Hoppa yfir valmynd
3. maí 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun RSK um endurgreiðslu virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 3. maí 2013
Tilv.: FJR13020083/16.2.5

Efni: Kæra á ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2012, um lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 18. febrúar 2013, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2012. Í ákvörðun ríkisskattstjóra er beiðni yðar um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað lækkuð vegna vinnu við lagnir og rotþró þar sem um vélavinnu væri að ræða.

Málavextir og málsástæður
Þann 18. febrúar 2013 móttók ráðuneytið kæru yðar vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2012. Í kærunni er farið fram á að reikningar vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við húsnæði yðar að [...], […], verði endurmetnir og voru með kærunni lagðir fram nýir og endurbættir reikningar.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2012, kemur fram að honum hafi borist beiðni um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af vinnu við húsnæði yðar að […], […]. Ríkisskattstjóri hafnaði endurgreiðslu samkvæmt beiðninni með vísan til þess að samkvæmt framlögðum reikningum virtist sem um vélavinnu við rotþró væri að ræða. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 3. gr. og 1.-5. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990 taki réttur til endurgreiðslu ekki til virðisaukaskatts sem greiddur er af efni og akstri og af vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá húsi, vinnu stjórnenda vinnuvéla, jafnt þungavinnuvéla sem véla iðnaðarmanna o.fl. á byggingarstað, vinnu sem unnin er á verkstæði og vinnu sem unnin er með vélum sem settar hafa verið upp á byggingarstað til aðvinnslu á vöru eða efni til íbúðarbyggingar, endurbóta eða viðhalds ef þessi vinna er að jafnaði unnin á verkstæði eða í verksmiðju og vinnu við ræstingu, garðslátt, skordýraeyðingu og aðra reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis sem ekki verði talin til viðhalds eignar. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt framlögðum reikningum virtist sem um vélavinnu væri að ræða vegna lagfæringa á frárennsli við skipti á rotþró frá húsi.

Með kæru til ráðuneytisins fylgdu ný gögn þar sem reikningar báru með sér að ekki væri um vélavinnu að ræða, heldur aðra vinnu við umrædda rotþró og frágang á lögnum. Ekki væri farið fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vélavinnu. Nemur endurgreiðslubeiðnin samkvæmt þessu 72. 885 kr.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra vegna málsins. Í umsögn, dags. 26. apríl 2013, féllst ríkisskattstjóri á það með kæranda og í ljósi nýrra gagna og framfærðra skýringa, að honum bæri réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli framlagðra reikninga.

Forsendur og niðurstaða
Í XIII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Fram kemur að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslna. Á grundvelli 42. gr. var sett reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XV í lögum nr. 50/1988 er eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2014, gert kleift að fá endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna. Jafnframt er eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2014, gert kleift að fá endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.

Á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988 hefur verið sett reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði, auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur jafnframt fram að endurgreiða skuli eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess sem og vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðisins.

Kveðið er á um heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbyggingar, endurbóta og viðhalds í reglugerð nr. 449/1990. Ber því að líta til þeirra ákvæða sem þar eiga við í máli þessu, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 440/2009. II. kafli reglugerðar nr. 449/1990 ber heitið ,,Um endurgreiðslu vegna nýbyggingar, endurbóta og viðhalds”. Í 3. gr. reglugerðarinnar er greint frá þeim virðisaukaskatti sem endurgreiðslan tekur til. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar tekur endurgreiðsla sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna við endurbætur og viðhald þess til allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Í 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990 er þó að finna undantekningu frá 3. gr. reglugerðarinnar en þar segir að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. taki endurgreiðslan ekki til virðisaukaskatts sem greiddur er af vinnu stjórnenda vinnuvéla, jafnt þungavinnuvéla sem véla iðnaðarmanna o.fl. á byggingarstað.

Í máli þessu liggur fyrir að um var að ræða vinnu sem fólst í því að moka með skóflu við frágang á lögnum.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að um hafi verið að ræða vinnu sem endurgreiðslukræf er skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2012, um að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við rotþró er felld úr gildi.
Fallist er á beiðni kæranda um endurgreiðslu á virðisaukaskatti að fjárhæð 72.885 kr.



Fyrir hönd ráðherra


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta