Ávarp á fundi Félags íslenskra heimilislækna 2. mars 2002
Ræða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jóns Kristjánssonar,
á fundi Félags íslenskra heimilislækna
Hótel Loftleiðum
2. mars 2002
Ágætu heimilislæknar
Ég vil byrja á því að þakka Félagi íslenskra heimilislækna fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag, þar sem fyrirsögn dagsins er framtíð heimilislækninga.
Það er alveg sama hvert litið er í hinum vestræna heimi. Niðurstaðan er ætíð sú sama: Grundvöllur góðrar heilbrigðisþjónustu er öflug heilsugæsla, almennur réttur borgaranna óháður félagslegri stöðu þeirra og greið leið almennings að læknum.
Þess vegna segi ég að uppbygging heilsugæslunnar sé rökrétt, skynsamlega og hagkvæm. Þess vegna er það skoðun mín að framtíðin sé á þessu sviði lækninga bjartari en margir úr ykkar hópi halda á lofti. Og í þessari hugsun felst að það er ekki bara heilsugæslan sem er á réttri braut. Heilsugæslulæknirinn sjálfur er hornsteinninn í þessari mikilvægu þjónustu.
Mér er ljóst að félagið hefur frá stofnun haft mikinn metnað bæði fyrir sinni stöðu og stöðu heilsugæslunnar sem slíkrar. Í þessu sambandi vil ég lýsa aðdáun minni á endurteknum útgáfum félagsins á stöðlum fyrir starfsemi sína sem ég tel lýsa mjög metnaðarfullri vinnu með markmiðum og áherslum, sem við ættum að geta stefnt sameiginlega að, þótt öllum hafi ekki verið náð enn sem komið er.
Í ljósi þessa tel ég að markmið heilbrigðisyfirvalda og heilsugæslulækna fari á allan hátt saman. Þeim mun mikilvægara er að sú óánægja sem ríkt hefur núna um tíma verði leyst, okkur takist sameiginlega að greina ástæður og vinna að því að koma þeim málum í jákvæðan farveg. Í þessu sambandi lýsi ég eftir samstarfi við félagið.
Mér er ljóst að í þessum töluðum orðum dettur mörgum ykkar svokallað vottorðamál í hug. Ég kynntist þessu máli mjög fljótlega eftir að ég kom til starfa í embætti heilbrigðisráðherra. Þá fóru að berast í ráðuneytið harðorðar kvartanir úr ýmsum áttum vegna nýlegrar umtalsverðar hækkunar á vottorðum. Varð þetta að fjölmiðlamáli um tíma á miðju síðasta sumri. Ég tel ekki ástæðu til að rekja það mál frekar hérna en vænti þess að öllum hér sé ljóst að á ráðuneytinu dundu miklar og harðar kvartanir frá einstaklingum, sjúklingasamtökum, samtökum fatlaðra og samtökum atvinnurekenda til að leita skýringa og lagastoð fyrir þessari hækkun, sem sett var á án samráðs við ráðuneyti eða kjaranefnd.
Ég hef átt fundi með formanni kjaranefndar og lagt á það mikla áherslu að mál þessi verði sett í skíran farveg. Einnig hef ég marg lýst eindreginni ósk minni, meðal annar í áheyrn stjórnar Félags íslenskra heimilislækna um að úrskurður kjaranefndar gildi frá s.l. áramótum. Ég hef einlæga von um að þessi mál leysist hið fyrsta þannig að sátt náist.
Úr því að ég er farinn að ræða kjaranefnd þá leyfi ég mér að vitna til orða sem ég viðhafði við opnun nýs og glæsilegs húsnæðis heilsugæslunnar í Grafarvogi fyrir rúmri viku. Þar gat ég þess að mér væri ljóst eftir löng og mikil samtöl við heilsugæslulækna víða um land að óánægju gætti með laun og það hvernig laun þeirra hér á höfuðborgarsvæðinu verða til.
Ég gat þess einnig að ég útilokaði ekki breytingar í þessum efnum, hvorki launalega né varðandi rekstrarform. Ég gat þess, að ef fram kæmi eindreginn vilji til þess frá heilsugæslulæknum um að losna undan kjaranefnd, þá sæi ég ekkert athugavert við að kanna möguleika á því eins skjótt og verða mætti og lýsti mig tilbúinn til að leggja á mig umtalsvert erfiði, ef það mætti verða til þess að slá á óánægju manna.
Með öðrum orðum gat ég þess, að ég væri reiðubúinn til þess að skoða allar þær hugmyndir sem mega verða til þess að slá á óánægju manna með breyttu launafyrirkomulagi, þar sem hagsmunum beggja væri til skila haldið og að fyrir aukin afköst í heilsugæslunni fengju menn nokkuð fyrir snúð sinn.
Varðandi rekstrarformið vil ég þó ítreka það sem ég hef áður sagt og lagt áherslu á. Ég er ekki til viðtals um að gera neinar þær breytingar á grunnþjónustu heilbrigðisþjónustunnar sem fela í sér að horfið verði frá því að þjónustan sé almenn, aðgangur greiður og óháður tekjum, eignum eða félagslegri stöðu manna. Ég hafna hugmyndum þeirra stjórnmálamanna og lækna sem með tillögum sínum eru í raun að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi fyrir tvær þjóðir í sama landinu. Það gengur ekki þar sem það er praktíserað og það gengur síður hér á Íslandi.
Þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé á móti einkarekstri, síður en svo. Ég segi þetta vegna þess að fagleg lýðheilsurök mæla gegn fyrirkomulagi af þessu tagi, almenn fjárhagsleg rök mæla gegn því og einu rökin sem mögulega mætti týna til með svona kerfi eru þröngir sérhagsmunir sumra þeirra sem hasla sér völl í svona kerfi eða til dæmis tryggingafélaga sem fljótlega yrðu rekendur svona heilbrigðiskerfa.
Ágætu heilsugæslulæknar.
Ég vil dvelja aðeins áfram við stöðu kjaramálanna. Heilsugæslulæknar eru nú nánast eini starfshópurinn innan heilbrigðisþjónustunnar sem ekki semur um eigin laun, heldur er það falið dómstóli, kjaranefnd. Mér er ljós aðdragandinn að þessari lausn sem varð eftir langvinnar deilur 1996. Ég hef heyrt það á mörgum, að tilfærslan yfir í kjaranefnd hafi fært mönnum marga jákvæða þætti en um leið heyrt að margir telji fulla ástæðu til að endurskoða þetta mál að nýju og jafnvel óska eftir lagabreytingum, sem færðu félaginu samningsrétt á við aðrar stéttir heilbrigðisstarfsmanna og annarra opinberra starfsmanna.
Mín skoðun er sú að staða heilsugæslunnar kalli hugsanlega á breytingar. Það er ekki hægt að líkja ástandinu saman við það sem var fyrir átökin 1996, það er almennt lýst eftir aukinni þjónustu, það er kallað eftir aukinni nýliðun og fleira mætti nefna til stuðnings þessari fullyrðingu.
Á sama hátt tel ég að úrskurður kjaranefndar bindi verulega hendur stjórnenda heilbrigðisstofnanna, sá sveigjanleiki sem hefðbundnir samningar færa með sér eru sjaldnast eðli dóma kjaranefndar, sem starfar eftir þröngum lagaramma. Stjórnendur okkar stofnanna, það er framkvæmdastjórar og yfirlæknar, eiga því erfiðara með að mæta breyttum skilyrðum þar sem kjaranefndarúrskurður setur öllum slíkum sveigjanleika verulegar skorður. Þessi erfiðleiki er ráðuneytinu ljós.
Ég hef heyrt þann misskilning frá nokkrum heilsugæslulæknum að það sé af hálfu ráðuneytisins andstaða gegn því að heilsugæslulæknar færðust undan kjaranefnd en ég lýsi því hér yfir að svo er ekki, ég hef hins vegar talið að sú ósk ætti að koma frá hópnum sjálfum. Mér bárust þó þær upplýsingar að tillaga um að fara undan kjaranefnd hafi ekki verið samþykkt á aðalfundi félagsins í vetur og hef því ekki talið neinar forsendur fyrir því að ganga gegn þeim vilja félagsins. Verði hins vegar breyting þar á þá lýsi ég mig reiðubúinn til að taka á því máli eins og ég hef áður lýst yfir.
Eins og áður kom fram, lýsti ég í ræðu minni í Grafarvogi einnig yfir vilja mínum til að fjölga rekstrarformum. Ég hef í því sambandi ákveðið að næsta stöð, sem ég hef ákveðið að muni rísa í Salahverfi í Kópavogi verði vettvangur slíkrar rekstrartilraunar, ég mun því þegar frá húsnæði hefur verið gengið, sem vonandi verður í lok sumars, þá mun ég fela stjórn Heilsugæslunnar að bjóða þann rekstur út þar sem opið yrði fyrir breytileg rekstrarform. Ég tel sama koma til greina við næstu stöðvar, sem ég áætla að verið í Heimahverfi og Hafnarfirði.
Í þessu sambandi tel ég að Félag íslenskra heimilislækna hafi mikið til málanna að leggja. Ég tel mjög eðlilegt að við þessa vinnu verði stuðst við staðal félagsins í sem flestum þáttum.
Í vinnu ráðuneytisins undanfarin misseri hefur markvisst verið reynt að auka sjálfstæði stofnana og á þetta líka við um heilsugæslustöðvar. Það hefur þó bæði leitt af sér, að menn hafa kvartað undan miðstýringu og kallað eftir miðstýringu. Ég tel að öflugar einingar innan heilsugæslunnar eigi að geta orðið enn sjálfstæðari en þær eru í dag og að málefni hennar þurfi ekki að vera í því fari óánægju sem ég hef orðið var við að undanförnu.
Ég vil þó samtímis geta þess, að til mín hafa komið ungir læknar, nýútskrifaðir, oftar en einu sinni og lýst yfir mikilli ánægju með dvöl sína á heilsugæslustöðvum, hafa lýst þeim sem áhugaverðum vinnuvettvangi. Ég tel að í framtíðinni þá eigi nýliðun í heilsugæslulæknastétt að geta gengið vel. Ég hef þær óskir að heilsugæslan verði eftirsóttur vinnustaður þar sem færri komast að en vilja. Til þess þurfum við að sameina krafta okkar og vinna að þessu í sátt.
Mikil sókn í námsstöður í heimilislækningum, sem ráðuneytið hefur auglýst, gefur okkur fullt tilefni til að ætla, að áhugi ungra verðandi lækna fyrir starfi við heilsugæslu sé mikill. Ég hyggst því beita mér fyrir því, að fjölga þessum námsstöðum.
Samband læknis og sjúklings er óvíða sterkara en í heilsugæslunni, ég tel okkur verða að standa mikinn vörð um þetta samband. Sumir telja að þetta samband hafi veikst undanfarin ár. Ég held að það sé einn af þeim þáttum sem við þurfum að hafa sterklega í huga þegar við höldum áfram við að byggjum upp heilsugæsluna.
Í allri uppbyggingu í framtíðinni megum við alltaf búast við að á móti geti blásið um tíma, en megum ekki gleyma því að heilsugæslan er fyrst og fremst fyrir sjúklinginn. Markmið okkar hlýtur að vera sem áður að hún sé sjúklingunum góð, persónuleg, nálæg og af háum gæðaflokki. Heilsugæslan hefur haft mikið traust einstaklinga og fjölskyldna og ég vona að svo verði áfram.
Ég lýsi enn á ný yfir vilja mínum til samstarfs við félagið og þakka tækifærið til að ávarpa ykkur hér.
_______________
Talað orð gildir