Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2022

Íslenskur sérfræðingur lagði áherslu á þolendamiðaða nálgun í mansalsmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í Vín

Alda Hrönn Jóhannsdóttir í pallborði á fundi vinnuhóps Sameinuðu þjóðanna um mansal - mynd

„Við þurfum að gera allt sem við mögulega getum til að berjast gegn mansali, bera kennsl á fórnarlömb, aðstoða þau og hjálpa. Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað og það er það sem skiptir máli. Breytingin byrjar í rauninni hjá okkur sjálfum,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Mansal og smygl á fólki hefur verið í brennidepli hjá fastanefnd Íslands í Vínarborg síðustu daga en 29.-30. júní fór fram á vettvangi fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) í Vínarborg árlegur fundur alþjóðlegs samstarfshóps um mansal. Alda Hrönn tók þátt í fundinum ásamt því að vera með framsögu og sitja í pallborði sérfræðinga sem fulltrúi Íslands um málefnið en hún var tilnefnd af hálfu Vesturlandahópsins.

Alda deildi reynslu frá Íslandi við að rannsaka mansalsmál og sækja mansala til saka en horft hefur verið til þess að þróaðar hafi verið aðferðir þar sem þykja til fyrirmyndar. Voru rúmlega 300 sérfræðingar og embættismenn um heim allan sem fylgdust með og tóku þátt í fundinum. Framsaga Öldu var áhrifarík og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið.

Alda lagði áherslu á þolendamiðaða nálgun í mansalsmálum og að beitt væri heildstæðri nálgun þar sem allir hlutaðeigandi aðilar eru virkjaðir á sama tíma.

„Mikil þörf er á heildstæðri, kerfisbundinni nálgun sem knúin er áfram af pólitískum vilja og fjármögnun stjórnvalda, samvinnu og þekkingu. Við höfum komist að því að menning sem byggir á sameiginlegu eignarhaldi, miðlun þekkingar, gagnkvæmu trausti og samvinnu er frumforsenda og lykill að framförum í baráttunni gegn mansali.“

Samstarfshópurinn um mansal starfar í umboði aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi (UNTOC) og bókunarinnar um mansal sem er viðbót við þann samning.

Bókunin um mansal var samþykkt með ályktun Allsherarþings Sameinuðu þjóðanna 55/25 og tók gildi 25. desember 2003. Bókunin er þar með fyrsta lagalega bindandi gerðin á alþjóðasviði þar sem alþjóðleg skilgreining á mansali er samþykkt. Með því er leitast við að samræma aðferðir ríkja og styrkja alþjóðlega samvinnu við rannsókn og saksókn á mansalsmálum. Síðast en ekki síst er tilgangur bókunarinnar að vernda og aðstoða þolendur mansals, einkum konur og börn, og að tryggja reisn og mannréttindi við meðferð mála. Ísland er aðili að báðum samningunum og hefur fullgilt þá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta