega um svigrúm til greiðslna frá vinnuveitanda samhliða skertu hlutfalli fæðingarorlofs og kærandi hafi því haft tækifæri til að gera ráðstafanir til að forðast ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir töku fæðingarorlofs.

Samkvæmt gögnum málsins sé óumdeilt að kærandi hafi fengið greitt frá vinnuveitanda fyrir sama tímabil og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eigi við. Í lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé ekki að finna heimild til að fella niður eða lækka endurkröfu vegna aðstæðna eins og þeirra sem lýst sé í kæru á högum kæranda og fjölskyldu hans.

Þar sem greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli þær koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 254.045 kr. útborgað að viðbættu 15% álagi, 38.107 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 292.152 kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 2. nóvember 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 9. janúar til 31. maí 2023.

Í 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um viðmiðunartímabil og útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuð vegna barns síns sem fæddist X 2021. Kærandi var afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs frá 8. desember 2022 eða 36% fæðingarorlof í janúar 2023, 50% á tímabilinu febrúar til maí 2023 og 27% í júní 2023. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi þegar tekið 50% fæðingarorlof í nóvember 2021 og 77% í desember 2021. Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. desember 2022 kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili, frá maí 2020 til og með apríl 2021, hafi verið 905.706 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri því 600.000 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi fæðingarorlofs, þ.e. nóvember 2021, höfðu viðmiðunarlaun kæranda lækkað í 889.738 kr. en miðað var við hærri fjárhæðina við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu.

Kærandi fékk greiddar 216.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 9. til 31. janúar 2023 og var á þeim tíma einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur frá vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, eða 445.165 kr. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir þetta tímabil var kærandi í hlutastarfi og fékk greiddar 493.446 kr., eða 48.281 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Í febrúar 2023 fékk kærandi greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og var þá samkvæmt framangreindu heimilt að fá 605.706 kr. frá vinnuveitanda til að þiggja óskertar greiðslur frá sjóðnum. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir febrúarmánuð 2023 fékk kærandi 687.359 kr. frá vinnuveitanda sínum, eða 81.653 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Í mars 2023 fékk kærandi greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og var þá samkvæmt framangreindu heimilt að fá 605.706 kr. frá vinnuveitanda til að þiggja óskertar greiðslur frá sjóðnum. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir marsmánuð 2023 fékk kærandi 696.993 kr. frá vinnuveitanda sínum, eða 91.287 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Í apríl 2023 fékk kærandi greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og var þá samkvæmt framangreindu heimilt að fá 605.706 kr. frá vinnuveitanda til að þiggja óskertar greiðslur frá sjóðnum. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir aprílmánuð 2023 fékk kærandi 771.803 kr. frá vinnuveitanda sínum, eða 166.097 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Þá fékk kærandi greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði fyrir maí 2023 og var þá samkvæmt framangreindu heimilt að fá 605.706 kr. frá vinnuveitanda til að þiggja óskertar greiðslur frá sjóðnum. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir maímánuð 2023 fékk kærandi 640.945 kr. frá vinnuveitanda sínum, eða 35.239 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu.   

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi, óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi fékk ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 9. janúar til 31. maí 2023 þar sem hann fékk of háar greiðslur frá vinnuveitanda samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. það sem að framan er rakið. Fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda nemur 292.152 kr., að meðtöldu 15% álagi, en ákvæði 41. gr. laga nr. 144/2020 er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysis foreldris. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 41. gr. laganna skal fella niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem slík gögn hafa ekki verið lögð fram er ekki tilefni til niðurfellingu álagsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 9. janúar til 31. maí 2023 því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. nóvember 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 9. janúar til 31. maí 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta