Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 30. ágúst 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti yfir helstu störf utanríkisþjónustunnar í síðustu viku ágústmánaðar.

Tvíhliða varnaræfing Íslands og Bandaríkjanna, Norður-Víkingur, hófst á mánduag þar sem skip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins taka þátt. Einn megintilgangur æfingarinnar er að treysta öryggi mikilvægra innviða eins og fjarskiptakaplanna sem eru grundvöllur samskipta Íslands við umheiminn.

 

Utanríkisráðuneytið tók á móti öflugum hópi kvenna sem ganga til liðs við ráðuneytið á sviði öryggis-og varnarmála. Við óskum þeim velgengni í þessum mikilvægu stöðum.

  

Tuttugu og þrír sérfræðingar útskrifuðust sem sérfræðingar á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa frá Landgræðisluskóla GRÓ. Nemendurnir koma frá níu samstarfslöndum skólans í Afríku og Asíu. Um er að ræða fyrsta skiptið þar sem nemendur frá Kenía útskrifast úr skólanum en hinir nemendurnir eru frá Gana, Kirgistan, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Nígeríu, Úganda og Úsbekistan. 

  

Harald Aspelund, sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi, hélt ásamt Ásthildi Jónsdóttur móttökukvöldverð fyrir einn af virtustu tónlistarmönnum Íslands, píanóleikarann Víking Heiðar Ólafsson, í sendiherrabústðanum í Helsinki. Víkingur kom fram með The Cleveland Orchestra á tónleikum í Helsinki í fyrri í vikunni.

  

Sendiherra tók svo á móti Ari Siivikko, stofnanda ferðaskrifstofunnar Arctic Signature sem markaðssetur ferðir til Íslands, í sendiráðinu í Helsinki.

  

Þá tók sendiherra einnig á móti fulltrúum Youth Atlantic Council í sendiherrabústaðnum og kynnti fyrir þeim utanríkismál Íslands.

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn , opnaði sýninguna "Líkaminn er karlkynsorð" eftir Maríu Kristín H. Antonsdóttur og Sigurbjörgu Elín Hólmarsdóttur í sendiráðinu.

  

Starfsfólk sendiráðsins sótti einnig opnun Chart Art Fair listahátíðarinnar þar sem þrjú íslensk gallerí tóku þátt.

  

Sendiráð Íslands í Lilongwe sótti viðburð forsetafrúr Malaví, Monica Chakwera, í tilefni alþjóðlega dagsins til þess að binda endi á fæðingarfistil (obstetric fistula). Það var sendiráðinu mikill heiður að taka þátt í viðburðinum.

  

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, sótti útgáfuhóf Ragnars Jónassonar í tilefni enskrar þýðingar bókar hans Hvítadauða, Death at the Sanatorium. Ragnar er einn vinsælasti glæpasagnahöfundur Íslands.

  

Á laugardag sótti Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands gagnvart Kanada, viðburð sendiráðs Úkraínu gagnvart Kanada í tilefni Þjóðfánadags Úkraínu. Þá var fáninn reistur og þjóðsöngvar sungnir af kór úkraínskra barna í Ottawa.

  

Sendiráðið tók einnig þátt í Gleðigöngunni í Ottawa ásamt sendiráðum Norðurlandanna og öðrum diplómötum.

  

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Kína, var staddur á Íslandi í vikunni. Hann tók á móti fjölda fyrirtækja í viðtölum hjá Íslandsstofu, og komust færri að en vildu.

Þá hitti hann einnig Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og fulltrúa háskóla og fræðasamfélagsins og ræddi um mennta- og rannsóknarsamstarf Íslands og Kína. Sendiherra heimsótti einnig fulltrúa RANNÍS sem sjá meðal annars um vísinda- og rannsóknarsamstarf Íslands og Kína. Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra sótti Yantai heim og talaði um sjálfbæra ferðaþjónustu á viðburði um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Guðmundur Árnason, sendiherra og skipaður fastafulltrúi Íslands í Róm, afhenti Dr. Qu Dongyu, aðalritara Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) trúnaðarbréf sitt í vikunni en Ísland tók sæti í stjórn FAO 1. júlí sl. Ísland mun leggja áherslu á sjávarútveg, nýtingu auðlinda sjávar og malefni hafsins í málflutningi og störfum sínum á vettvangi FAO meðan stjórnarsetan varir og til framtíðar, auk málefna sem falla að stefnumiðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands 2024-2028. Hægt er að lesa meira í frétt á stjórnarráðsvefnum.  

Stefán Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Japan, hitti sendiherra Filipseyja gagnvart Japan, Mylene J. Garcia-Albano, í Tókýó og ræddu þau tvíhliða tengsl Íslands og Filipseyja. Þá eru Filipseyjar eitt af umdæmisríkjum sendiráðs Íslands í Tókýó.

Fyrr í vikunni hitti sendiherra Suzuki Ryotaro, sendiherra Japan gagnvart Íslandi.

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni í Kanada.

Vilhjálmur Wiium aðalræðismaður Íslands í Winnipeg sótti árlegan fjáröflunarviðburð til styrktar Grund Frelsis kirkjunnar en um er að ræða elstu íslensku lútersku kirkjuna í Kanada sem byggð var árið 1889. Vilhjálmur flutti í tilefni kveðju og fór með faðirvorið á íslensku.

  

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta