Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2017 Forsætisráðuneytið

697/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017

Úrskurður

Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 697/2017 í máli ÚNU 17030001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. mars 2017, kærði B hdl., f.h. A, meðferð Fasteigna Húnavatnshrepps ehf. á beiðni um aðgang að gögnum.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi gert leigusamning við Fasteignir Húnavatnshrepps þann 11. janúar 2015 um einbýlishús við Húnavallaskóla. Kærandi hafi neyðst til að flytja út úr íbúðinni vegna gruns um myglusvepp í byrjun mars 2015. Húnavatnshreppur hafi óskað eftir því að skoðunarmaður frá Frumherja skoðaði húsnæðið. Kærandi kveður skoðunina hafa leitt í ljós miklar rakaskemmdir í húsnæðinu. Þá hafi sýni verið tekin og send til Náttúrufræðistofnunar Íslands til greiningar. Niðurstöðurnar liggi fyrir en beiðni kæranda um aðgang að þeim hafi ekki verið svarað. Því sé óhæfilegur dráttur á meðferð beiðninnar kærður til úrskurðarnefndarinnar með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt kærða með bréfi, dags. 10. mars 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði afhent afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að í trúnaði. Umsögnin barst þann 23. mars 2017. Þar kemur fram að kærandi hafi fengið afrit af fasteignaskoðunarskýrslu Frumherja nr. 3916/159, en hún sé eina skýrslan sem Fasteignir Húnavatnshrepps hafi látið gera vegna fasteignarinnar. Í framhaldinu hafi sveitarstjóri Húnavatnshrepps, sem er jafnframt framkvæmdastjóri Fasteigna Húnavatnshrepps, farið fram á það við Náttúrufræðistofnun Íslands að hún rannsakaði sýni úr gólfefni úr húsinu. Stofnunin hafi skilað greinargerð um rannsóknir sínar þann 1. apríl 2015. Mat viðtakanda skýrslunnar hafi verið að hún segði ekkert nýtt. Jafnframt sé það lagalegt álitamál hvort forræði á greinargerð stofnunarinnar sé hjá Fasteignum Húnavatnshrepps eða Húnavatnshreppi. Fasteignir Húnavatnshrepps hafi afhent kæranda öll gögn sem félagið telji eðlilegt að afhenda. Því sé því alfarið hafnað að láta kæranda í té greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 1. apríl 2015.

Umsögn Fasteigna Húnavatnshrepps var kynnt kæranda með bréfi, dags. 27. mars 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með bréfi, dags. 10. apríl 2017. Þar kemur meðal annars fram að ekki sé ljóst hvað átt sé við með því að það sé lagalegt álitamál hvort forræði á greinargerð Náttúrufræðistofnunar sé hjá Fasteignum Húnavatnshrepps eða Húnavatnshreppi. Ljóst sé að skýrslan sé í vörslum Fasteigna Húnavatnshrepps og varði fasteign í eigu félagsins. Þá sé félagið í eigu Húnavatnshrepps.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur af hálfu málsaðila. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um rannsókn á myglusveppum í tveimur sýnum úr gólfefnum í skólastjórabústað við Húnavallaskóla. Kæran varðaði upphaflega óhæfilegan drátt Fasteigna Húnavatnshrepps á meðferð beiðni kæranda, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en fyrir liggur að félagið hefur að minnsta kosti tekið ákvörðun um synjun beiðninnar undir meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Af athugasemdum kæranda verður enn fremur ráðið að hann felli sig ekki við ákvörðunina og verður því úrskurðað um ágreininginn á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er fram komið að kærandi hafi haft búsetu í húsnæðinu sem skýrslan fjallar um og þykir því fara um aðgang hans samkvæmt 14. gr. laganna um upplýsingarétt aðila.

Af hálfu Fasteigna Húnavatnshrepps hefur komið fram að það sé lagalegt álitamál hvort félagið hafi „forræði yfir skýrslunni“ eða sveitarfélagið Húnavatnshreppur. Fyrrnefnda félagið fellur undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 með vísan til 2. mgr. 2. gr. þeirra. Í málinu liggur fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands sendi skýrsluna til sveitarstjóra Húnavatnshrepps, sem er jafnframt framkvæmdastjóri Fasteigna Húnavatnshrepps og er félagið alfarið í eigu sveitarfélagsins. Þykir því nægilega sýnt fram á að skýrslan sé fyrirliggjandi hjá Fasteignum Húnavatnshrepps í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í þessu sambandi er tekið fram að skylda til að skrá upplýsingar um málsatvik og halda til haga mikilvægum upplýsingum, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, hvílir jafnt á félaginu og sveitarfélaginu.

Það athugast að Fasteignir Húnavatnshrepps hafa ekki fært önnur rök fyrir þeirri ákvörðun að synja kæranda um aðgang að skýrslunni en að hún „segði ekkert nýtt sem ekki stæði í fasteignaskoðunarskýrslu Frumherja [...]“. Þetta sjónarmið á sér ekki stoð í upplýsingalögum og hefur félagið ekki vísað til þess að aðrar undantekningar frá upplýsingarétti aðila eigi við um umbeðið gagn. Skoðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur heldur ekki leitt slíkt í ljós. Verður því lagt fyrir Fasteignir Húnavatnshrepps að veita kæranda aðgang að skýrslunni.

Úrskurðarorð:

Fasteignum Húnavatnshrepps ber að veita kæranda, A, aðgang að skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 1. apríl 2015, með málsnúmerið 2015010010.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta