Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 296/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 296/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020069

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. febrúar 2018 kærði […], fd. […], frá Palestínu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. febrúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Spánar.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. og 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málið sent til nýrrar meðferðar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. apríl 2017. Með ákvörðun 26. maí 2017 synjaði Útlendingastofnun því að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar á þeim grundvelli að heimilt væri að krefja Spán um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 556/2017 uppkveðnum 10. október 2017 var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Kærandi var fluttur til Spánar í fylgd lögreglumanna frá stoðdeild ríkislögreglustjóra þann 31. október 2017.

Þann 27. nóvember 2017 lagði kærandi á ný fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Spáni, Svíþjóð og Íslandi. Þann 7. desember 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 20. desember 2017 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 1. febrúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Spánar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 6. febrúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 20. febrúar 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 12. mars 2018 ásamt fylgigögnum og viðbótargagn barst þann 14. mars sl.

Vegna máls kæranda sendi kærunefnd fyrirspurnir til Útlendingastofnunar þann 10. og 12. apríl 2018, til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra þann 16. apríl sl., til spænskra stjórnvalda þann 25. apríl og 4. maí sl. og til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þann 25. maí sl. Svör frá Útlendingastofnun bárust þann 10. apríl og 7. maí sl., frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra þann 14. maí sl. og frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þann 4. júní sl. Síðastnefnda svarinu fylgdu upplýsingar sem flóttamannastofnun aflaði frá spænskum yfirvöldum í tilefni fyrirspurnar nefndarinnar. Með tölvupósti þann 15. júní 2018 óskaði kærunefnd eftir viðbótargögnum frá kæranda. Gögnin bárust kærunefnd 28. júní 2018. Með tölvupósti 19. júní sl. var kæranda veitt tækifæri til að koma að athugasemdum við upplýsingar sem bárust nefndinni frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. og 21. júní. Með tölvupósti þann 2. júlí sl. óskaði nefndin eftir viðbótargögnum frá kæranda. Gögn bárust frá kæranda þann 10. júlí sl.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Spánar. Flutningur kæranda til Spánar fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var talinn vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Spánar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun myndi gera spænskum stjórnvöldum viðvart um aðstæður kæranda áður en hann yrði fluttur til Spánar. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er greint frá því að hann hafi áður sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, þ.e. þann 4. apríl 2017. Með ákvörðun 26. maí 2017 hafi Útlendingastofnun synjað því að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar og ákveðið að kærandi skyldi endursendur til Spánar. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 556/2017 uppkveðnum 10. október 2017 hafi áðurnefnd ákvörðun Útlendingastofnunar verið staðfest. Með vísan til líkamlegra kvilla kæranda, einkum blóðtappa í höfði og nauðsynlegrar lyfjameðferðar og læknaeftirlits, hafi nefndin talið að kærandi væri einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Hafi nefndin lagt fyrir Útlendingastofnun að sjá til þess að gerðar yrðu sérstakar varúðarráðstafanir vegna heilsu kæranda við flutninginn til Spánar og að þarlend yfirvöld yrðu upplýst um líkamlegt atgervi kæranda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun sem fram fór þann 9. janúar 2018 hafi kærandi greint frá því að hann hafi dvalið á Spáni í viku eða 10 daga eftir komuna frá Íslandi. Á flugvellinum á Spáni hafi lögreglan tekið á móti kæranda og afhent honum upplýsingabækling um Dyflinnarreglugerðina. Eftir það hafi kærandi verið einn síns liðs. Hann hafi leitað til spænskra yfirvalda til að fá skilríki og félagslega aðstoð. Kæranda hafi verið tjáð af yfirvöldum að máli hans um alþjóðlega vernd væri lokið, honum afhent ákvörðun þess efnis og einungis leiðbeint um möguleika á að kæra ákvörðunina. Kærandi hafi þó ekki skilið efni ákvörðunarinnar og ekki fengið aðstoð lögfræðings. Þar sem kærandi hafi ekki lengur verið með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá spænskum yfirvöldum hafi hann ekki átt rétt á nauðsynlegri félagsþjónustu eða heilbrigðisaðstoð. Hann hafi þó þegið tímabundið húsaskjól og aðra aðstoð frá hjálparsamtökum.

Hvað varðar heilsufar kæranda er þess m.a. getið í framangreindu viðtali sem og í greinargerð kæranda að hann hafi í eitt sinn leitað á bráðamóttöku á Spáni vegna heilsufars. Heilsufari hans hafi hrakað mikið þar í landi enda hafi hann verið án nauðsynlegs læknaeftirlits og lyfja. Kærandi hafi þó fengið með sér takmarkaðan skammt af lyfjum frá Íslandi en þeim hafi ekki fylgt leiðbeiningar um magn inntöku. Hafi kærandi ekki fengið lyf eða nauðsynlega meðferð á Spáni og því hafi heilsufari hans hrakað verulega. Þá hafi andlegu heilsufari hans jafnframt farið versnandi, m.a. vegna kvíða, álags og streitu. Ennfremur hafi kærandi glímt við sjálfsvígshugsanir. Hann hafi m.a. þolað ofbeldi, þ.m.t. kynferðislegt ofbeldi. Kærandi sé tvíkynhneigður. Til stuðnings framangreindu hefur kærandi m.a. vísað til læknisvottorðs, dags. 20. desember 2017, göngudeildarnótu, dags. 14. febrúar 2018, sálfræðimats, dags. 18. febrúar 2018 og vottorðs frá sjúkraþjálfara, dags. 28. febrúar sl.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Er í þeim efnum m.a. fjallað um annmarka á rannsókn Útlendingastofnunar hvað varðar andleg veikindi kæranda. Kærandi hafi til að mynda óskað eftir fresti hjá stofnuninni til að leggja fram sálfræðimat en þeirri beiðni hafi verið hafnað og því hafi gagnið ekki legið fyrir við meðferð málsins. Bendir kærandi m.a. á að synjun Útlendingastofnunar á að veita umbeðinn frest sé í ósamræmi við þau ummæli stofnunarinnar í hinni kærðu ákvörðun um að kærandi hafi ekki lagt fram gögn varðandi andlega heilsu sína. Ennfremur gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar á líkamlegum veikindum sínum. Ljóst sé að kærandi glími við alvarleg líkamleg veikindi. Kærandi hafi lagt fram beiðni um frest til Útlendingastofnunar til 9. febrúar sl. til að leggja fram umsögn sérfræðilæknis í blóðlækningum. Stofnunin hafi hins vegar hafnað þeirri beiðni. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi því tekið ákvörðun í málinu án þess að nauðsynleg læknisfræðileg gögn hafi legið fyrir og af því leiði að mat samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hafi ekki farið fram með fullnægjandi hætti.

Í greinargerð kæranda er jafnframt fjallað um inntak og túlkun 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af hugtakinu „viðkvæm staða“. Bendir kærandi á að hann sé í viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, einkum vegna bláæðasega, og vísar til áðurnefnds læknisvottorðs frá 20. desember 2017. Andleg veikindi kæranda leiði til sömu niðurstöðu. Þá er í greinargerð kæranda einnig gerð grein fyrir aðstæðum á Spáni, m.a. með hliðsjón af skýrslu umboðsmanns á Spáni þar sem segi að þegar um sé að ræða viðkvæma einstaklinga sé framkvæmdinni verulega ábótavant. Í skýrslunni sé m.a. gagnrýnt að ekki séu til staðar verkferlar eða nægileg aðstoð fyrir einstaklinga sem séu sérstaklega viðkvæmir. Í því ljósi og með hliðsjón af andlegum og líkamlegum veikindum kæranda sé ljóst að hann muni eiga erfitt uppdráttar á Spáni. Sérstakar ástæður séu því uppi í máli kæranda sem mæli með því að málið verði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar varakröfu kæranda, um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, byggir kærandi m.a á því að Útlendingastofnun hafi ekki byggt ákvörðun sína á fullnægjandi gögnum og eða áliti sérfræðinga, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá hefur kærandi einnig komið á framfæri til kærunefndar athugasemdum sem varða svör Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við fyrirspurn nefndarinnar. Í athugasemdum kæranda er m.a. lögð áhersla á alvarlega heilsubresti kæranda, að frestur kæranda til að kæra ákvörðun spænskra stjórnvalda um niðurfellingu umsóknar hans sé liðinn, að mikið álag sé á spænska kerfinu og að það geti tekið talsverðan tíma að leggja fram og fá skráða nýja umsókn um alþjóðlega vernd á Spáni. Á meðan skráningu umsóknar standi geti réttarstaða viðkomandi einstaklinga verið lakari en hvað varði þá einstaklinga sem fengið hafi umsókn sína skráða. Þá hafi kærandi áður þegið félags- eða heilbrigðisþjónustu á Spáni og þar sem hægt sé að fullnýta rétt til slíkrar þjónustu leiki vafi á um hvort kæranda standi hún enn til boða. Með tölvupósti þann 10. júlí sl. til kærunefndar vísaði kærandi til bréfs frá yfirlækni á blóðmeinafræðideild Segavarna, dags. 6. júlí sl., og taldi ljóst að kæranda hafi ekki verið tryggð lyf við endursendingu hans til Spánar. Í þeim tölvupósti ítrekaði kærandi og fyrri athugasemdir sínar.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Spánar er byggt á því að kærandi hafi haft til meðferðar umsókn um alþjóðlega vernd á Spáni, en dregið hana til baka. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli. 

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Í úrskurði kærunefndar nr. 556/2017 var kærandi skilgreindur sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu með vísan til þess að líkamleg veikindi kæranda væru þess eðlis að hann þyrfti viðvarandi sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem fælist bæði í lyfjagjöf og eftirliti. Í úrskurðinum var m.a. vísað til læknisfræðilegra gagna um kæranda þar sem fram kom að hann væri með erfðasjúkdóminn […] og væri mögulega jafnframt með erfðagallann […]. Kærandi hefði fengið endurtekna blóðtappa, m.a. í höfuð, en slíkir blóðtappar geta verið lífshættulegir og því nauðsynlegt að meðhöndla þá með blóðþynnandi lyfjum. Hér á landi hefði kærandi fengið meðferð með blóðþynningarlyfjum en mögulegt væri að hann þyrfti slíka meðferð ævilangt. Þá var vísað til gagna um að kærandi þyrfti eftirlit lækna a.m.k. á fjögurra vikna fresti til að fylgjast með blóðþynningu. Ef eftirliti og meðferð kæranda væri ábótavant væri hætta á nýjum blóðtappa sem gæti leitt til varanlegra taugaeinkenna eða jafnvel dauða. 

Í þessu máli hefur kærandi lagt fram frekari gögn um heilsufar sitt, bæði andlegt og líkamlegt. Þannig segir í læknisvottorði frá Landspítalanum, dags. 20. desember sl., að kærandi hafi sögu um endurtekna bláæðasega, fyrst og fremst stórar bláæðar í höfði sem geti valdið taugaeinkennum og krónískum höfuðverk. Kærandi þurfi að vera á ævilangri blóðþynningu. Ennfremur er þess getið að þegar kærandi hafi komið til baka frá Spáni hafi hann ekki verið á blóðþynningu. Sé ástæðan fyrir því sú að kærandi hafi ekki haft aðgang að læknisþjónustu þar í landi. Slíkt sé hægt að staðfesta með blóðmælingum en gildi kæranda við komu hafi sýnt að engin blóðþynning hafi verið til staðar. Í göngudeildarnótu, dags. 14. febrúar 2018, er tekið fram að kærandi hafi hitt sérfræðilækni á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga. Daginn áður hafi kærandi leitað á bráðamóttöku Landspítalans. Um sé að ræða eftirlit vegna endurtekinna sinus thrombosis eða segamyndunar. Að sögn kæranda sé hann með mikinn höfuðverk, sofi illa og fái martraðir. Að mati læknisins þurfi kærandi að fá tryggt eftirlit læknis og líklega ævilanga blóðþynningu.

Í bréfi frá Sjúkraþjálfun Íslands, dags. 28. febrúar 2018, segir m.a. að kærandi hafi komið í sex tíma vegna höfuðverkja og blóðtappa. Höfuðverkir hafi minnkað þegar liðið hafi á meðferðartörn. Kærandi hafi góða meðferðarheldni og áhuga á að ná fram góðum bata samkvæmt meðferðarplani sem ætlað sé að halda blóðtappa í skefjum.

Í sálfræðimati, dags. 18. febrúar 2018, er m.a. greint frá því að niðurstöður skimunar á kæranda hafi leitt í ljós alvarlegan kvíða, þunglyndi og streitu. Kærandi mælist vel yfir greiningarskilmerkjum um áfallastreituröskun. Kærandi hafi reynt að taka sitt eigið líf. Við núverandi aðstæður sé hætta á að kærandi geri aðra tilraun til slíks. Er niðurlag matsins á þann veg að andleg líðan kæranda sé alls ekki góð og hafi versnað á síðustu mánuðum. Um sé að ræða alvarleg einkenni sem beri að skoða sem slík.

Í ljósi gagna málsins og með hliðsjón af fyrra mati kærunefndar á aðstæðum kæranda í úrskurði nr. 556/2017 er það mat kærunefndar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans þess eðlis að hann telst hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem talið verður að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð á Spáni

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð á Spáni, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Spain (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018),
  • 2017 Country Reports on Human Rights Practices – Spain (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Spain (UNHCR, júní 2014),
  • Handbook on European law relating to asylum, borders and immigration (European Union Agency for Fundamental Rights, Council of Europe 2014),
  • Freedom in the World 2017 – Spain (Freedom House, 12. júlí 2017),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Spain (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Report to the Spanish Government on the visit to Spain carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment from 14 to 18 july 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 9. apríl 2015), og
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Spain from 3 to 7 June 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 9. október 2013).

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra og fá aðstoð túlks ef þess þarf. Auk þess eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á lögfræðiþjónustu við að leggja fram umsókn og eftir atvikum við kærumeðferð máls. Þeir sem fengið hafa synjun á umsókn sinni geta bæði leitað endurskoðunar innan stjórnsýslunnar og fyrir dómstólum. Þá geta umsækjendur lagt fram nýja umsókn ef fyrri umsókn er synjað. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir geta skilyrði nýrrar umsóknar verið uppfyllt. Þó er tekið fram að það geti tekið nokkurn tíma að fá umsókn um alþjóðlega vernd skráða hjá spænskum stjórnvöldum. Skráning umsóknar sé forsenda þess að einstaklingar fái stöðu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Spænsk stjórnvöld hafa jafnframt ákveðnar heimildir til að fella niður umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd með ákvörðun um niðurfellingu (s. Caducado), sbr. 27. gr. spænskra laga um alþjóðlega vernd nr. 12/2009. Á það t.d. við ef umsækjandi dregur umsókn til baka eða hverfur frá henni að öðru leyti, sem og ef umsækjandi svarar ekki fyrirspurnum eða veitir ekki umbeðnar upplýsingar innan 30 daga frá beiðni þar að lútandi, nema viðkomandi geti sýnt fram á að aðstæður hans hafi verið þess eðlis að honum hafi slíkt ekki verið fært. Í þeim tilvikum, sem og vegna annarra ákvarðana, er spænskum yfirvöldum skylt að tilkynna aðilum máls um ákvörðun. Ákvörðun um niðurfellingu felur í sér lok umrædds máls út frá formlegu sjónarmiði en umsækjanda er heimilt að kæra slíka ákvörðun. Kærufrestur er einn mánuður fyrir stjórnvöldum en tveir mánuðir fyrir dómstólum. Ef spænsk stjórnvöld taka ákvörðun um niðurfellingu umsóknar um alþjóðlega vernd áður en efnisleg afstaða hefur verið tekin til hennar getur viðkomandi einstaklingur síðar lagt fram nýja umsókn. Af gögnum málsins má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á aðstoð túlks á öllum stigum máls, allt frá viðtali til tilkynningar um ákvörðun. 

Spánn er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þegar umsækjendur hafa lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Spáni leitast spænsk stjórnvöld við að úthluta þeim gistingu í þeirri móttökumiðstöð sem hentar sem best hverjum umsækjanda. Þá er umsækjendum tryggður endurgjaldslaus aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu til jafns við spænska ríkisborgara og aðra einstaklinga sem hafa dvalarleyfi á Spáni. Jafnframt geta umsækjendur, þ.m.t. þeir sem hafa orðið fyrir líkamlegu eða andlegu ofbeldi eða misnotkun, fengið aðgang að sérhæfðari heilbrigðisþjónustu.

Í framangreindum skýrslum er þess m.a. getið að í spænskum lögum um alþjóðlega vernd sé ekki kveðið á um sérstaka verkferla með það fyrir augum að greina á byrjunarstigi hvort umsækjendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í framkvæmd geti slík greining þó að vissu leyti farið fram í viðtölum opinberra fulltrúa við umsækjendur, hjá borgaralegum samtökum og í móttökumiðstöðvum. Vegna mikils fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni hafi það þó reynst nokkrum vandkvæðum bundið að greina með fullnægjandi hætti hvort umsækjendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í spænska móttökukerfinu sé þó reynt að meta hvort umsækjendur sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafi einhverjar sérþarfir. Þá sé slíkum umsækjendum sýndur aukinn sveigjanleiki í spænska móttökukerfinu, en þeim geti t.d. verið heimilt að dvelja lengur í móttökumiðstöðum en almennt eigi við. Aftur á móti segir í ofangreindum skýrslum að þau úrræði sem spænska kerfið búi yfir hvað varði umsækjendur í sérstaklega viðkvæmri stöðu séu almenn og nái ekki utan um sérþarfir þeirra sem séu í hvað alvarlegastri stöðu. Þeir umsækjendur geti þó sótt sérhæfðari þjónustu til utanaðkomandi þjónustuaðila. Hafi hinn almenni bragur sem ríki á spænska móttökukerfinu sætt gagnrýni, m.a. af Amnesty International, UNICEF og spænska umboðsmanninum.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er ungur, tvíkynhneigður karlmaður sem glímir við líkamleg og andleg veikindi sem áður hefur verið greint frá. Hvað varðar líkamleg veikindi kæranda er einkum um að ræða blóðtappa í bláæðum höfuðs. Samkvæmt þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggja fyrir í málinu er ljóst að kærandi þarf viðvarandi lyfjameðferð og eftirlit lækna að halda og að skortur á viðunandi meðferð geti verið honum lífshættulegur. Þá er þess m.a. getið í áðurnefndu sálfræðimati, dags. 18. febrúar 2018, að kærandi sé haldinn kvíða, þunglyndi og streitu auk þess að hafa greinst yfir skimunarmerkjum um áfallastreituröskun.

Í úrskurði kærunefndar nr. 556/2017, þar sem staðfest var ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi og að hann skyldi endursendur til Spánar, vísaði nefndin m.a. til þess að kærandi hefði verið í meðferð við veikindum sínum hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa. Þar sem kærandi væri með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar á Spáni, spænska heilbrigðiskerfið væri fullnægjandi og kæranda stæði þar til boða viðeigandi heilbrigðisþjónusta, taldi nefndin unnt að endursenda kæranda aftur til Spánar enda yrði ekki rof á meðferð hans. Þá var forsendan fyrir þeirri niðurstöðu jafnframt m.a. sú að fyrir flutning kæranda til Spánar yrðu stjórnvöld þar í landi upplýst um heilsufar kæranda og beindi nefndin sérstaklega tilmælum þess efnis til Útlendingastofnunar með vísan til 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í málinu liggur fyrir að stuttu eftir komuna til Spánar fékk kærandi afhenta ákvörðun spænskra stjórnvalda, dags. 3. nóvember 2017, um að umsókn hans um alþjóðlega vernd þar í landi hafi verið felld niður og að hægt væri að kæra ákvörðunina innan eins mánaðar.

Með vísan til skýrslna um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd og svars Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við fyrirspurn kærunefndar um þetta efni, dags. 4. júní sl., telur kærunefnd ljóst að frestur kæranda til að kæra umrædda ákvörðun sé liðinn. Af gögnum málsins liggur þó jafnframt fyrir að ákvörðun um niðurfellingu felur ekki í sér efnislega úrlausn á umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd á Spáni. Einstaklingum, í þeirri stöðu sem kærandi er í, er því heimilt að leggja fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi. Eftir að slík umsókn hefur verið lögð fram og skráð geta einstaklingar fengið aðgang að þeirri aðstoð og þjónustu sem spænska kerfið um alþjóðlega vernd býður upp á.

Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd að byggja verði niðurstöðu máls þessa á því að kærandi geti lagt fram nýja umsókn á Spáni um alþjóðlega vernd og í kjölfarið notið þeirra réttinda eða þjónustu sem því fylgir. Liggur þó jafnframt fyrir að ekki sé hægt að byggja á því að kærandi geti notið þeirra réttinda og þjónusta án tafar við komu til Spánar enda geti kærandi þurft að bíða eftir skráningu umsóknar þannig að réttindi og þjónusta verði virk. Að mati kærunefndar benda gögn málsins þó til þess að almennt væri unnt með viðhlítandi undirbúningi af hálfu íslenskra heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda að flytja kæranda til Spánar þannig að ekki yrði rof á meðferð hans, einkum með því að tryggja að spænsk yfirvöld væru upplýst um heilsufar hans auk annarra varúðarráðstafana eins og að hann hefði meðferðis lyf til einhvers tíma.

Eins og áður hefur komið beindi kærunefnd útlendingamála því til Útlendingastofnunar í úrskurði nr. 556/2017 að sjá til þess að viðeigandi varúðarráðstafanir vegna heilsu kæranda yrðu gerðar við flutning hans til Spánar og að spænsk stjórnvöld yrðu látin vita um líkamlegt ástand hans fyrir flutninginn, sbr. 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þrátt fyrir framangreint benda læknisfræðileg gögn, sem liggja fyrir í málinu varðandi ástand hans við endurkomu hingað til lands, til þess að rof hafi orðið á meðferð kæranda þegar hann var fluttur til Spánar í kjölfar fyrri úrskurðar kærunefndar útlendingamála. Af samskiptum kærunefndar við Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra liggur fyrir að við flutninginn til Spánar tryggðu stjórnvöld að kærandi hefði meðferðis þau læknisfræðilegu gögn sem hann hafði lagt fyrir hjá íslenskum stjórnvöldum. Aftur á móti var heilbrigðisupplýsingum um kæranda ekki miðlað til spænskra yfirvalda í samræmi við ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. 31. og 32. gr. reglugerðarinnar. Þá hefur kærunefnd, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki tekist að upplýsa með fullnægjandi hætti hvort íslenskar heilbrigðisstofnanir hafi látið kæranda í té nauðsynleg lyf ætluð til notkunar á Spáni í viðeigandi tíma eftir komu hans þangað við fyrri endursendingu. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur aflað virðist því ekki hafa verið gripið til frekari ráðstafana vegna heilsufars kæranda við flutning hans til Spánar en að senda með honum læknisfræðileg gögn, sem virðast að meginstefnu til hafa verið á íslensku, og afla svonefnds „fit to fly“ vottorðs, sem samkvæmt frásögn læknis sem gaf út vottorðið bar mjög brátt að og var ekki gefið út í kjölfar sérstakrar skoðunar á kæranda.

Útlendingastofnun og lögregla bera ábyrgð á framkvæmd frávísana og brottvísana en ákvarðanir sem varða framkvæmd verða ekki kærðar sérstaklega, sbr. 5. og 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir fyrirmæli kærunefndar í fyrri úrskurði í máli kæranda sem tengdust framkvæmd flutnings hans telur kærunefnd ekki unnt að byggja niðurstöðu málsins á öðru en að þær varúðarráðstafanir sem íslensk stjórnvöld gripu til við flutning kæranda til Spánar hafi ekki verið fullnægjandi til að tryggja að ekki yrði rof á meðferð kæranda. Þá benda samskipti kærunefndar við önnur stjórnvöld ekki til þess að ef til þess kæmi að kærandi yrði fluttur aftur til Spánar myndi sú framkvæmd vera með öðrum hætti.

Að öllu framangreindu virtu, þ.e. einkum hvað varðar heilsufar kæranda og þær alvarlegu afleiðingar sem rof á meðferð kunna að hafa fyrir kæranda, er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér sérstaklega stendur á, að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Kærunefnd telur óhjákvæmilegt að gera athugasemd við tilteknar fullyrðingar og eða ummæli í ákvörðun Útlendingastofnunar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. janúar sl. greindi kærandi m.a. frá því, aðspurður hvort hann gerði athugasemdir við að vera sendur aftur til Spánar, að hann myndi deyja yrði hann sendur til þess ríkis. Er í ákvörðun stofnunarinnar fjallað um þetta sjónarmið kæranda á þá vegu að: „Að mati Útlendingastofnunar er framburður kæranda trúverðugur varðandi þær málsástæður sem hann heldur fram fyrir utan það að hann muni deyja verði hann sendur til Spánar enda eru engin læknisfræðileg gögn sem liggja fyrir í málinu sem benda til þess að umsækjandi muni deyja verði hann sendur til Spánar.“

Kærunefnd tekur fram að með framangreindum ummælum kæranda lét hann augljóslega einungis í ljós huglæga afstöðu sína og ótta við að vera sendur til baka til Spánar. Af hálfu stofnunarinnar var engin þörf á að hafna slíku sjónarmiði með vísan til skorts á læknisfræðilegum gögnum. Þá segir á öðrum stað í hinni kærðu ákvörðun að það eina sem hafi breyst frá því að kærandi lagði fram fyrstu umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi sé að kærandi segist nú vera samkynhneigður en hafi áður sagst vera tvíkynhneigður. Kærunefnd bendir á að augljóst er að ýmis atriði hafa tekið breytingum frá því að kærandi lagði fram fyrstu umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi. Nægir í þeim efnum t.d. að benda á ný gögn um heilsufar kæranda og niðurfellingu umsóknar hans hjá spænskum stjórnvöldum.

Í ljósi framangreinds verður að mati kærunefndar ekki hjá því komist að gera athugasemd við framsetningu rökstuðnings og ummæli Útlendingastofnunar. Kærunefnd áréttar enn og aftur mikilvægi þess að gætt sé hlutleysis við framsetningu rökstuðnings ákvarðana Útlendingastofnunar og að rökstuðningur endurspegli tilhlýðilega virðingu fyrir þeim málsástæðum sem bornar eru fram í málinu, sbr. t.d. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að öðru leyti og í ljósi niðurstöðu þessa máls telur nefndin ekki þörf á að gera frekari athugasemdir við hina kærðu ákvörðun.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellants application for international protection in Iceland.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Erna Kristín Blöndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta