Hoppa yfir valmynd
7. september 2020 Dómsmálaráðuneytið

Styrking löggæslu á Norðurlandi eystra og efling fangelsiskerfisins

Fangelsismálastofnun var tilkynnt með bréfi hinn 1. júlí sl. að dómsmálaráðherra hafi fallist á tillögu stofnunarinnar um lokun fangelsisins á Akureyri. Í kjölfarið var ríkislögreglustjóra falið að leggja mat á hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Norðurlandi eystra og gera tillögur um mögulegar mótvægisaðgerðir vegna fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins. Fyrir liggur að rekstur fangelsisins og lögreglunnar hefur verið mjög samofinn í gegnum tíðina. Aldrei stóð til að lokun fangelsisins yrði til þess að veikja almenna löggæslu á Norðurlandi eystra. Öðru nær.  Markmið ráðuneytisins er að efla starfsemi lögreglunnar í öllum landshlutum. Ákveðið var að fresta áformum um lokun fangelsisins á meðan framangreint mat ríkislögreglustjóra færi fram og liggja niðurstöður nú fyrir.

Styrking almennrar löggæslu á Norðurlandi eystra

Neðangreindar aðgerðir eru til eflingar almennri löggæslu á Akureyri og nágrenni:

  1. Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verður nú þegar styrkt um fjórar stöður lögreglumanna til að sinna almennri löggæslu í umdæminu. Um er að ræða styrkingu sem nemur um 60 m.kr. á ári. Þessi efling embættisins kemur til viðbótar þeirri 35 m. kr. styrkingu sem kom til vegna fjölgunar ferðamanna á árinu 2019, 25 m.kr. vegna hálendiseftirlits og 33 m.kr. vegna landamæraeftirlits á Akureyrarflugvelli. Þetta samsvarar um 6 stöðugildum lögreglumanna. Nemur styrking embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra því 10 stöðugildum eða ríflega 150 m. kr. á þessu og síðasta ári að teknu tilliti til þeirra fjögurra lögreglumanna sem nú verða ráðnir til starfa hjá embættinu. Í ágúst sl. voru 73 lögreglumenn starfandi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í 65 stöðugildum. Alls eru starfsmenn embættisins 91 í 69,4 stöðugildum. Heildarfjárveiting til rekstrar í ár er 1.134.2 m.kr og framlag til eignakaupa er 30 m.kr.
  2. Húsnæði fangelsisins í Þórunnarstræti 138 á Akureyri verður endurnýjað og breytt til að mæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar. Nú þegar hefur verið rætt við Ríkiseignir þannig að undirbúningur, þarfagreining og hönnunarvinna við breytingu húsnæðisins getur hafist mjög fljótlega að höfðu samráði við lögreglustjórann á Akureyri. Breyting húsnæðisins hefur verið sett á framkvæmdaáætlun ársins 2021. Að mati Ríkiseigna getur kostnaður við framkvæmdina numið allt að 80 m. kr. Framkvæmdir gætu að mati stofnunarinnar farið af stað um mitt næsta ár.
  3. Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að efla starfsemi sérsveitarinnar á Akureyri. Þar verða nú minnst tveir sérsveitarmenn með fasta búsetu auk nauðsynlegs búnaðar í stað eins sérsveitarmanns líkt og nú er raunin. Þetta er lágmark nauðsynlegrar mönnunar sveitarinnar og kemur til með að efla löggæslu á Norðurlandi eystra.
  4. Þrátt fyrir lokun fangelsisins verður tryggt að lögreglan á Norðurlandi eystra geti nýtt sér úrræði til gæsluvarðhaldsvistar á staðnum þegar þörf krefur, í samræmi við undanþáguheimild í 4. mgr. 17. gr. laga um fullnustu refsinga. Í því skyni verða viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að gæsluvarðhaldsklefar lögreglunnar uppfylli þær kröfur sem gera verður m.a. í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga. Ráðuneytið mun ráðast í þær reglugerðarbreytingar sem metnar verða nauðsynlegar, svo sem um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar, sbr. heimild í 4. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála, þar sem mælt yrði fyrir um ákveðin viðmið við flutning fanga og aðra tilhögun, í nánu samráði við lögregluráð, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara.

Efling fangelsiskerfisins

Mikilvægt er að virða rétt forráðamanna stofnana ríkisins til að taka rekstrarlegar ákvarðanir er varða stofnanir þeirra. Kröfur um hagræðingu og skilvirkni verða að taka mið af forsendum hverrar stofnunar fyrir sig. Tilgangur fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins á Akureyri var annars vegar að auka hagkvæmni í rekstri fangelsiskerfisins í heild ásamt því að stytta boðunarlista eftir fangelsisvist í landinu. Hins vegar var talið mikilvægt að tryggja velferð fanga og veita þeim og aðstandendum þeirra eins góða þjónustu t.d. hvað varðar menntun og heilbrigðismál og frekast væri unnt.

Fangelsiskerfið hefur farið í gegnum mikið breytingaferli á síðustu árum og áratugum þar sem lykilatriðin hafa verið aukin hagræðing og bætt þjónusta og þar með betri árangur fullnustukerfisins. Lokun lítilla fangelsa, opnun nýrri og stærri fangelsa sem bjóða upp á algera skiptingu fangahópa, fjölgun opinna rýma í fangelsum, aukið vægi afplánunar utan fangelsa í stað afplánunar í fangelsum og utan fangelsa í lok lengri afplánunar eru meðal þátta sem hafa breytt fangelsiskerfinu varanlega með ofangreind markmið í huga.

Fangelsið Akureyri var á árum áður mikilvægur hlekkur í fangelsiskerfinu en vegna ýmissa þátta m.a. breytingu á löggjöf, lokunar á litlum fangelsum og stækkunar á öðrum, nýju fangelsi á Hólmsheiði og þreföldunar á fjölda rýma í opnum fangelsum, hefur mikilvægi þess minnkað verulega á síðustu 10-20 árum. Þá er nám og vinnuframboð meira og fjölbreyttara eftir því sem fangelsin eru stærri, hærra öryggisstig er í stærri lokuðu fangelsunum og þau eru einnig hagkvæmari einingar. Föngum í stærri fangelsum býðst meiri þjónusta sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu og þeir eiga kost á fjölbreyttari vinnuframboði og námi en í litlu 10 manna fangelsi.

Í dag eiga allir fangar möguleika á framgangi í afplánun og geta því ekki og eiga ekki lögum samkvæmt að afplána stærstan hluta refsingar sinnar í lokuðu fangelsi en Akureyri er lokað fangelsi. Rekin eru tvö opin fangelsi þannig að unnt að er taka tillit til stöðu fanga við val á opnu fangelsi fyrir viðkomandi eftir afplánun í lokuðu fangelsi. Opnu fangelsin eru á Suðurlandi og Vesturlandi. Þá er áfangaheimili sem tekur við að lokinni vist í opnu fangelsi staðsett í Reykjavík. Það er því útilokað að fangar afpláni allan sinn tíma á Norðurlandi eystra.

Í stað 10-14 manna eininga áður eru í dag rekin tvö öflug lokuð fangelsi sem samtals gætu vistað um 140 fanga ef Fangelsismálastofnun hefði fjárhagslega burði til að reka þau á fullum afköstum. Það verður stofnuninni unnt að gera með lokun fangelsisins á Akureyri. Fangelsismálastofnun telur sig geta rekið hin stærri fangelsin á hagkvæmari hátt og fullnustað fleiri fangelsisrefsingar með markvissari hætti þar sem öryggissjónarmiðum er fullnægt og boðið upp á fjölþætta faglega þjónustu fyrir hvern og einn fanga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta