Hoppa yfir valmynd
7. júní 2021 Forsætisráðuneytið

1006/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1006/2021 í máli ÚNU 21020006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. febrúar 2021, kærði A á fréttastofu RÚV synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012.

Með erindi, dags. 4. janúar 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012 á þeim grundvelli að takmarkanir á aðgangi gagnsins samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hefðu fallið niður að átta árum liðnum frá því það varð til, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Forsætisráðuneytið synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 20. janúar 2021, með vísan til þess að samkvæmt lokamálsl. 3. mgr. 36. gr. laganna taki umrætt ákvæði aðeins til gagna sem verða til eftir gildisstöku upplýsingalaga, þ.e. frá og með 1. janúar 2013. Þar sem fundargerð ríkisráðs hafi verið rituð 31. desember 2012 og gagnið þar með orðið til á þeim degi falli umbeðið gagn ekki undir 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga og fari því um aðgang að því á grundvelli 1. tölul. 6. gr. sömu laga.

Með erindi, dags. 20. janúar 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins um þetta tiltekna mál. Með bréfi, dags. 29. janúar 2021, synjaði ráðuneytið beiðni kæranda með vísan til þess að yfirlit yfir gögn máls væru jafnframt undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Í kæru kemur fram að kærandi telji synjun ráðuneytisins stangast á við 12. gr. upplýsingalaga um brottfall takmarkana á upplýsingarétti. Í synjun ráðuneytisins sé vísað til þess að ákvæðið hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2013. Kærandi bendi á að hvergi komi fram að ákvæðið gildi einungis um gögn sem orðið hafi til eftir gildistöku laganna. Þá gerir kærandi athugasemdir við að ráðuneytið hafi synjað beiðni hans um aðgang að yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins varðandi umrætt mál. Kærandi fái þannig engar sönnur fyrir því að fundargerðin hafi raunverulega verið skráð í málaskrá ráðuneytisins 31. desember 2012.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt forsætisráðuneytinu með bréfi, dags. 15. febrúar 2021, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 3. febrúar 2021, kemur fram að samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga taki réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafi verið saman fyrir slíka fundi. Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna komi fram að veita skuli aðgang að gögnum sem m.a. falli undir framangreinda undanþáguheimild þegar átta ár eru liðin frá því þau urðu til. Samkvæmt gildistökuákvæði upplýsingalaga, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 36. gr. laganna, eigi ákvæðið hins vegar aðeins við um þau gögn sem verði til eftir gildistöku laganna. Um eldri gögn gildi því almenna reglan um að aðgangstakmarkanir falli niður að 30 árum liðnum, sbr. 2. mgr. 12. gr., sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. laganna. Umrædd fundargerð hafi verið rituð á fundi ríkisráðs hinn 31. desember 2012 og sé jafnframt dagsett þann dag. Þá liggi fyrir að upplýsingalög tóku gildi 1. janúar 2013. Loks kemur fram að eftir að kæran barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi forsætisráðuneytið veitt kæranda aðgang að yfirliti yfir gögn málsins úr málaskrá ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga.

Umsögn forsætisráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. febrúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða

1.
Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012. Forsætisráðuneytið byggir á því að ekki sé skylt að verða við beiðni kæranda á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um brottfall takmarkana þar sem ákvæðið taki ekki til gagna sem urðu til fyrir gildistöku upplýsingalaga 1. janúar 2013. Þá lýtur kæran að synjun ráðuneytisins á beiðni hans um afhendingu yfirlits yfir gögn málsins í málaskrá ráðuneytisins.

Í umsögn forsætisráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að kæranda hafi við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni verið veittur aðgangur að umbeðnu yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins. Nefndin fær ekki séð að ágreiningur sé uppi um þennan þátt málsins.

Meginreglan um upplýsingarétt almennings kemur fram í ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem segir að þeim sem falla undir gildissvið upplýsingalaganna sé, ef þess er óskað, skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr.

Í 6. gr. upplýsingalaga er fjallað um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti. Í 1. tölul. ákvæðisins segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum nái ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga segir að ef aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi ekki við skuli veita aðgang að gögnum sem 1.-3. tölul. og 5. tölul. 6. gr. taka til þegar liðin eru átta ár frá því þau urðu til. Í ákvæðinu er þannig sérstaklega kveðið á um að tilteknar takmarkanir á aðgangsrétti almennings samkvæmt upplýsingalögum skuli tímabundnar, m.a. takmarkanir á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Í 3. málsl. 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um gildistöku upplýsingalaga segir hins vegar að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna eigi aðeins við um þau gögn sem orðið hafa til eftir gildistöku upplýsingalaga þ.e. 1. janúar 2013. Af ákvæðinu leiðir að um brottfall takmarkana á aðgangsrétti að gögnum sem urðu til fyrir gildistöku upplýsingalaga fer samkvæmt 2. mgr. 12. gr. upplýsinglaga en þar segir að um brottfall annarra takmarkana fari eftir ákvæðum laga um opinber skjalasöfn eftir að liðin eru 30 ár frá því gögnin urðu til, sbr. 4. mgr. 4. gr. Að þeim tíma liðnum fer þannig um upplýsingarétt almennings hjá opinberu skjalasafni samkvæmt V. kafla laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér umrædda fundargerð sem dagsett er með skýrum hætti 31. desember 2012. Með hliðsjón af því og umsögn ráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að umrætt gagn hafi orðið til þann dag og þar með degi áður en upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi þann 1. janúar 2013. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga taki ekki til umbeðins gagns. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að staðfesta synjun forsætisráðuneytisins á beiðni kæranda.

Úrskurðarorð

Ákvörðun forsætisráðuneytisins, dags. 20. janúar 2021, um að synja kæranda um aðgang að fundargerð ríkisráðs frá 31. desember 2012 er staðfest.



Kjartan Bjarni Björgvinsson
varaformaður


Elín Ósk Helgadóttir Sigríður Árnadóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta