Úthlutun styrkja til námsgagnagerðar 2022
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur úthlutað 52 m.kr. styrk úr Þróunarsjóði námsgagna til 28 verkefna. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.
Styrkþegum var boðið til morgunkaffis með mennta- og barnamálaráðherra í gær til að halda upp á styrkveitinguna og ræða tækifæri í útgáfu og dreifingu námsgagna.
Meðal verkefna sem hlutu stuðning voru vinnubók í náms- og starfsfræðslu, íslenskuefni um orðaforða og hugtakaskilning, námsgögn um hönnun og smíði, skógarnytjar, neysluvatnskerfi, stafræn stærðfræðikennsla, málörvun fjöltyngdra leikskólabarna á Íslandi og réttindafræðsla fyrir miðstig grunnskóla.
Áherslur þróunarsjóðs námsgagna fyrir árið 2022:
- Námsgögn sem styðja við skapandi kennsluhætti á sviði list- og verkgreina.
- Námsgögn sem styðja við náms- og starfsfræðslu.
- Námsgögn sem miða að markvissri eflingu íslensks orðaforða og hugtakaskilnings í ýmsum námsgreinum.
Í stjórn Þróunarsjóðs námsgagna sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Félags íslenskra framhaldsskóla auk fulltrúa ráðuneytisins.
Allir sem skrifa og útbúa námsefni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, s.s. kennarar, sjálfstætt starfandi fræðimenn og útgáfufyrirtæki, geta sótt um í sjóðinn. Opnað verður fyrir umsóknir í desember næstkomandi og nánari upplýsingar má finna á vef Rannís sem annast umsýslu hans.