696/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Úrskurður
Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 696/2017 í máli ÚNU 16120004.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 9. desember 2016, kærði A ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. (hér eftir RÚV) frá 26. október um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem tengjast honum og notuð voru til umfjöllunar í Kastljóssþætti sem sýndur var hinn [...]
Í kæru kemur fram að kærandi hafi óskað eftir upplýsingum frá Ríkisútvarpinu sem tengdust honum og félögum í hans eigu þann 12. október 2016 en verið synjað um upplýsingarnar. Fjallað hafi verið um kæranda og aðkomu hans að nokkrum félögum í þættinum. Þar hafi m.a. komið fram upplýsingar um fjárfestingar semsumar hverjar væru kæranda ókunnar og hann aldrei haft upplýsingar um. Vegna umfjöllunarinnar hafi kærandi þurft að segja starfi sínu lausu. Því sé einsýnt að upplýsingarnar varði mikilvæga einkahagsmuni kæranda. Hann hafi því óskað eftir aðgangi að gögnunum með vísan til 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi telur mikilvægt að fá upplýsingarnar en um sé að ræða mikilvæga einkahagsmuni og upplýsingar sem hafi haft mikil áhrif á einkahagi hans.
Synjun RÚV var byggð á þeim rökum að Kastljós væri bundið af reglum samstarfs við Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ. Því væri Kastljósi óheimilt að láta gögn úr gagnagrunninum af hendi, þótt leyfilegt hafi verið að sýna þau í umfjölluninni og vísa til þeirra. Auk þess gæti RÚV ekki fallist á að lagaskylda hvíli á RÚV til að veita kæranda aðgang að upplýsingum og gögnum sem tengjast fréttavinnslu sem slíkri en önnur niðurstaða væri m.a. ósamþýðanleg eðli fjölmiðlunar, þar með talinni vernd heimildarmanna, sbr. m.a. 25. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Ef upplýsingalög nr. 140/2012 gætu yfirhöfuð átt við gerðu þau ráð fyrir margvíslegum takmörkunum á upplýsingarétti, svo sem um vinnugögn tengd frétta- og heimildavinnslu og einkahagsmuni annarra, líkt og hér geti átt við. Kærandi skrifaði RÚV samdægurs og tók fram að hafi afmörkun beiðninnar ekki verið nægilega skýr hafi hann verið að vísa til gagna um þau erlendu félög sem hann var talinn tengjast í umfjöllun Kastljóss, bæði upplýsinga um félögin sjálf og með hvaða hætti þau tengist kæranda. Kærandi fari ekki fram á afhendingu vinnugagna og þaðan af síður upplýsinga um heimildarmenn. Ekki hafi heldur verið hægt af umfjölluninni að dæma að gögnin tengdust einkahagsmunum annarra.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 13. desember 2016, var kæran kynnt RÚV og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Þess var jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði.
Umsögn RÚV er dagsett 20. janúar 2017. Þar kemur fram að ráða megi af kæruefni að kærandi geri ekki athugasemd við að hann fái ekki afhent gögn sem teljist til vinnugagna fréttastofu eða gögn sem varpað geti ljósi á heimildarmenn. Af því væri helst að skilja að beiðnin tæki til gagna sem varði þau erlendu félög sem hafi verið til umfjöllunar í Kastljósi og tengist kæranda. Í tilefni af því sé tekið fram að RÚV hafi hvorki undir höndum umbeðin gögn né forræði yfir þeim. Þegar af þeim ástæðum geti RÚV ekki orðið við beiðninni.
Umsögn RÚV var kynnt kæranda með bréfi, dags. 31. janúar 2017, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 1. febrúar 2017, kemur fram að kærandi geti ekki fallist á að RÚV hafi ekki umbeðin gögn undir höndum. Í þættinum hafi glögglega komið fram að Kastljós hafi haft ýmis gögn undir höndum og birt hluta þeirra í þættinum. Sú fullyrðing að RÚV hafi ekki gögnin undir höndum fái því engan veginn staðist, enda væri ekki hægt að birta gögn sem viðkomandi hefði ekki. Kærandi tekur fram að RÚV sé opinber stofnun sem falli undir upplýsingalögin. Umfjöllun hennar hafi haft mikil áhrif á persónulega hagi kæranda. Það varði kæranda því miklu að geta fengið gögnin. Það sé mikilvægt að þeir sem verði fyrir slíkri umfjöllun geti kannað þau gögn sem hún er byggð á og þar með metið sannleiksgildi hennar.
Með bréfi, dags. 14. júní 2017, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir því að RÚV veitti nefndinni nánari skýringar á umsögn félagsins og upplýsti af hvaða ástæðum umbeðin gögn væru ekki í vörslum félagsins. Svar RÚV barst þann 16. júní. Þar er áréttað að RÚV hafi hvorki haft umbeðin gögn undir höndum né forræði yfir þeim. Tekið er fram að RÚV hafi, við vinnslu þeirrar umfjöllunar sem væri uppspretta kærunnar, fengið aðgang að gögnunum hjá þriðja aðila.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. RÚV synjaði beiðni kæranda þann 26. október 2016 en kæran er dagsett 9. desember. Kæran barst því að liðnum kærufresti sbr. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Í svari RÚV til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. svo sem áskilið er í 1. mgr. 19. gr. laganna. Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærunni því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni þótt kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.
2.
Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að skjölum sem birt voru í fréttaskýringaþætti sem sýndur var í ríkissjónvarpinu. RÚV hefur gefið úrskurðarnefnd um upplýsingamál þær skýringar að skjölin séu ekki í vörslum félagsins en það hafi fengið aðgang að gögnunum hjá þriðja aðila við vinnslu þáttarins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu RÚV. Því verður að líta svo á að þau skjöl sem mynduð voru og birt í þættinum séu ekki fyrirliggjandi hjá RÚV.
Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja í þessu tilviki, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Verður því ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru kæranda, A, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson