Hoppa yfir valmynd
28. júní 2024

Toppstöður og stefnumótun

Að þessu sinni er fjallað um:

  • fund leiðtogaráðs ESB
  • formennskuáætlun Ungverja
  • ályktanir ráðherraráðs ESB um samskipti ESB við Ísland, Noreg og Liechtenstein
  • Uppbyggingarsjóð EES
  • innleiðingaráætlun vegna nýrrar löggjafar um flótta- og farandfólk

 

Brussel-vaktin kemur næst út föstudaginn 26. júlí nk.

 

Fundur leiðtogaráðs ESB

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Almennt um fundinn
  • Skipanir í æðstu embætti ESB
  • Ný stefnuáætlun leiðtogaráðsins
  • Samkeppnishæfni ESB
  • Öryggis- og varnarmál almennt
  • Málefni Úkraínu
  • Málefni Austurlanda nær

Almennt

Leiðtogaráð ESB kom saman í gær til síns fyrsta formlega fundar eftir Evrópuþingskosningarnar. Ráðið kom þó saman til óformlegs fundar þann 17. júní sl. þar sem niðurstöður kosninganna og skipan í æðstu stöður voru ræddar. Vonir stóðu raunar til að hægt yrði að afgreiða tilnefningar í þær þegar á þeim fundi en af því varð þó ekki. Mörg önnur mikilvæg mál voru til umræðu á formlega fundinum í gær þar á meðal ný stefnuáætlun leiðtogaráðsins (e. strategic agenda) ætluð sem leiðarljós fyrir næstu framkvæmdastjórn, málefni Úkraínu og árásarstríð Rússlands gagnvart landinu, málefni Austurlanda nær, öryggis- og varnarmál almennt, samkeppnishæfni ESB, málefni flóttamanna, stækkunarmálefni, fjölþáttaógnir, baráttan gegn gyðingahatri og kynþátta- og útlendingafordómum o.fl.

Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að fundurinn gæti staðið í tvo daga en til þess kom þó ekki og var fundinum lokið seint í gærkvöldi. Hér á eftir verður stuttlega fjallað um nokkur af helstu málefnum sem rædd voru á fundinum en öðru leyti er vísað til ályktana ráðsins um málefnin, sjá hér.

Skipanir í æðstu embætti ESB

Fyrir ráðinu lá að taka ákvarðanir er varða skipanir í þrjú af æðstu embættum ESB, þ.e. eftirfarandi:

  • Að tilnefna einstakling í stöðu forseta framkvæmdastjórnar ESB. (Endanlegt ákvörðunarvald er hjá Evrópuþinginu sem þarf að samþykkja tilnefningu með einföldum meirihluta atkvæða, þ.e. 361 atkvæði.)
  • Að kjósa næsta forseta leiðtogaráðsins.
  • Að tilnefna einstakling í stöðu utanríkismálastjóra ESB. (Evrópuþingið þarf á síðari stigum að veita samþykki fyrir tilnefningunni áður en ráðið skipar endanlega í embættið og jafnframt þarf forseti framkvæmdastjórnar ESB, þegar hann hefur verið kjörin af Evrópuþinginu, að staðfesta tilnefninguna - þannig er tilnefning í stöðu utanríkismálastjóra með óbeinum hætti einnig undir við kjör forseta.).

Aukinn meirihluti (e. qualified majority) í leiðtogaráðinu er nægjanlegur til að komast að niðurstöðu um framangreint. Ákvarðanir leiðtogaráðsins um þessi embætti endurspegla vitaskuld niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins og þann meirihluta sem þar er nú í myndun og leiðtogarnir, þ.e. aukinn meirihluti þeirra, telja að sé nægjanlegur til að styðja við það forsetaefni sem þeir tilnefna. Af þeim niðurstöðum ráðsins sem nú liggja fyrir er ljóst að áframhaldandi meirihluta samstarf EPP, S&D og Renew Europe er í kortunum, en sú niðurstaða hefur raunar verið í kortunum alveg frá því að niðurstöður Evrópuþingskosninganna lágu fyrir, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 14. júní sl. um úrslitin. Þannig var það samþykkt af meirihluta ráðsins að eftirfarandi fulltrúar framangreindra flokka skipi umræddar toppstöður ESB næstu fimm árin:

  • Ursula von der Leyen (EPP), er tilnefnd til áframhaldandi setu í stóli forseta framkvæmdastjórnar ESB.
  • António Costa (S&D), fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals, var kosinn næsti forseti leiðtogaráðs ESB (kosið er í embættið til tveggja og hálfs árs í senn en fyrirfram er gert ráð fyrir að Costa sitji í tvö tímabil, sem er hámark, eða í fimm ár.)
  • Kaja Kallas (Renew Europe), fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, er tilnefnd sem næsti utanríkismálastjóri ESB.

Framangreindar ákvarðanir ráðsins endurspegla ekki endanlega hvernig meirihluti í þinginu verður samsettur þegar upp er staðið. Þannig er ekki útilokað að þingflokkur græningja styðji tilnefningu forsetans. Á hinn bóginn virðist útilokað að ECR verði í einhverri mynd formlegur aðili að tilnefningunni enda hafa bæði sósíalistar og frjálslyndir boðað að þeir myndu þá falla frá stuðningi sínum.Það skýrir sennilega líka hvers vegna forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, sem jafnframt er forustumaður ECR, gat ekki verið hluti af því samráðsferli sem leiddi til þeirrar niðurstöðu jafnvel þótt hún léti í ljós óánægju sína með framangreindar ákvarðanir þar sem hún taldi að með þeim væri ekki nægjanlegt tillit tekið til úrslita kosninganna og stöðu ECR sem, samkvæmt stöðunni eins og hún lítur út núna í þinginu, hefur á að skipa þriðja stærsta þingflokknum. Kaus hún gegn Costa og Kallas en sat hjá við tilnefningu von der Leyen (VdL). Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, lagðist einnig gegn þessum ákvörðunum að hluta, kaus, eins og gert hafði verið ráð fyrir, gegn VdL, sat hjá gagnvart Kallas en kaus með Costa.

Vettvangur valdataflsins færist nú yfir til Evrópuþingsins en VdL þarf eins og áður segir að tryggja sér meirihluta stuðning á þinginu, 361 atkvæði, til að ná kjöri. Framangreindir flokkar hafa, eins og staðan er nú, samtals 399 þingmenn. Svo sem nánar var rakið og útskýrt í Vaktinni 14. júní sl. þá er alls ekki víst að þessi þingmeirihluti dugi til enda viðbúið að ýmsir þingmenn flokkanna geti gengið úr skaftinu. Þannig virðist sem mjótt geti orðið á munum í forsetakjörinu. Ýmislegt á þó eftir að skýrast í þessum efnum, m.a. er enn ekki fullljóst hvernig þingmenn munu skipta sér í þingflokka þegar þingið kemur saman um miðjan næsta mánuð. Þá hefur VdL einnig ýmis spil á hendi til að tryggja sér atkvæði í þinginu þvert á þingflokka og felast þau spil annars vegar málefnasamningum og hins vegar í verkskipulagsvaldinu, þ.e. hvernig störfum er skipt á milli framkvæmdastjóraembætta í framkvæmdastjórninni og hvaða framkvæmdastjórastól hvert aðildarríki fær í sinn hlut þegar ný framkvæmdastjórn verður skipuð í heild sinni, en um það hefur kjörinn forseti mikið að segja. Von der Leyen verður þó að fara afar varlega í að biðla til þingmanna ECR enda gæti það þýtt að hún missi stuðning bæði S&D og Renew. VdL er þó talin eiga góða möguleika, eins og áður segir, að tryggja sér atkvæði úr röðum græningja jafnvel þótt þeir hafi ekki stutt hana fyrir fimm árum síðan.

Framangreind niðurstaða ráðsins um skipanir í embætti er í samræmi við það sem gert hefur verið ráð fyrir að yrði niðurstaðan nú um nokkurt skeið og voru þessar tillögur einnig á borðum á fundi ráðsins 17. júní sl.

Í niðurstöðum ráðsins er ekki fjallað um embætti forseta Evrópuþingsins, enda á leiðtogaráðið enga formlega aðkomu að kjöri þingsins í það embætti. Hins vegar liggur fyrir að kjör í það embætti er einnig hluti af samkomulagi leiðtoga í leiðtogaráðinu og gerir samkomulagið ráð fyrir að Roberta Metsola (EPP) verði kjörin til áframhaldandi setu í embætti forseta þingsins til næstu tveggja og hálfs ára með tilstyrk meirihlutans.

Ný stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB

Ný fimm ára stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB (e. strategic agenda) var samþykkt á fundinum. Áætluninni er ætlað að marka stefnu ESB til næstu fimm ára í grófum dráttum og er henni skipt upp í þrjá hluta þar sem sett eru stefnumarkmið fyrir ESB undir merkjum:

  • frelsis og lýðræðis (e. A free and democratic Europe)
  • styrks og öryggis (e. A strong and secure Europe)
  • hagsældar og samkeppnishæfni (e. A prosperous and competitive Europe)

Undirbúningur að áætluninni hefur staðið yfir síðastliðið ár, sbr. nánar umfjöllun Vaktarinnar 17. maí sl. þar sem stefnumótunarferlið framundan er rakið og þær áherslur sem uppi hafa verið á undirbúningstímanum. Nánar verður fjallað um nýja stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB í Vaktinni á næstunni.

Málefni Úkraínu

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, var sérstakur gestur ráðsins í upphafi fundarins þar sem m.a. var undirrituð sameiginleg yfirlýsing ESB og Úkraínu um sameiginlegar öryggisskuldbindingar til næstu fimm ára. Yfirlýsingin er athyglisverð og gefur skýr skilaboð og áréttingu, nú í upphafi nýs stefnumótunartímabils, að ESB og aðildarríki þess hyggjast standa með Úkraínu í varnarbaráttu þeirra gegn Rússum eins lengi og þörf krefur.

Samkeppnishæfni ESB

Í ályktunum ráðsins um samkeppnishæfni ESB er sérstaklega vikið að uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar ESB. Kallar leiðtogaráðið eftir því við  framkvæmdastjórn ESB að hún flýti vinnu við gerð tillagna á því sviði. Sjá til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar í ESB, sbr. einnig umfjöllun um skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins í Vaktinni 19. apríl sl.

Öryggis- og varnarmál

Öryggis- og varnarmál, sbr. nýja stefnumótun framkvæmdastjórnar ESB á þessu sviði, voru til umræðu á fundinum, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. um þá stefnumótun.

Málefni Austurlanda nær

Málefni Austurlanda nær voru til umræðu á fundinum og þá vitaskuld einkum hin grafalvarlega staða sem uppi er á Gasa en einnig hin aukna spenna sem hefur verið að byggjast upp á landamærum Ísraels og Líbanons. Í ályktunum ráðsins nú er líkt áður reynt að gæta jafnvægis í fordæmingu á hryðjuverkum Hamas, sem mörkuðu upphafið af þeim átökum sem nú geysa, um leið og lýst er afar þungum áhyggjum af stöðunni á Gasa og í nágrannaríkjum.

Formennskuáætlun Ungverja

Ungverjar taka við formennsku í ráðherraráði ESB á mánudaginn kemur, 1. júlí, en þá lýkur formennskutíð Belga í ráðinu. Formennska í ráðinu gengur á milli aðildarríkja ESB í ákveðinni röð og er formennskutímabilið sex mánuðir. Stendur formennskutímabil Ungverja samkvæmt því frá 1. júlí – 31. desember 2024 en þá munu Pólverjar taka við formennskukeflinu, þar á eftir Danir og síðan Kýpverjar á fyrri hluta árs 2026.

Ráðherraráð ESB er ein þriggja megin valdastofnana ESB. Hinar tvær eru Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB. Algengt er að ráðherraráðinu (e. Council of the European Union) annars vegar og leiðtogaráði ESB (e. European Council) hins vegar sé ruglað saman í almennri umræðu en þar er í raun um tvær aðskildar stofnanir sambandsins að ræða. Leiðtogaráðið, þar sem sæti eiga leiðtogar aðildarríkja ESB, hefur tiltölulega fáar formlegar valdheimildir en áhrifavald þess er vitaskuld mikið og afgerandi í stærri stefnumálum. Ráðherraráð ESB fer hins vegar m.a. með hið formlega löggjafarvald á vettvangi ESB ásamt Evrópuþinginu.

Ráðherraráð ESB starfar í deildum og taka ráðherrar í ríkisstjórnum aðildarríkjanna þátt í fundum ráðsins í samræmi við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðherra innan ríkisstjórnar hvers aðildarríkis.

Er það hlutverk formennskuríkis á hverjum tíma að stjórna fundum í öllum deildum ráðherraráðs ESB en formennskuríki getur þó óskað eftir því að fulltrúar annarra ríkja fari með formennsku í einstökum deildum eða undirnefndum ráðsins ef þannig stendur á. Þá stýrir formennskuríkið einnig samningaviðræðum fyrir hönd ráðsins við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB í þríhliða viðræðum um löggjafarmálefni og önnur málefni eftir atvikum. Umtalsvert áhrifavald fylgir formennskunni á hverjum tíma enda geta áherslur formennskuríkis haft mikið um það að segja hvort tiltekin mál fái framgang eða ekki. Á hinn bóginn er þess jafnan vænst, venju samkvæmt, að formennskuríkið gegni hlutverki sáttamiðlara (e. honest broker) í viðræðum aðildarríkjanna innan ráðsins. (Sjá hér útskýringarsíðu á vef ráðsins um hlutverk ráðherraráðsins og formennskuríkis.)

Ungverjar kynntu formennskuáætlun sína þann 18. júlí sl. með slagorðinu „Make Europe Great Again!“ sem aftur hefur verið skammstafað MEGA. Slagorðið skapar augljós hugrenningatengsl við slagorð Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, og verður vart annað ráðið en að það hafi einmitt verið ætlunin.

Ungverjar taka við formennsku í ráðherraráðinu á krítískum tímapunkti nú þegar kosningar til Evrópuþingsins eru nýafstaðnar og þegar fyrir liggur að skipa á ný í öll helstu embætti ESB, sbr. framangreinda umfjöllun um fund leiðtogaráðs ESB, og þegar ástand heimsmála er eins og raun ber vitni. Í formennskuáætlun Ungverja kemur skýrt fram að þeir muni beita sér fyrir greiðum umskiptum á milli tímabila samkvæmt framangreindu og jafnframt gæta þess að efnisatriði nýrrar stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB, sbr. umfjöllun hér að framan, skili sér í heildarstefnumörkun framkvæmdastjórnar ESB til næstu fimm ára.

Eins og vikið hefur verið að í Vaktinni við ýmis tilefni á undanförnum misserum þá hefur afstaða ríkjandi stjórnvalda í Ungverjalandi til ýmissa grundvallarmálefna verið á skjön við ríkjandi stefnu ESB. Á þetta ekki síst við um afstöðu Ungverjalands til árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 2. febrúar sl. um langtímastuðning við Úkraínu, sbr. einnig afstöðu þeirra til stækkunarstefnu ESB, sbr. þá einkum til aðildarumsóknar Úkraínu að ógleymdri þeirri hörðu deilu sem uppi hefur verið á milli framkvæmdastjórnar ESB og Ungverjalands vegna athugasemda framkvæmdastjórnarinnar um stöðu réttarríkis í landinu, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 2. desember 2022 og 16. desember sama ár um þau mál.

Með hliðsjón af framangreindu, meðal annars, hefur víða á vettvangi ESB mátt greina áhyggjur af því hvernig Ungverjar muni sinna formennskuhlutverkinu og axla þá ábyrgð sem því fylgir. Slagorðið sem áður var vikið að varð ekki til að létta þær áhyggjur en þess ber þó að geta að slagorðið sem slíkt kemur hvergi fram í formennskuáætlun Ungverja né er það að finna í aðalútgáfu af formennskumerki þeirra, enda þótt útgáfa með slagorðinu sé einnig til og í dreifingu af hálfu Ungverja, sbr. hér. Verður reynslan að leiða í ljós hvernig þeim farnast hlutverkið.

Ef litið er til fyrirliggjandi formennskuáætlunar Ungverja þá verður þó ekki séð að hún, út af fyrir sig, gefi tilefni til að hafa áhyggjur. Áætlunin er í raun mjög hefðbundin og þar er slegið á kunnuglega strengi auk þess sem sérstaklega er áréttað í upphafi skjalsins að Ungverjar ætli sér að taka málamiðlunarhlutverkið alvarlega með frið, öryggi og velsæld Evrópu að leiðarljósi. Þá verður ekki annað sagt en að formennskuáætlunin og þær megináherslur sem þar eru séu í góðu samræmi við nýsamþykkta stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB.

Í inngangi formennskuáætlunarinnar eru síðan dregin fram sjö almenn forgangsmál en þau eru eftirfarandi:

  1. Nýr sáttmáli um samkeppnishæfni (e. New European Competitiveness Deal)
    Þörf á nýjum sáttmála í þessu skyni er rökstudd m.a. með vísan til aukinnar alþjóðlegrar samkeppni, raskana sem orðið hafa á aðfangakeðjum, háu orkuverði, aukinni verðbólgu o.s.frv. Tekið er fram að horft verði til tillagna í nýlegri skýrslu Enrico Letta, fv. forsætisráðherra Ítalíu, sbr. umfjöllun Vaktarinnar dags. 19. apríl sl. um þá skýrslu, sem og til tillagna í væntanlegri skýrslu sem Mario Draghi, annar fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og fv. seðlabankastjóri Evrópu, vinnur nú að um samkeppnishæfni ESB til framtíðar.

  2. Efling varnarmálastefnu ESB (e. The reinforcement of European defence policy)
    Þetta áherslumál er rökstutt með vísan til þróunar á sviði öryggis- og varnarmála sem kalli á að ESB og aðildaríki þess auki varnarviðbúnað og viðbragðsgetu sína verulega. Lögð er áhersla á að ESB verði í auknum mæli fær um að standa á eigin fótum á þessu sviði og er í þessu efni m.a. vísað til nýlegrar stefnu ESB á sviði varnarmála, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. um þá stefnu.

  3. Verðleikamiðuð stækkunarstefna (e. A consistent and merit-based enlargement policy)
    Í áætluninni kemur fram það mat ungversku formennskunnar að stækkun ESB á umliðnum árum hafi reynst afar farsæl og er þar jafnframt lýst yfir stuðningi við áframhaldandi stækkun sambandsins enda sé stækkunarferlið samræmt og framgangur umsóknarríkja byggður á verðleikum. Í þessu sambandi er sérstaklega vikið að mögulegri inngöngu umsóknarríkjanna á Vestur-Balkanskaga, þ.e. Serbíu, Albaníu, Norður-Makedóníu og Bosníu-Hersegóvínu, og áhersla lögð á að jafnvægi ríki í framgangi aðildarferlis einstakra umsóknarríkja. Athygli vekur að ekkert er minnst á Úkraínu og Moldóvu í þessu samhengi en þess ber þó að geta að belgíska formennskan lauk formennskutíð sinni með ríkjaráðstefnum við bæði þessi ríki sem hrindi viðræðum við þau af stokkunum. Tæknilega á því ekkert að standa því í vegi að þær geti siglt áfram meðan á formennsku Ungverjalands sttendur. Heilt yfir virðast áherslur Ungverja í þessum málaflokki vera í samræmi við gildandi stækkunarstefnu ESB, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 10. nóvember sl.

  4. Hertar aðgerðir gegn ólögmætum fólksflutningum (e. Stemming illlegal migration)
    Áherslumálið er rökstutt með vísan til áskorana og byrða sem ólögmætir fólksflutningar til ESB hafa haft í för með sér fyrir einstök aðildarríki og þá einkum þeirra sem liggja að ytri landamærum ESB. Í þessu sambandi er m.a. lögð áhersla eflingu Schengen-samstarfsins, en einnig að styrkja samstarf við nágrannaríki ESB. Er því lýst yfir að ungverska formennskan muni vinna að innleiðingu nýrrar löggjafar í málefnum flótta- og farandsfólks, sem tókst loks að klára endanlega í tíð belgísku formennskunnar, sbr. umfjöllun hér að neðan um nýja innleiðingaráætlun sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út vegna þeirrar löggjafar. Ljóst er þó að ungversk stjórnvöld telja hina nýju löggjöf ekki gallalausa og að leita þurfi frekari lausna.

  5. Mótun samheldnisstefnu til framtíðar (e. Shaping the future of cohesion policy)
    Fram kemur að vel mótuð samheldnisstefna sé lykillinn að því að draga úr svæðisbundnu misræmi og misskiptingu, bæði efnahagslegri og félagslegri. Bent er á að nýjasta samheldnisskýrsla framkvæmdastjórnar ESB sýni að enn er talsverð misskipting á milli svæða og er málefnið þess vegna sett í forgang af hálfu Ungverja. Sjá í þessu samhengi m.a. umfjöllun Vaktarinnar hér að neðan um Uppbyggingarsjóð EES, en tilgangur þess sjóðs er einmitt að draga úr misræmi og misskiptingu á hinu evrópska efnahagssvæði.

  6. Landbúnaðarstefna sem tekur mið af hagsmunum bænda (e. A farmer-oriented EU agricultural policy)
    Fram kemur að evrópskur landbúnaðar hafi aldrei staðið frammi fyrir eins miklum áskorunum og nú. Þar spili inn í loftslagsbreytingar, vaxandi framleiðslukostnaður, aukinn innflutningur frá þriðju ríkjum og íþyngjandi regluverk, m.a. vegna umhverfisverndar, sem dregið hafi úr samkeppnishæfni greinarinnar. Ungverska formennskan hyggst því þannig beita sér fyrir því að fundið verði betra jafnvægi milli markmiða er lúta að framkvæmd Græna sáttmálans og þess að tryggja stöðugleika í greininni og að tryggja viðunandi lífskjör bænda. Sjá til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 1. mars sl. um mótmæli bænda sem voru áberandi og fyrirferðarmikil í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins.

  7. Lýðfræðilegar áskoranir (e. Addressing demographic challenges)
    Fyrirséð er að áskoranir vegna lýðfræðilegra breytinga, m.a. vegna hækkandi meðalaldurs og öldrunar, munu aukast mjög á komandi árum sem geti stofnað efnahagslegri velmegun og samkeppnishæfni ESB í hættu. Vill ungverska formennskan vekja sérstaka athygli á þessum áskorunum með því að setja þetta fram sem forgangsmál á umræðuvettvangi ráðsins. Er í þessu sambandi m.a. vísað til nýlegrar orðsendingar framkvæmdastjórnar ESB þar sem kynnt eru stefnutæki til að bregðast við lýðfræðilegri þróun, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. október sl., um þá orðsendingu.

Auk framangreindra forgangsmála er í formennskuáætluninni fjallað um málefni ESB á breiðum grundvelli og umfjölluninni skipt upp í samræmi við verkaskiptingu á milli deilda ráðherraráðsins, sjá hér formennskuáætlunina í heild sinni.

Ályktanir ráðherraráðs ESB um samskipti ESB við Ísland, Noreg og Liechtenstein

Ráðherraráð ESB samþykki hinn 25. júní sl. ályktanir um samskipti ESB við Vestur-Evrópuríki sem standa utan ESB. Tekur samþykktin til ályktana um samskipti ESB við EES/EFTA-ríkin Ísland, Noreg og Liechtenstein auk þess sem fjallað eru um samskiptin við smáríkin Andorra, San Marínó og Mónakó og loks jafnframt við Færeyjar. Þá er að auki ályktað sérstaklega um stöðu EES-samstarfsins.

Ráðherraráð ESB ályktar með þessum hætti á tveggja ára fresti og var síðasta ályktun ráðsins samþykkt 21. júní 2022.

Ályktanir ráðherraráðsins á þessu sviði eru undirbúnar af sérstökum EFTA vinnuhópi ráðsins (e. Working Party on European Free Trade Association) og mættu sendiherra Íslands í Brussel, Kristján Andri Stefánsson, og Katrín Sverrisdóttir, forstöðumaður EES-samræmingar í sendiráðinu, á fund vinnuhópsins 14. febrúar sl. þar sem þau gerðu ítarlega grein fyrir stöðu mála á Íslandi og afstöðu Íslands til samstarfsins við ESB á vettvangi EES-samningsins og utan hans.

Ályktanir ráðherraráðsins nú fjalla um ýmsa þætti í samskiptum ESB við framangreind ríki og segja má að með þeim marki ráðið afstöðu sína og áhersluatriði í þeim samskiptum en á meðal þess sem fram kemur í ályktunum er eftirfarandi:

  • Ráðið áréttar mikilvægi samstöðu andspænis árásarstríði Rússlands gagnvart Úkraínu og er stuðningi Íslands, Liechtenstein og Noregs við þvingunaraðgerðir ESB gagnvart Rússlandi fagnað.

  • Ráðið lýsir Íslandi sem nánu og áreiðanlegu samstarfsríki ESB og að EES-samningurinn sé hornsteinn þeirra samskipta. Íslandi er sérstaklega hrósað fyrir frammistöðu sína er það gegndi formennsku í Evrópuráðinu (Council of Europe) frá nóvember 2022 til maí 2023, m.a. með því að hafa haft frumkvæði af því að koma á fót tjónaskrá vegna árasárstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu. Ráðið fagnar góðum samskiptum við Ísland á sviði fiskveiðimála og segir það sameiginlega hagsmuni beggja aðila að styrkja tvíhliða samskiptin á þessu sviði. Hins vegar hvetur ráðið Ísland til að hlíta hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins og falla frá fyrirvörum við samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (Convention on International Trade in Endangered Species - CITES), sbr. lög frá Alþingi 85/2000.

  • Ályktanir ráðsins um samskiptin við Noreg eru almennt sömuleiðis jákvæðar og Noregi lýst sem mikilvægu og nánu samstarfsríki ESB, m.a. á sviði öryggis- og varnarmála, auk þess að vera áreiðanlegur birgir fyrir olíu og gas. Hins vegar slær við annan tón þegar kemur að umfjöllun um samskipti ESB og Noregs á sviði fiskveiðamála. Ráðið harmar (e. "deplores") skort á árangri í viðræðum um stjórnun sameiginlegra stofna og skort á samstarfsvilja af hálfu Norðmanna. Sömuleiðis harmar ráðið einhliða ákvarðanir Noregs um hámarksafla á makríl sem gangi lengra en stofninn þoli sem og takmarkanir á heimildum fiskiskipaflota aðildarríkjanna til að veiða í norskri lögsögu.

  • Ályktanir ráðsins um samskiptin við Liechtenstein eru jafnframt jákvæðar.

  • Ráðið er afar jákvætt í afstöðu sinni gagnvart EES-samningnum þar sem 30 ára afmæli samningsins er fagnað og litið á samninginn sem fyrirmynd að samstarfi náinna samstarfsríkja. Hins vegar er áréttað mikilvægi þess að vinna á upptökuhallanum og eru nokkrar lagagerðir sem setið hafa á hakanum um alllangt skeið nefndar í því sambandi.

Uppbyggingarsjóður EES

Ráðherraráð ESB samþykkti á fundi 25. júní sl. fyrirliggjandi samkomulag EES/EFTA-ríkjanna og ESB um fjárframlög í Uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið 2021-2028 og um tollkvóta fyrir tilteknar sjávarafurðir frá Íslandi inn á markað ESB fyrir sama tímabil.

Sjá nánar um samkomulagið í umfjöllun Vaktarinnar 8. desember sl.

Alþingi heimilaði stjórnvöldum að samþykkja amkomulagið 22. júní sl.

Innleiðingaráætlun vegna nýrrar löggjafar um flótta- og farandfólk

Hinn 12. júní sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB sameignlega innleiðingaráætlun vegna nýrrar löggjafar um málefni flótta- og farandfólks (e. Common Implementation Plan for the Pact on Migration and Asylum). Löggjafarpakkinn, sem var endanlega samþykktur 14. maí sl., samanstendur af 10 lagagerðum, reglugerðum og tilskipunum. Gerðirnar tóku gildi 20 dögum eftir að þær birtust í stjórnartíðindum ESB, þ.e. þriðjudaginn 11. júní sl. og munu þær koma til framkvæmda að tveimur árum liðnum eða í júní 2026. Fjallað var um löggjafarpakkann í Vaktinni 19. janúar sl. þegar samkomulag um efni hans lá fyrir í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB.

Innleiðingaráætlunin samanstendur af sjálfstæðum en nátengdum meginstoðum sem varða ákveðna lykilþætti í löggjafarpakkanum sem eru eftirfarandi:

  1. Nýr fingrafaragagnagrunnur (EURODAC)
  2. Nýtt ferli svo ná megi betri stjórn á ytri landamærum Schengen-svæðisins
  3. Viðunandi móttökuúrræði
  4. Sanngjarnt, skilvirkt og samræmt hæliskerfi
  5. Skilvirkt og sanngjarnt brottvísunarkerfi
  6. Sanngjarnt og skilvirkt ábyrgðarkerfi (e. responsibility)
  7. Samábyrgðarkerfi (e. solidarity)
  8. Áætlanagerð um framtíðarstefnu í hælismálum og krísustjórnun
  9. Nýjar varnir fyrir umsækjendur um vernd og einstaklinga í viðkvæmri stöðu
  10. Endurbætt kvótaflóttakerfi (e. Resettlement)
  11. Skilvirkari inngilding

Um afar umfangsmikla löggjöf er að ræða sem hefur það að markmiði að ná betri yfirsýn og stjórn á málefnum einstaklinga í ólögmætri för innan Schengen-svæðisins og til að bæta og hraða málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Líkt og fjallað var um í Vaktinni 19. janúar sl. hefur hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB einkum lotið að því að tryggja skýra afmörkun á almennum málsmeðferðarreglum ESB í málum er varðar alþjóðlega vernd, þ. á m. hvað varðar samábyrgðareglur ESB, og þeim reglum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða á grundvelli Schengen-samningsins og samnings um þátttöku Íslands í Dyflinnarsamstarfinu svonefnda og fingrafaragagnagrunni Eurodac.  

Ísland hefur á vettvangi ráðherraráðs ESB áréttað að Ísland muni innleiða að fullu þær gerðir sem það er skuldbundið til að innleiða á grundvelli Schengen-samningsins og samnings Íslands um aðild að Dyflinnarsamstarfinu og Eurodac. Jafnframt hefur verið gefið út að fyrir Ísland sé mikilvægt að skoða hælispakka ESB í heild sinni til að tryggja samræmi í allri framkvæmd.

Framkvæmdastjórn ESB mun halda utan um innleiðingarferlið innan aðildarríkja ESB og samstarfsríkja Schengen eftir því sem við á og mun Ísland taka þátt í því ferli.

Svo tryggja megi að innleiðing hælispakkans verði að fullu lokið í aðildarríkjum ESB og samstarfsríkjum Schengen, Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein, þegar reglurnar eiga að koma til framkvæmda í júní 2026 ber hverju ríki að útbúa landsáætlun sem á vera tilbúin 12. desember nk. Landsáætlun er ætlað að taka mið af ofangreindum meginstoðum og fela í sér skýra tímaramma fyrir innleiðingu. Í landsáætlun Íslands verður lögð áhersla á þær meginstoðir sem rúmast innan skuldbindinga Íslands en einnig þarf að móta afstöðu til þeirra gerða, eins og áður segir, sem Ísland er ekki skuldbundið til að innleiða en stendur eftir sem áður til boða að gera.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta