Hoppa yfir valmynd
27. mars 2025 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

160 milljónir í fjárfestingarstuðning við garðyrkjubændur

Af fundi með garðyrkjubændum í vikunni - mynd

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tilkynnti í dag um 160 milljón króna fjárfestingarstuðning til garðyrkjubænda sem er ætlað að auka orkunýtni og stuðla að orkusparnaði.

Sérstök umræða um orkumál og stöðu garðyrkjubænda fór fram á Alþingi í dag þar sem umhverfis-, orku, og loftslagsráðherra var til svara. Í máli ráðherra kom fram að unnið er að breytingum á lagaumgjörð raforkumarkaðar sem hafa það að markmiði að verja hagsmuni heimila og fyrirtækja og tryggja forgang almennra notanda. Þá sagði ráðherra að stigin yrðu stór skref strax á yfirstandandi ári til að jafna dreifikostnað raforku. Almennar aðgerðir dugi þó garðyrkjubændum ekki einar og sér: „Það eru áratugir síðan stjórnvöld réðust síðast í skipulegan fjárfestingarstuðning í þágu garðyrkjubænda og í dag er slíkum stuðningi ekki til dreifa. En nú verður loksins breyting þar á,“ sagði Jóhann Páll.

Í fjárfestingarátakinu verður lögð áhersla á LED-lýsingu og annan orkusparandi búnað, en skipti í LED-lýsingu geta dregið úr raforkunotkun í garðyrkju um 40-60%. „Fjárfestingarátak stjórnvalda mun skila sér í lægri orkureikningum fyrir bændur, minni niðurgreiðsluþörf af hálfu ríkissjóðs og auknum orkusparnaði fyrir samfélagið allt. Og halda aftur af verðinu á góðu íslensku grænmeti.

Ráðherra átti fund með garðyrkjubændum í ráðuneytinu í vikunni til að ræða hækkandi raforkukostnað og hvernig koma megi til móts við erfiða stöðu sem blasir við bændum í ylrækt. Þá var málið tekið upp á fundi ríkisstjórnar á þriðjudaginn síðasta, og er einhugur um stuðningsaðgerðirnar hjá ríkisstjórninni.

Nánari útfærsla og auglýsing umsókna verður kynnt á næstu dögum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta