Hoppa yfir valmynd
19. september 2017 Forsætisráðuneytið

705/2017. Úrskurður frá 11. september 2017

Úrskurður

Hinn 11. september 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 705/2017 í máli ÚNU 17020010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. mars 2017, kærði A ákvörðun embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að synja beiðni kæranda um afhendingu sálfræðilegrar greinargerðar sem gerð var í tilefni af kvörtun kæranda um meint einelti gegn innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi orðið fyrir einelti á vinnustað sínum sem staðið hafi í nokkur ár og haft mikil áhrif á líf kæranda. Kærandi hafi kvartað við yfirmenn sína sem hafi kallað eftir aðkomu sálfræðings. Sálfræðingurinn hafi tekið viðtöl við meinta gerendur, kæranda og vitni að atburðarrásinni og komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um einelti að ræða heldur óæskilega hegðun af hálfu gerenda. Kærandi hafi í kjölfarið óskað eftir því að fá skýrsluna afhenta í þeim tilgangi að bera hana undir óháðan sálfræðing.

Beiðni kæranda var synjað með bréfi, dags. 10. febrúar 2017. Þar kemur fram að greinargerðin innihaldi mjög viðkvæmar persónuupplýsingar um stóran hóp starfsmanna. Um sé að ræða vitnisburð þeirra um meint einelti og samskipti starfsmanna. Þá væri það mat embættisins að ekki væri nægilegt að afmá nöfn hlutaðeigandi starfsmanna til að tryggja yfirlýstan trúnað við þá því þeir sem þekki vel til embættisins geti þrátt fyrir það auðveldlega gert sér grein fyrir um hvern sé verið að ræða. Tekið er fram að framangreint mat sé byggt á 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Embættið meti það svo að hlutaðeigandi starfsmenn hafi verulega hagsmuni af því að ekki verði veittur aðgangur að vitnisburði þeirra þar sem fram komi upplýsingar um einkamálefni annarra og að embættið telji hagsmuni þeirra standa framar hagsmunum kæranda af því að fá aðgang að þessum hluta greinargerðarinnar. Auk þess hafi starfsmönnunum verið heitinn trúnaður um vitnisburðinn og að eina leiðin til að tryggja þann trúnað væri sú að takmarka aðgang að vitnisburði þeirra að öllu leyti.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með bréfi, dags. 10. mars 2017, og embættinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn embættisins, dags. 24. mars 2017, segir að óskað hafi verið eftir vinnusálfræðilegri úttekt í kjölfar skriflegrar kvörtunar kæranda um einelti af hálfu samstarfsmanna. Í greinargerð sálfræðingsins um úttektina, dags. 3. október 2011, komi fram að kærandi hafi tilgreint sex meinta gerendur og hafi þeir allir orðið hluti af málinu auk níu vitna. Nöfn allra, ásamt niðurstöðum viðtala við þá, væru birt í skýrslunni. Tekið er fram að þann 25. nóvember 2016 hafi kæranda verið afhentur hluti greinargerðarinnar en synjað hafi verið um aðgang að þeim hluta sem lyti að framburðum og skýrslum starfsmanna embættisins. Um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun er vísað til bréfs til kæranda dags. 10. febrúar. Auk þess er tekið fram að allir meintir gerendur og sjö úr hópi vitna séu enn í starfi.

Embættið telur greinargerðina innihalda mjög viðkvæmar persónuupplýsingar þar sem erfiðum og særandi samskiptum starfsmanna sé m.a. lýst. Það sé mat embættisins að þeir sem hafi tjáð sig um meint einelti og samskiptaerfiðleika við gerð úttektarinnar hafi verulega hagsmuni af því að aðgangur verði ekki veittur að vitnisburði þeirra og að hagsmunir þeirra vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá fullan aðgang að skýrslunni. Vísað er til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Auk þess hafi starfsmönnum verið heitinn fullur trúnaður um vitnisburðinn en með því að afhenda skýrsluna án takmarkana væri yfirlýstur trúnaður við viðkomandi rofinn. Tekið er fram að komist hafi verið að framangreindri niðurstöðu með hliðsjón af ráðleggingum Persónuverndar og í samráði við þann sálfræðing er vann skýrsluna og enn fremur með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-449/2012.

Meðfylgjandi umsögn embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fylgdu þeir hlutar skýrslunnar sem afhentir voru kæranda. Þeir eru eftirfarandi:

  1. Bls. 1-10 og bls. 24-26

  2. Viðauki A/kynningarbréf,

  3. Viðauki B/kynningarbréf og beiðni um upplýst samþykki.

  4. Viðauki C/beiðni um upplýst samþykki vegna hljóðritunar

  5. Viðauki D/vitnisburður A.

Auk þess fylgdi með í trúnaði skýrslan í heild sinni, þ.e. greinargerð ásamt viðaukum.

Með erindi, dags. 27. mars 2017, var kæranda sent afrit af umsögn embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og veittur kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust og eru dags. 5. apríl 2017. Þar kemur fram að kærandi telur skýrsluna illa unna. Embættið vilji af augljósum ástæðum ekki að skýrslan fari til óháðs sálfræðings, enda sé kærandi fullviss um að annar sálfræðingur komist að annarri niðurstöðu en embættið. Kærandi segir málið hafa kostað sig mikið í lífinu, andlega sem og fjárhagslega og hafi kærandi ekki fengið stöður innan veggja embættisins vegna þessa máls þrátt fyrir að hann hafi verið hæfasti umsækjandi hverju sinni. Þá hafi yfirmenn kæranda lýst því yfir að kærandi fái aldrei stöðu vegna þessa máls. Þá tekur kærandi fram að tilgangur gagnabeiðninnar sé ekki að birta skýrsluna almenningi en kærandi geri sér fullkomlega grein fyrir að fara þurfi með skýrsluna sem trúnaðargagn. Skýrslunni verði aðeins deilt með sálfræðingi kæranda. Þá segir kærandi að yfirlýsing um trúnað hafi ekki virst skipta embættið máli þegar gerendur hafi fengið að lesa framburð vitna sem urðu vitni af hegðun þeirra gagnvart kæranda. Þá hafi fagráð einnig lesið skýrsluna.

Með bréfum, dags. 25. júlí 2017 og 8. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu 16 einstaklinga sem nafngreindir eru í skýrslunni til þess að kæranda verði veittur aðgangur að upplýsingum er varði viðkomandi. Tólf þeirra svöruðu erindi úrskurðarnefndarinnar. Af þeim veittu þrír samþykki fyrir því að kærandi fengi aðgang að upplýsingum í skýrslunni er lúti að framburði þeirra. Aðrir lögðust gegn því að aðgangur yrði veittur en m.a. var vísað til þess að starfsmenn hefðu tjáð sig í trúnaði.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar synjun embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni kæranda um aðgang að skýrslunni „Sálfræðileg greinargerð: Úttekt á meintu einelti innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu“, dags. 3. október 2011. Fram hefur komið af hálfu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að kærandi hafi fengið aðgang að tilteknum köflum skýrslunnar. Kærandi hefur ekki mótmælt því að aðgangur hafi verið veittur að hluta skýrslunnar. Verður því í málinu aðeins tekin afstaða til réttar kæranda til aðgangs að þeim hlutum skýrslunnar sem embættið hefur ekki afhent kæranda. Þeir eru:

  1. Viðbrögð meintra geranda eineltis gagnvart umkvörtunarefni A, bls. 11-15.

  2. Framburður vitna bls. 15.

  3. Niðurstöður úttektar bls. 15-23.

  4. Vitnisburðir, viðaukar E-S.

  5. „Facebook“ útprentun, viðauki D1

  6. Tölvupóstur, viðauki D2.

  7. „Facebook“ útprentun, viðauki O 1-5.

2.

Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga 140/2012 segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, áður 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.

Í skýrslunni er fjallað um samskipti kæranda við samstarfsmenn á vinnustað kæranda. Tilgangur skýrslunnar var að bregðast við kvörtun kæranda um að samstarfsmenn hefðu beitt hann einelti.

Í skýrslunni kemur fram sá sem annaðist gerð skýrslunnar sé sálfræðingur, en samkvæmt 21. tölul. 3. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, teljast sálfræðingar til heilbrigðisstarfsmanna, sbr. einnig 2. tölul. 2. gr. sömu laga. Fyrir liggur að umrædd skýrsla var ekki gerð í tengslum við heilbrigðisþjónustu við þá sem þar er fjallað um, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 34/2012 og 1. tölul. 4. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Af þeim sökum verður ekki séð að ákvæði 17. gr. laga nr. 34/2012, sem fjallar um trúnað og þagnarskyldu löggiltra heilbrigðisstarfsmanna, taki til skýrslunnar.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ljóst er að skýrslan geymir upplýsingar um kæranda í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga telur úrskurðarnefndin að um aðgang kæranda fari eftir þeirri lagagrein og að öðru leyti eftir ákvæðum upplýsingalaga, sbr. III. kafla laganna.

Réttur aðila til aðgangs að upplýsingum er varða hann sjálfan er m.a. takmarkaður af 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Í málinu þarf því að taka afstöðu til þess hvort hagsmunir annarra sem nafngreindir eru í skýrslunni, af því að ummæli sem eftir þeim eru höfð lúti leynd, vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að geta kynnt sér ummælin.

Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur m.a. fram að algengt sé að gögn hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila. Þegar fram komi beiðni um aðgang að slíkum gögnum sé þannig líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Tekið er fram að kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. frumvarpsins.

Í athugasemdunum segir jafnframt um 3. mgr. 14. gr.:

„Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.“

Eins og fyrr er rakið snýst ágreiningur þess máls um aðgang kæranda að tilteknum köflum í „Sálfræðileg greinargerð: Úttekt á meintu einelti innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu“, dags. 3. október 2011. Kaflarnir sem um ræðir eru viðbrögð 1) Viðbrögð meintra gerenda eineltis gagnvart umkvörtunarefni A, bls. 11-15, 2) Framburður vitna bls. 15, 3) Niðurstöður úttektar bls. 15-23 og 4) Vitnisburðir, viðaukar E-S. Þá var kæranda synjað um aðgang að 5) Facebook“ útprentun í viðauki D1 með greinargerðinni, 6) tölvupósti í viðauka D2 og 7) Facebook“ útprentun, viðauki O 1-5.

Eins og fram hefur komið óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þeirra, sem tjáðu sig við sálfræðinginn, til þess hvort þeir samþykktu að kæranda yrði veittur aðgangur að þeim hlutum skýrslunnar sem vörðuðu viðkomandi. Þrír þeirra, B, C og D, lýstu því yfir í bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júlí, að þeir legðust ekki gegn því að það sem haft væri eftir þeim í skýrslunni yrði birt kæranda. Aðrir þeir sem svöruðu fyrirspurn úrskurðarnefndar um upplýsingamál lögðust gegn því að aðgangur yrði veittur að því sem haft var eftir þeim í skýrslunni.

Fyrir liggur að þeir sem fóru í viðtöl við gerð skýrslunnar var heitinn fullur trúnaður. Þótt viðmælendunum hafi verið heitið því að við þá yrði rætt í trúnaði getur það atriði eitt út af fyrir sig ekki staðið í vegi fyrir að aðrir fái aðgang að skýrslunni samkvæmt upplýsingalögum. Við mat á því, hvort aðgangur skuli veittur að tilteknum upplýsingum, getur það hins vegar haft áhrif ef þær hafa verið gefnar í trúnaði og þá einkum þegar ætla má að loforð stjórnvalds um trúnað hafi haft áhrif á upplýsingagjöf og það hvernig þeir einstaklingar sem í hlut áttu völdu að tjá sig um þá þætti er þeir voru spurðir um, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 664/2016, 630/2016, A-28/1997, A-443/2012 og A-458/2012.

3.

Í kafla þeim sem ber yfirskriftina „Viðbrögð meintra geranda eineltis gagnvart umkvörtunarefni A“, er settur fram útdráttur á afstöðu meintra geranda með vísan til staðfests framburðar þeirra í viðaukum E, G, I, O, P, og R, sbr. bls. 11–15, í skýrslunni.

Í viðaukum F, H, J, K, L, M, N, Q og S eru staðfestir framburðir samstarfsfólks sem tjáði sig við sálfræðinginn sem vitni að atburðum á vinnustað.

Í þessum hluta skýrslunnar og tilvitnuðum viðaukum koma fram lýsingar samstarfsfólks kæranda á atvikum á vinnustað í tilefni af kvörtun kæranda vegna eineltis.

Eins og atvikum þessa máls er háttað er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að réttur kæranda af því að fá aðgang að framburði meintra gerenda og vitna um atvik sem snerta framgöngu hennar á vinnustað og meint einelti í hennar garð vegi þyngra en hagsmunir sömu aðila af því leynd ríki um framburð þeirra um atvik málsins. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að kærandi bar fram kvörtun yfir því að hún hefði sætt einelti og hefur hún því ríka hagsmuni af því hvernig niðurstaða í kvörtunarmáli hennar var fengin.

Í ljósi framangreinds ber því að veita kæranda aðgang að kaflanum „Viðbrögð meintra geranda eineltis gagnvart umkvörtunarefni A“, bls. 11-15. Úrskurðarnefndin telur að sama gildi um viðauka E til S sem hafa að geyma vitnisburði samstarfsmanna hennar.

Úrskurðarnefndin telur þó að aðgangur kæranda samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga taki ekki til upplýsinga um rannsókn sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, og upplýsinga sem umræddir starfsmenn tjáðu sálfræðingi um persónuleg einkamálefni sín og annarra en kæranda og lúta ekki að henni sjálfri eða framgöngu á vinnustað. Áður en kæranda er veittur aðgangur að ofangreindum gögnum ber því að afmá upplýsingar úr fyrrnefndum kafla greinargerðarinnar og vitnisburðum sem lúta að rannsókn sakamáls eða hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra en kæranda eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Í kaflanum „Framburður vitna“, bls. 15, kemur fram að ekki sé birtur úrdráttur í greinargerðinni en að staðfestir vitnisburðir séu hjálagðir í viðaukum F, H, J, K, L, M, N, Q og S. Engar persónulegar upplýsingar koma fram í þessum hluta eða aðrar upplýsingar sem aðrir gætu átt hagsmuni af því að kærandi fái ekki aðgang að. Er því ekki ástæða til að synja kæranda um aðgang að honum.

Í kaflanum „Niðurstöður úttektar“, bls. 15-23, er sett fram greining sálfræðingsins á því hvort hann telji fullyrðingar kæranda um að tilteknir samstarfsmenn hafi lagt kæranda í einelti, eiga við rök að styðjast. Er þar m.a. vitnað í fullyrðingar kæranda um atvik er gefi til kynna einelti og svör meintra geranda og vitna er lúta að fullyrðingunni. Í fyrstu fimm efnisgreinum kaflans, bls. 15-16, kemur fram stutt almenn lýsing á þeim atburðum sem kærandi telur hafa verið uppsprettu eineltisins auk almennrar greiningar sálfræðingsins á viðhorfum samstarfsfólks gagnvart kæranda. Þar er ekki vitnað til framburðar einstaka nafngreindra einstaklinga heldur eru niðurstöður viðtala dregnar saman með almennum hætti. Þar á eftir er umfjöllunin sundurliðuð eftir meintum gerendum þar sem fyrst er sett fram fullyrðing kæranda um atvik sem kærandi telur til marks um einelti gegn sér og því næst greining sálfræðingsins í ljósi frásagna meintra geranda af sömu atvikum.

Kæranda var einnig synjað um aðgang að Facebook útprentun sem lögð var fram af kæranda, viðauki D1. Um er að ræða skjáskot af ummælum sem höfð voru uppi á Facebook síðu einstaklings og því birt opinberlega, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 20. nóvember 2014 í máli nr. 214/2014 og dóm réttarins frá 18. desember 2014 í máli nr. 215/2014. Í ljósi þessa þykja ekki skilyrði til að synja kæranda um aðgang að viðauka D1.

Þá var kæranda synjað um aðgang að viðauka D2. Um er að ræða tölvupóst sem […] varðstjóri sendi […] aðalvarðstjóra og framsendur var á tvo aðra samstarfsmenn. Í skýrslunni kemur fram að kærandi hafi framvísað tölvupóstinum en ekki liggur fyrir hvernig kærandi fékk póstsamskiptin í hendur. Tilgangur tölvupóstsendingarinnar var að setja fram kvörtun yfir tiltekinni háttsemi sem kærandi hafi átt að hafa haft uppi á tiltekinni svæðisstöð lögreglunnar. Í tölvupóstinum er sett fram lýsing á þessari meintu háttsemi og óvægnar lýsingar á persónu kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að eins og hér standi á eigi kærandi rétt á að fá að kynna sér efni umrædds tölvupósts og að sá réttur vegi þyngra en hagsmunir viðkomandi starfsmanns af því að þær upplýsingar sem þar koma fram, fari leynt. Er þá litið til þess að tölvupósturinn geymir alvarlegar ásakanir starfsmanns í stjórnunarstöðu á hendur kæranda og sem byggðar voru á sögusögnum um háttsemi kæranda í starfi. Er því ekki fallist á það með embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að tölvupóstinum.

Að lokum var kæranda synjað um aðgang að „Facebook“ útprentun, viðauka O 1-5. Um er að ræða nokkur skjáskot af „Facebook“-síðu kæranda og hefur kærandi því aðgang að þeim upplýsingum sem þar koma fram. Var því embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ekki heimilt að synja kæranda um aðgang að viðauka O 1-5.

Með vísan til þess sem að framan er rakið ber lögreglustjóranum í Reykjavík að veita kæranda aðgang að öllum þeim gögnum sem synjun embættisins 10. febrúar 2017 tók til. Þó er embættinu skylt að afmá ummæli sem höfð eru eftir meintum gerendum og vitnum í sálfræðilegri greinargerð og einstökum vitnisburðum sem henni fylgja og hafa að geyma upplýsingar um rannsókn sakamáls eða viðkvæmar persónuupplýsingar og nánar er greint í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er skylt að veita A aðgang að eftirfarandi hlutum skýrslunnar „Sálfræðileg greinargerð: Úttekt á meintu einelti innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu“, dags. 3. október 2011“:

  1. Kaflanum „Viðbrögð meintra geranda eineltis gagnvart umkvörtunarefni A“ bls. 11-15. Þó er embættinu skylt að afmá eftirfarandi efnisgreinar og setningar í kaflanum eins og hér segir:

    1. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í setningum 2 og 3 og alla setningu 4 í fyrstu efnisgrein kaflans „Afstaða […]“, bls. 11.

    2. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í fyrstu setningu efnisgreinar 1, síðustu setningu efnisgreinar 2, fyrstu setningu efnisgreinar 4 og fyrstu setningu efnisgreinar 5 á bls. 12.

    3. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 2 í kaflanum „Afstaða […]“, bls. 13 og í efnisgreinum 2, 3 og 4 í kaflanum „Afstaða […]“ á sömu síðu.

    4. Afmá skal fyrstu fjórar efnisgreinarnar á bls. 14 og fyrstu efnisgreinina í kaflanum „Afstaða […]“, bls. 14-15. 

    5. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í setningu 2 í efnisgrein 2 á bls. 15.

  2. Kaflanum „Framburður vitna“ bls. 15.

  3. Kaflanum „Niðurstöður úttektar“, bls. 15-23. Þó er embættinu skylt að afmá eftirfarandi efnisgreinar og setningar í kaflanum eins og hér segir: 

    1. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í fyrstu efnisgrein kaflans bls. 15.

    2. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í fyrstu setningu efnisgreinar 3 í kaflanum „[…]“, bls. 17.

    3. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein fjögur á bls. 18.

    4. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í fyrstu efnisgreininni á bls. 19. Afmá skal síðustu tvær setningarnar í fyrstu efnisgrein kaflans „[…]“, bls. 19 og síðustu setninguna á sömu síðu.

    5. Afmá skal alla bls. 20 að undanskildum efnisgreinum 4 og 5.

    6. Afmá skal fyrstu tvær efnisgreinarnar á bls. 21. Fyrstu tvær efnisgreinarnar í kaflanum „[…]“, á sömu síðu.

  4. Viðaukum E-S sem geyma staðfesta framburði meintra geranda og vitna. Þó er embættinu skylt að afmá eftirfarandi efnisgreinar og setningar eins og hér segir:

    1. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í setningu 5 í fjórðu efnisgrein bls. 1. í viðauka E. Afmá skal setningar 6-8 í sömu efnisgrein.

    2. Afmá skal efnisgreinar 2 og 3 á bls. 1 í viðauka G. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 5 á sömu síðu.

    3. Afmá skal efnisgreinar 2-6 á bls. 1 í viðauka H.

    4. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í síðustu setningu efnisgreinar 4 og í efnisgrein 5 á bls. 1 í viðauka I. Afmá skal alla efnisgrein 6 á bls. 1 í sama viðauka og alla bls. 2. Þá skal afmá fyrstu efnisgreinina og nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í annarri efnisgrein á bls. 3 í sama viðauka.

    5. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 3 á bls. 1 í viðauka J og síðustu efnisgreinina á sömu síðu.

    6. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 3 á bls. 1 í viðauka K. Afmá skal setningar 1 og 2 í efnisgrein 3. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 4.

    7. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 4 á bls. 1 í viðauka L og alla setningu 3 í sömu efnisgrein. Þá skal afmá efnisgrein 6 á sömu síðu. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í efnisgrein 7 á sömu síðu.

    8. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í efnisgrein 4 á bls. 1 í viðauka M.

    9. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í síðustu setningu efnisgreinar 5 á bls. 1 í viðauka N og í efnisgrein 5 á bls. 2 í sama viðauka.

    10. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í efnisgrein 4 og setningar 2 og 3 í sömu efnisgrein á bls. 1 í viðauka O. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 5 og setningar 2 og 3 í sömu efnisgrein á bls. 1 í sama viðauka. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í síðustu setningu efnisgreinar 3 og setningu 3 í efnisgrein 4 á bls. 2 í sama viðauka. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgrein 7 á bls. 2 í sama viðauka.

    11. Afmá skal nöfn annarra en kæranda í efnisgreinum 4, 5 og 7 í viðauka P.

    12. Afmá skal efnisgrein 9 á bls 1 í viðauka Q.

    13. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda í efnisgreinum 4-8 á bls. 1 í viðauka S. Afmá skal nöfn annarra en kæranda og viðmælanda  í efnisgrein 2 á bls. 2 í sama viðauka.

  5. Viðauka D1.

  6. Viðauka O 1-5.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta