Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 150/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 150/2019

Fimmtudaginn 15. ágúst 2019

 

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 19. mars 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 23. janúar 2019 um synjun á umsókn hans um sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi Reykjavíkurborgar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 19. október 2018. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 27. nóvember 2018, var umsókn kæranda um sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða synjað á þeirri forsendu að læknisfræðileg skilyrði væru ekki talin nægileg fyrir veitingu sérmerkts stæðis fyrir hreyfihamlaða. Með tölvupósti, dags. 18. desember 2018, skaut kærandi málinu til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkur. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkur synjaði umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 23. janúar 2019.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. mars 2019. Með bréfi, dags. 9. maí 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um á hvaða lagagrundvelli framangreindar reglur byggi á. Með bréfi, dags. 24. maí 2019, barst úrskurðarnefnd umræddar upplýsingar og óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar með bréfi, dags. 28. maí 2019. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 27. júní 2019, og var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt  tvisvar sinnum um sérmerkt stæði við heimili sitt að B. Umsókn hans hafi verið synjað í bæði skiptin og rökin hafi verið þau að læknisfræðileg skilyrði væru ekki uppfyllt fyrir veitingu leyfisins. Þessari synjun hafi kærandi áfrýjað til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi staðfest synjun nefndarinnar.

Kærandi geti ekki unað þeirri niðurstöðu. Aðstæður kæranda séu mjög slæmar og þurfi hann að notast við tvær hækjur til að komast á milli staða. Það sé mjög erfitt að fá bílastæði í götunni, sérstaklega eftir að C hafi opnað. Ef hann þurfi að sinna erindum og fara að heiman þá fái hann oft ekki stæði við heimili sitt og dæmi sé um það að kærandi þurfi að ganga frá D niður að E sem sé honum mjög erfitt. Hann geti ekki treyst vinstri fæti sem eigi það til að svíkja hann og því geti kærandi ekki sleppt hækjunni.

Kærandi vonast til að erindið fái jákvæða niðurstöðu.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Kærandi sé X gamall karlmaður sem hafi verið slæmur af verkjum í mjóbaki af og til í nokkur ár. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 15. október 2018, sé kærandi með þekktar slitbreytingar í mjóbaki og hafi versnað mikið af verkjum undanfarið ár og gangi með tvær hækjur að staðaldri. Kærandi eigi, að hans sögn, í erfiðleikum með að finna stæði við heimili sitt. Hann búi í leiguhúsnæði og þurfi að endurnýja leigusamning árlega.

Með umsókn, dags. 19. október 2018, hafi kærandi sótt um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar. Þjónustumiðstöð F hafi synjað umsókn kæranda með bréfi, dags. 27. nóvember 2018. Í kjölfarið hafi kærandi skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs með bréfi, dags. 18. desember 2018. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 23. janúar 2019 og hafi umsókn kæranda verið afgreidd með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun nefndar um úthlutun bílastæðis fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglna um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar.“

Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Reglur um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar hafi verið samþykktar á fundi félagsmálaráðs 6. nóvember 2002. Í reglunum sé að finna ákvæði er lúti að úthlutun bílastæða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar fyrir hreyfihamlaða einstaklinga nálægt heimili sínu. Markmið reglnanna sé að auðvelda hreyfihömluðum einstaklingum, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, aðgengi að heimilum sínum.

Í b-lið 2. gr. reglna um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar komi fram að með umsókn skuli fylgja læknisvottorð á sérstöku eyðublaði. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skuli þjónustumiðstöð senda læknisvottorð til trúnaðarlæknis Reykjavíkurborgar sem meti það og sendi umsögn til þjónustumiðstöðvar. Umsóknir séu metnar af sérstakri nefnd, skipuð fulltrúa þjónustumiðstöðvar, fulltrúa gatnamálastjóra og trúnaðarlækni Reykjavíkurborgar, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglnanna. Í 2. mgr. 4. gr. sömu reglna komi fram að læknisfræðilegt mat sé lagt til grundvallar ákvörðun úthlutana bílastæða en að í undantekningartilvikum sé einnig litið til félagslegra aðstæðna umsækjanda.

Af athugasemdum trúnaðarlæknis Reykjavíkurborgar, dags. 26. nóvember 2018, megi ráða að ekki hafi fylgt fullnægjandi læknisfræðileg gögn sem sýnt hafi fram á nauðsyn sérmerkts stæðis með umsókn kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá ráðgjafa hafi kæranda verið leiðbeint um að skila inn frekari fullnægjandi læknisfræðilegum gögnum en kærandi hafi ekki sinnt þeirri beiðni. Þá hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs talið að félagslegar aðstæður kæranda væru ekki til þess fallnar að rétt væri að líta til þeirra við ákvörðun um úthlutun sérmerkts bílastæðis á lóð í eigu Reykjavíkurborgar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar F um úthlutun sérmerkts bílastæðis til kæranda á lóð í eigu Reykjavíkurborgar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglna um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar.

Þá verði að telja það ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum né öðrum ákvæðum laga og reglna.

V.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi Reykjavíkurborgar.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að læknisfræðileg skilyrði væru ekki uppfyllt fyrir veitingu sérmerkts stæðis fyrir hreyfihamlaða, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglna um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglna um úthlutun bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar er læknisfræðilegt mat lagt til grundvallar við ákvörðun úthlutunar bílastæða en í undantekningartilvikum er litið til félagslegra aðstæðna umsækjanda. Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna kemur fram að það mat komi í hlut sérstakrar nefndar sem er skipuð fulltrúa þjónustumiðstöðvar, fulltrúa gatnamálastjóra og trúnaðarlækni Reykjavíkurborgar. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að umræddar reglur hafi verið settar með stoð í þágildandi lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992. Markmið þeirra sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Þá segi einnig i 8. gr. sömu laga að veita skuli fötluðu fólki þjónustu sem miði að því að gera því kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra og skuli sú þjónusta miðast við þarfir fatlaðs fólks á heimilum sínum sem felist í því að treysta möguleika þess til sjálfstæðs heimilishalds, sbr. 1. tölul. 8. gr. laganna.

Reykjavíkurborg hefur lagt mat á aðstæður kæranda og þörf hans fyrir sérmerkt bílastæði í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar þar um. Í máli kæranda liggur fyrir umsögn  trúnaðarlæknis Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að umsókn kæranda hafi ekki fylgt fullnægjandi læknisfræðileg gögn sem sýnt hafi fram á nauðsyn sérmerkts stæðis. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafi kæranda verið leiðbeint af ráðgjafa að skila inn fullnægjandi gögnum en kærandi hafi ekki sinnt þeirri beiðni.

Af gögnum máls verður því ekki annað ráðið en að Reykjavíkurborg hafi lagt málefnaleg sjónarmið til grundvallar við mat á umsókn kæranda og fyrirliggjandi gögn. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við það mat að fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn sýni ekki fram á nauðsyn þess að kærandi fái umrætt stæði. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur sótt um að nýju og skilað inn fullnægjandi læknisfræðilegum gögnum.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 23. janúar 2019, um synjun á umsókn A, um sérmerkt bifreiðastæði á borgarlandi Reykjavíkurborgar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta