Hreyfingarleysi og offita - 2002
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á ráðstefnunni Hreyfingarleysi og offita
Hótel Loftleiðum 21. mars 2002
Ágætu ráðstefnugestir !
Ég býð ykkur öll velkomin á ráðstefnuna " Hreyfingarleysi og offita " sem haldin er á vegum Íþróttafræðiseturs, Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Sjúkraþjálfunarskorar Háskóla Íslands og Landlæknis.
Distinguished guests from Finland Dr. Michael Fogelholm and Dr. Robert Ross from Canada. It is a special pleasure for me to welcome you to this conference in Iceland. We all look forward to your presentations here because international cooperation, such as sharing knowledge and experience in a conference like this, is of utmost importance for such a small country as Iceland is. I also hope you will have enlightening and interesting days here in Iceland and a safe journey back to your home.
Góðir gestir.
Málefnið sem hér er til umræðu í dag er okkur öllum afar mikilvægt. Heilsan er dýrmæt og hver og einn ber ábyrgð á að stunda holla lífshætti og stuðla þannig að heilbrigðri sál í hraustum líkama. Vilmundur Jónsson, landlæknir, skrifaði fyrir u.þ.b. 70 árum að mesta bylting í heilbrigðismálum hverrar þjóðar fælist í að opna augu hennar fyrir því hversu mikið hún getur sjálf lagt að mörkum til að bæta heilbrigði sitt. Þessi orð eiga ekki síður við í dag en á fyrri hluta síðustu aldar.
Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil umræða um offitu og hreyfingarleysi og þær afleiðingar sem slíkt hefur í för með sér. Vísindin og upplýsingatæknin færa okkur sífellt nýjar upplýsingar. En þrátt fyrir aukna þekkingu og meðvitund almennings um gildi hreyfingar og hollrar fæðu hafa rannsóknir sýnt að bæði börn og fullorðnir á Íslandi eru að þyngjast í kjölfar breyttra lífshátta á síðustu áratugum. Íslendingar hafa sem sagt ekki farið varhluta af þeim offituvanda sem virðist fara vaxandi í hinum vestræna heimi. Svo betur má ef duga skal. Ég tel að helsta ráðið gegn þessum vanda sé að leggja áherslu á forvarnir og reyna þannig að koma í veg fyrir að þjóðin haldi áfram að fitna.
Það er ljóst er að ýmsir fylgikvillar geta komið í kjölfar offitu og hreyfingarleysis og má þar nefna sykursýki á fullorðinsaldri og hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig getur offita leitt til sálrænna og félagslegra vandamála. Í nýrri íslenskri rannsókn kemur fram að hlutfall þeirra sem teljast of feitir hefur tvöfaldast á 18 árum. Í annarri rannsókn kemur fram að tæplega 5% af 9 ára börnum teljast haldin offitu. Það er því afar mikilvægt strax í æsku að venja börn við holla lífshætti, hæfilega hreyfingu og hollt mataræði því þannig má koma í veg fyrir hugsanleg heilbrigðisvandamál síðar.
Á umliðnum árum hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lagt vaxandi áherslu á forvarnir og heilsueflingu. Árið 1994 var sett af stað sérstakt verkefni í heilbrigðisráðuneytinu undir nafninu "Heilsuefling hefst hjá þér". Verkefnið hefur nú að mestu verið flutt til Landlæknisembættisins en það fellst meðal annars í því að stuðla að aukinni heilsurækt og bættri líðan barna og fullorðinna bæði í skólum og á vinnustöðum. Heilsubæir, heilsuskólar og heilsuleikskólar eru dæmi um þá vinnu sem mörg ykkar hér inni þekkja. Fjölmörg önnur verkefni á svið forvarna og heilsueflingar, eða lýðheilsu, eru unnin á vegum stofnana ráðuneytisins, svo sem Manneldisráðs, Áfengis- og vímuvarnaráðs, Tóbaksvarnaráðs, Landlæknisembættisins, Heilsugæslustöðva og þannig mætti lengi telja.
Ég tel að sameina eigi þá starfsemi sem unnin er á sviði forvarna á vegum heilbrigðisyfirvalda í eina stofnun og hef nú þegar lagt fyrir ríkisstjórnina og þingflokka stjórnarinnar frumvarp um slíka stofnun, svokallaða Lýðheilsustöð. Þar á m.a. að rúmast starfsemi þeirra ráða, sem ég nefndi hér áðan, með möguleikum á að bæta við verkefnin og stuðla að samvinnu við hina fjölmörgu aðila sem vinna á sviði forvarna. Hugmyndin er alls ekki sú að miðstýra eigi öllu forvarnarstarfi eða steypa í sama mót heldur tel ég að með þessu móti megi nýta betur þá þekkingu og þau úrræði sem til eru og efla þannig starfsemina.
En forvarnir og heilsuefling eru ekki bundnar við eina stofnun eða miðstöð. Forvarnir felast í því að fá samfélagið allt til að taka höndum saman um að samræma aðgerðir til að bæta aðstöðu og breyta viðhorfi í samfélaginu. Öll vinna sem hvetur til hollara lífshátta hvar sem hún er innt af hendi hvort sem er af einstaklingum, félagasamtökum, skólum, fyrirtækum eða heilbrigðiskerfinu hefur gildi bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild. Mikilvægi skólakerfisins og íþróttahreyfingarinnar verður hér seint ofmetið.
Eins og ég sagði áðan hefur heilbrigðisráðuneytið lagt vaxandi áherslu á forvarnir. Í þessu sambandi vil ég nefna hér Heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var á Alþingi 20. maí s.l. Heilbrigðisáætlunin tekur mið af Evrópuáætlun Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, "Health 21" (twenty one), en byggir jafnframt á þeirri stefnumörkun sem heilbrigðismálaráðuneytið hefur markað á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustu á s.l. árum svo sem varðandi forgangsröðun, gæðamál og fleira.
Í Evrópuáætlun Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar er lögð áhersla á jafnrétti og samábyrgð í verki, bætt heilsufar, forvarnir, þverfaglegar aðgerðir, árangursríka heilbrigðisþjónustu og breytta stjórnunarhætti.
Ég vil benda sérstaklega á að í íslensku heilbrigðisáætluninni eru sett fram sjö forgangsverkefni sem stjórnvöld leggja áherslu á. Þau snúa í fyrsta lagi að áfengis- vímuefna- og tóbaksvörnum, í öðru lagi að börnum og ungmennum, í þriðja lagi eldri borgurum, í fjórða lagi geðheilbrigði, í fimmta lagi hjarta- og heilavernd, í sjötta lagi krabbameinsvörnum og í sjöunda lagi slysavörnum. Þau markmið sem sett eru fram í heilbrigðisáætluninni eru fjölþætt og taka til ýmissa þátta, en nefna má að þar er lögð mikil áhersla á forvarnir, fræðslu og ýmsar aðgerðir sem hvetja til heilbrigðra lífshátta. En eins og ég sagði áðan þá tel ég að fátt sé jafn mikilvægt á heilbrigðissviði og forvarnirnar, því þar liggur lykillinn að bættu heilbrigði þjóðar og þegna í framtíðinni.
Mig langar að geta þess hér að þann 7. apríl n.k. er alþjóða heilbrigðisdagurinn og er hann tileinkaður hreyfingu með einkunnarorðunum "move for health". Af því tilefni munu heilbrigðisyfirvöld standa fyrir fræðslu og hvatningu til almennings um gildi hreyfingar fyrir heilsuna. Landlæknisembættið ýtti einnig nýlega úr vör skipulagðri fræðsluherferð í fjölmiðlum undir yfirskriftinni "Heilsan í brennidepli". Markmiðið er að vekja athygli á margvíslegum efnum sem varða almenna eflingu heilsunnar m.a. um hreyfingu og mataræði. Ýmsir samstarfsaðilar koma að þessu verkefni.
Það er því víða verið að vinna að fræðslu um hollar lífsvenjur líkt og gert er hér í dag.
Ég vil að lokum þakka aðstandendum ráðstefnunnar fyrir að stuðla að umræðu um þetta mikilvæga málefni og er sannfærður um að þessi ráðstefna færir okkur fram á veginn að því markmiði að stuðla að heilbrigðum lífsháttum meðal þjóðarinnar.
_____________
Talað orð gildir