Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2017 Forsætisráðuneytið

707/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Úrskurður

Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 707/2017 í máli ÚNU 17030003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. mars 2017, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um gögn. Með bréfi, dags. 24. janúar 2017, óskaði kærandi eftir ráðningarsamningi sveitarfélagsins við meindýraeyði. Laut kæran til úrskurðarnefndarinnar að því að beiðninni hefði ekki verið sinnt.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 10. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ um meðferð beiðni kæranda hjá sveitarfélaginu. Í bréfi sveitarfélagsins til nefndarinnar, dags. 14. mars 2017, kom fram að erindi kæranda hefði þegar verið svarað með bréfi, dags. 2. febrúar, þess efnis að engin gögn lægju fyrir hjá sveitarfélaginu er vörðuðu beiðnina. Segir í bréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar að það sé enginn starfandi meindýraeyðir hjá sveitarfélaginu heldur sé kallaður til sjálfstætt starfandi meindýraeyðir eftir þörfum. Því sé enginn ráðningarsamningur fyrir hendi.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að ráðningarsamningi sveitarfélagsins við meindýraeyði.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í svari Vestmannaeyjabæjar til kæranda með bréfi dags. 2. febrúar 2017 kemur fram að þau gögn sem kærandi óskaði eftir séu ekki til. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga í efa þá staðhæfingu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 2. mars 2017, á hendur Vestmannaeyjabæ.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta