Ísland í Schengen samstarfinu frá 25. mars 2001 - Frjáls för yfir landamæri innan Evrópu
Fréttatilkynning
Nr. 14/ 2001
- Frjáls för yfir landamæri innan Evrópu -
Hvað er Schengen samstarfið?
Á sunnudaginn 25. mars nk. hefst þátttaka Íslands í samstarfi með fjórtán öðrum Evrópuríkjum sem kennt er við Schengen. Samvinna þessi byggir á samningi sem upphaflega var undirritaður í bænum Schengen í Luxembourg þann 14. júní 1985 og hafði það markmið að fella niður eftirlit með ferðum manna yfir sameiginleg landamæri Belgíu, Frakklands, Hollands, Lúxemborgar og Þýskalands. Á sama tíma og eftirlit yrði fellt niður innan svæðisins skyldi eftirlitið styrkt gagnvart öðrum ríkjum.
Kjarni Schengen-samstarfsins er annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi.
Fimmtán Evrópuríki eru þátttakendur í Schengen samstarfinu frá 25. mars 2001. Þetta eru auk Íslands, Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Þýskaland, Belgía, Frakkland, Lúxemborg, Holland, Ítalía, Austurríki, Spánn, Portúgal og Grikkland.
Bretland og Írland eru nú einu ríki Evrópusambandsins sem taka ekki fullan þáttt í Schengen samstarfinu og hafa þessi ríki því ekki afnumið eftirlit á landamærum sínum.
Hver er reynsla Íslands af ferðafrelsi án persónueftirlits á landamærum?
Íslendingar hafa þegar góða reynslu af ferðafrelsi án persónueftirlits á landamærum. Frá árinu 1957 hefur Ísland verið aðili að Norræna vegabréfasambandinu ásamt Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í því felst að ríkisborgarar aðildarríkjanna geta ferðast á milli þeirra án þess að sæta persónueftirliti. Markmið Norræna vegabréfasambandsins var að gera öll Norðurlöndin að einu vegabréfasvæði með einum ytri landamærum. Ríkisborgarar í löndum Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands hafa því um árabil getað ferðast að vild á milli landanna án þess að sýna vegabréf sín, en verða þó, eftir sem áður, að framvísa tollskyldum varningi. Þess má geta að sú regla helst óbreytt áfram að Íslendingar þurfa ekki að framvísa vegabréfum á gististöðum á Norðurlöndum og gildir það gagnkvæmt um ríkisborgara Norðurlanda hér á landi.
Hvaða þýðingu hefur frjáls för yfir innri landamæri?
Hægt er að ferðast um á Schengen svæðinu án þess að framvísa vegabréfum á landamærum. Þess er hins vegar krafist að þeir sem ferðast á svæðinu hafi meðferðis gild persónuskilríki til að þeir geti sannað á sér deili hvenær sem krafist er. Því er mikilvægt að íslenskir ferðamenn hafi ávallt vegabréf sitt meðferðis þar sem engin önnur raunveruleg persónuskilríki eru gefin út hér á landi. Einnig ber að hafa í huga að flugfélög geta krafist þess að ferðamenn framvísi vegabréfum áður en gengið er um borð í flugvél.
Í flughöfnum í öllum Schengen ríkjum, þar með talið í Leifsstöð verður skilið á milli farþega sem fljúga innan Schengen-svæðisins og þeirra sem fljúga til eða frá ríki sem er utan Schengen-samstarfsins. Allir sem koma inn á Schengen-svæðið fara í gegnum vegabréfaeftirlit við komu til fyrsta ríkis á svæðinu en eftir það er ekki um frekara eftirlit að ræða. Þau ríki sem þetta á helst við í reglubundnum flugsamgöngum við Ísland eru Bandaríkin og Bretland. Með tilkomu Schengen samstarfsins munu farþegar á leið til eða frá þessum ríkjum gangast undir persónueftirlit á landamærum bæði við komu í landið og þurfa að framvísa vegabréfum. Það á jafnt við þótt þeir fari ekki út fyrir flugstöðina og taki tengiflug með aðeins stuttri viðkomu í Leifsstöð.
Þó Íslendingum verði frjálst að fara yfir innri landamærin á Schengen svæðinu þá er réttur til dvalar eftir sem áður takmarkaður af reglum viðkomandi ríkis eða reglum samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið. Þarf einstaklingur því almennt að sækja um dvalarleyfi hyggist hann dvelja lengur en 90 daga í viðkomandi ríki.
Hvað kemur í staðinn fyrir afnám eftirlits á landamærum?
Annað tveggja meginmarkmiða Schengen samningsins er að berjast gegn afbrotum og efla lögreglusamvinnu á milli ríkjanna. Mikilvægur þáttur í lögreglusamvinnu er rekstur sameiginlegs upplýsingabanka – Schengen upplýsingakerfisins – sem geymir upplýsingar um t.d. um eftirlýsta einstaklinga sem óskað er handtöku á vegna gruns um afbrot eða til að afplána fangelsisrefsingu, týnda einstaklinga, útlendinga sem neita á um inngöngu inn á Schengen svæðið, einstaklinga sem stefna á fyrir dóm og upplýsingar um stolna muni eins og t.d. bifreiðar, skotvopn, skilríki o.fl.
Lögregla í öllum Schengen ríkjunum hefur aðgang að gagnabankanum. Þá hefur Útlendingaeftirlitið einnig aðgang að bankanum til að leita upplýsinga varðandi útlendinga sem bönnuð hefur verið koma inn á Schengensvæðið. Slíkur gagnabanki leiðir til aukins upplýsingaflæðis og auðveldar samstarf á milli yfirvalda Schengen ríkjanna. Lögregla gegnir mikilvægu hlutverki í Schengen samstarfinu en þegar vegabréfaeftirlit milli Schengen ríkjanna leggst af eykst þörfin á virku samstarfi innan svæðisins. Kemur Schengen upplýsingakerfið þar að góðum notum en lögreglumenn allsstaðar á landinu munu hafa aðgang að því og geta aflað þar upplýsinga, hvort heldur er vegna venjubundins eftirlits eða af einhverju öðru sérstöku tilefni og kannað hvort þar séu að finna upplýsingar um viðkomandi einstakling. Er eftirlit sem þetta hjá lögreglu einn af lykilþáttum þess að Schengen samstarfið verði árangursríkt. Tl að tryggja að allar þær upplýsingar sem settar eru inn í gagnabanka Schengen séu réttar og í samræmi við reglur, hefur hvert aðildarlandanna sett upp svokallaða SIRENE skrifstofu, (Supplementary Information Request on National Entry). Starfsmenn skrifstofunnar fara yfir og leggja mat á allar þær upplýsingar er leggjast eiga inn í bankann. Skrifstofa þessi er einnig einskonar miðpunktur lögregluembætta í viðkomandi landi, sem og gagnvart öðrum Schengen löndum, þegar dreifa skal upplýsingum í gegnum gagnabankann. Ef t.d. franska lögreglan lýsir eftir peningafalsara í SIS kerfinu og sá finnst á Íslandi, þá munu SIRENE skrifstofur þessara tveggja landa sjá um dreifingu allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru á milli landanna og varða til að mynda handtökuna og væntanlegt framsal hins handtekna til Frakklands. SIRENE skrifstofan á Íslandi er í húsnæði Ríkislögreglustjórans að Skúlagötu 21, Reykjavík og er undir hans stjórn.
Hvernig er vernd persónuupplýsinga háttað í Schengen?
Rík áhersla er lögð á vernd þeirra persónuupplýsinga sem skráðar eru í Schengen-upplýsingakerfið. Í lögum um Schengen-upplýsingakerfið eru strangar reglur bæði hvað varðar vernd persónuupplýsinga og öryggi kerfisins í heild. Hvert ríki ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem það skráir í upplýsingakerfið og er bótaskylt fyrir tjóni sem rangar upplýsingar geta haft í för með sér. Hver sem skráður er í upplýsingakerfið á rétt á að fá vitneskju um skráðar upplýsingar um sig í kerfinu. Persónuvernd hefur eftirlit með því að lögum og reglum um Schengen upplýsingakerfið sé framfylgt.
Hver verður réttarstaða útlendinga á Schengensvæðinu?
Schengensamningurinn heimilar einstaklingum sem dveljast löglega á Schengensvæðinu för um svæðið án eftirlits á landamærum. Tekur þetta ekki bara til ríkisborgara þessara ríkja heldur einnig til útlendinga. Þannig geta útlendingar sem hafa gild dvalarleyfi í Schengenríki ásamt gildu ferðaskilríki ferðast um svæðið og þurfa ekki til þess aðra sérstaka heimild.
Hvaða breytingar verða á reglum um vegabréfsáritanir?
Með þátttöku í Schengensamstarfinu breytist staða þeirra sem þurfa vegabréfsáritun. Samræmd Schengenvegabréfsáritun tekur við af núverandi formi. Mun þessi áritun gilda til ferða til allra Schengenríkjanna og verður því ekki nauðsynlegt að sækja sérstaklega um áritun til Íslands. Í þeim tilvikum að Ísland er aðalákvörðunarstaður viðkomandi þá munu sendiráð annarra Schengenríkja á yfir 100 stöðum vítt og breitt um heiminn gefa út áritun fyrir hönd Íslands. Upplýsingar um hvaða sendiráð er að ræða gefa útlendingaeftirlit og utanríkisráðuneyti.
Hvaða breytingar verða á flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna Schengen?
Samhliða gildistöku Schengensamningsins verður ný viðbygging við flugstöð Leifs Eiríkssonar tekin í notkun. Vegna tilkomu Schengensamstarfsins verður skilið á milli farþega sem fljúga innan Schengen-svæðisins og þeirra sem fljúga til eða frá ríki sem er utan Schengensamstarfsins. Vegna þessa aðskilnaðar verða tvær fríhafnir og tvö þjónustusvæði, hvort í sinni byggingu flugstöðvarinnar.
Hvað er Schengen samstarfið ekki?
Hér á eftir eru áréttuð nokkur atriði sem breytast ekki með þátttöku Íslands í Schengen samstarfinu og mikilvægt er að hafa í huga.
Vegabréfin alltaf meðferðis!
Þótt þeir sem ferðast innan Schengen svæðisins verði ekki krafðir um vegabréf á landamærumer engu að síður mælt með því að fólk hafi ávallt vegabréf sitt með í för. Sú skylda er lögð á alla sem ferðast innan svæðisins að geta framvísað fullgildum persónuskilríkjum sem eru viðurkennd af öðrum Schengen ríkjum. Sem stendur er íslenska vegabréfið í raun eina skilríkið sem vissa er fyrir að önnur ríki viðurkenni sem gild persónuskilríki. Einnig kunna flugfélög á Schengen svæðinu að óska eftir því að sjá vegabréf farþega sinna.
Schengen breytir í engu reglum um leyfi til dvalar og atvinnu í Schengen ríkjum!
Þrátt fyrir að menn séu ekki krafðir um vegabréf er þeir ferðast á milli Schengen ríkja, breytir það ekki gildandi reglum um að tilskilin leyfi þurfi fyrir lengri dvöl í landinu eða atvinnu. Þannig verða einstaklingar sem ætla að dvelja lengur en þrjá mánuði í Schengenríki að kynna sér sérstaklega þær reglur er gilda í viðkomandi ríki um lengri dvöl. Ella kunna þeir að verða ólöglega staddir í landinu eftir að þessu tímamarki lýkur.
Schengen breytir í engu tolleftirliti á landamærum á Schengen svæðinu!
Reglur um tolleftirlit á landamærum ríkja á Schengen svæðinu breytast ekki við gildistöku Schengen samningsins. Þeir sem ferðast hingað til lands frá Evrópuríki á Schengen svæðin verða því að lúta sömu reglum og áður varðandi innflutning á tollskyldum vörum og gangast undir hefðbundið tolleftirlit í Leifsstöð eða í höfn hér á landi. Reglur um fríhafnarverslun standa óbreyttar.
23. mars 2001.