Hoppa yfir valmynd
12. mars 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Utandagskrárumræða á Alþingi um ástandið á Landspítala - háskólasjúkrahúsi

Umræður utan dagskrár á Alþingi um
ástandið á Landspítala - háskólasjúkrahúsi
12. mars 2002


Virðulegi forseti.

Háttvirtur 15. þingmaður Reykjavíkur beinir hér til mín nokkrum spurningum er varða Landspítala háskólasjúkrahús, í framhaldi af blaðagreinum tveggja lækna.

Spurt er hvort heilbrigðisráðherra telji að ástandið á spítalanum sé viðunandi og hvort þar sé veitt viðunandi þjónusta. Almennt séð er það skoðun mín að þjónustan sem starfsmenn Landspítala veita sjúklingum sé ekki bara viðunandi, heldur mjög góð og í mörgum tilvikum framúrskarandi.

Það er hins vegar alveg ljóst að flutningar, endurnýjun á aðstöðu, húsnæði sem verið er að gera upp og skipulagsbreytingar hafa valdið nokkurri röskun á sumum deildum spítalans, og óróa í huga sumra starfsmanna. Margt af þessu var fyrirséð og það hefur komið fram í samtölum mínum við starfsmenn og stjórnendur spítalans að strax s.l. haust hafi menn verið varaðir við að þetta ástand kynni að koma upp og jafnframt voru menn beðnir að sýna skilning á þeim aðstæðum sem kynnu að skapast.

Í umræddum blaðagreinum hafa höfundar notað gífuryrði eins og "mannréttindabrot" og "stríðsástand". Ég vara við slíkri orðanotkun þegar um jafn viðkæma þjónustu er að ræða eins og á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Slíkt er engum til gagns, ekki stofnuninni og enn síður sjúklingum og aðstandendum.

Talað er um gangalagnir og legur á skolherbergjum og sameiningum stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík kennt um. Ég minni á að því miður eru gangalagnir á sjúkrahúsum hér ekki nýtt fyrirbæri. Mörg undanfarin ár hafa komið álagstoppar sem þýða það að stjórnendur spítalans hafa neyðst til að leggja sjúklinga á ganga. Landspítali háskólasjúkrahús vísar nefnilega engum frá sem þarf á bráðaþjónustu að halda. Hann er sannkölluð endastöð í heilbrigðiskerfinu.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað um 20% á síðustu tíu árum, eða um 1,8% á ári. Á sama árabili fjölgaði einstaklingum 67 ára og eldri um 26% eða 2,4% á ári. Slíkar breytingar í búsetu hafa mikil áhrif á álag á Landspítalann, enda fjölgaði innlögnum á spítalann um 3,5% á milli áranna 2000 og 2001.

Sá misskilningur hefur komið fram að allar úrbætur í málefnum Landspítala bíði haustsins – það er fjarri lagi. Nú er unnið að sameiningu sérgreina og deilda sem þegar hefur sýnt sig að er til mikilla bóta fyrir sjúklinga, sérstaklega m.t.t. gæða þjónustunnar. Særsta hluta sameiningarinnar verður lokið á þessu ári. Seint á þessu ári standa vonir til að nýr barnaspítali verði opnaður og þá skapast umtalsvert rými á Landspítala.

Herra forseti.

Ég geri mér vel grein fyrir því að mikið og langvarandi álag á starfsfólk, sem sinnir jafn mikilvægum og viðkvæmum störfum og á Landspítala, eykur hættu á mistökum. Hins vegar veit ég að stjórnendur spítalans gæta þess vel, dag frá degi, að fyllsta öryggis sé gætt, að jafnvægi sé á milli mönnunar og álags. Ég ber fullt traust til stjórnenda og starfsfólks spítalans í þessum efnum sem öðrum.

Háttvirtur þingmaður spyr um áætlanir ráðherra vegna þess útskriftarvanda sem spítalinn glímir við. Ég viðurkenni fyrstur manna að þar er við erfiðleika að etja. Á hverjum tíma eru um og yfir 60 sjúklingar á bráðadeildum Landspítala, sem samkvæmt mati sérfræðinga hafa lokið sinni meðferð, en eru ekki færir um að útskrifast heim. Flestir bíða eftir vistun á öldrunarstofnunum.

Eins og ég nefndi hér fyrr er hlutfall aldraðra að hækka, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, sem kallar á sérstök úrræði fyrir þann hóp. Því miður hefur okkur ekki tekist að halda í við fjölgunina hvað byggingar stofnana fyrir aldraða varðar. Reyndar er það nú svo að í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var samhljóða hér á Alþingi fyrir tæpu ári síðan er sett fram það markmið að árið 2010 verði yfir 75% fólks 80 ára og eldra við svo góða heilsu að það geti með viðeigandi stuðningi búið á eigin heimili. Til að stuðla að því að þetta markmið náist hef ég lagt áherslu á að efla heimahjúkrun, bæði með því að fjölga stöðum og einnig hefur verið sett á fót Miðstöð heimahjúkrunar, en með því er ætlunin að veita enn betri og samhæfðari þjónustu en fyrr, auk þess sem mannafli nýtist betur.

Herra forseti.
Á næstu dögum mun ég leggja fyrir ríkisstjórn skýrslu sem unnin hefur verið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu þar sem sett er fram áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu 2002-2007. Þar er gert ráð fyrir að taka þurfi í notkun 400 - 450 ný hjúkrunarrými til loka ársins 2007, langflest á höfuðborgarsvæðinu, til að leysa úr mjög brýnni þörf. Á sama tímabili telur ráðuneytið að koma þurfi á fót 135 nýjum dagvistarrýmum. Næstu þrjú til fjögur ár, eftir 2007, ætti að nægja að bæta við 20 - 30 nýjum rýmum árlega. Samhliða uppbyggingu hjúkrunarrýma leggur ráðuneytið áherslu á að þjónusta við aldraða utan stofnana verði efld, s.s. heimaþjónusta, heimahjúkrun, dagvistun fyrir aldraða og skammtímainnlagnir.

Áætlaður kostnaður við uppbyggingu og rekstur nýrra hjúkrunar- og dvalarrýma á árunum 2002 - 2007 samkvæmt stefnumótun ráðuneytisins nemur tæpum 6,6 milljörðum króna á verðlagi þessa árs. Hér er því um afar fjárfrek verkefni að ræða og mikilvægt að um þau náist góð pólitísk samstaða.

Virðulegur forseti.

Ég þakka háttvirtum alþingismönnum fyrir umræðurnar sem hér hafa orðið í dag.

Ég legg enn áherslu á að ég ber fullt traust til stjórnenda og starfsfólks Landspítala háskólasjúkrahúss og veit að sú þjónusta sem þar er veitt stenst fyllilega samanburð. Stjórnendur hafa unnið vel að sameiningu spítalanna og brátt sér fyrir endann á því verkefni.

Hinu er ekki að leyna að hátækniþjónusta eins og veitt er á Landspítala er mjög fjárfrek. Framfarir í læknavísindum, ný og dýr lyf, fjölgun aldraðra – allt leiðir þetta til aukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu. Við Íslendingar gerum miklar kröfur til okkar heilbrigðiskerfis og eigum að mínu mati að gera það. Miklar kröfur kalla hins vegar á miklar fjárveitingar.

Háttvirtur þingmaður nefndi mögulega nýtingu Vífilsstaða. Því máli háttar þannig til að sú starfsemi sem Landspítali hefur rekið þar hefur nú að mestum hluta til verið flutt í Fossvoginn. Ég hef nú til athugunar þá hugmynd að nýta Vífilsstaði fyrir ölrunardeildir. Það mál er í vinnslu í ráðuneytinu í samstarfi við stjórnendur Landspítala og niðurstaða mun liggja fyrir innan tíðar.

----------------------
Talað orð gildir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta