Ráðstefna Búnaðarbankans um fjármál eldri borgara
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á
ráðstefnu Búnaðarbankans um fjármál eldri borgara
9. apríl 2002
Ágætu ráðstefnugestir.
Á sunnudaginn var barst mér í hendur dagblaðið Politiken og þegar ég fletti þessu stærsta dagblaði frænda okkar Dana rak ég augun í fyrirsögn sem ég staldraði strax við og fór að lesa.
Fyrirsögnin var svona: Breiðfylkingin ungmenna gegn ellilífeyrisgreiðslunum.
Ég verða ð segja ykkur af þessari frétt af því hún ætti að vera okkur til umhugsunar.
Þarna kemur fram að leiðtogar ungmennahreyfinga stjórnmálaflokkanna í Danmörku eru í stórum dráttum sammála um að leggja af hið opinbera kerfi ellilífeyrisgreiðslna í Danmörku.
Nú er ellilífeyriskerfið þar allt öðru vísi en hér og við höfum borið gæfu til þess Íslendingar að skipa lífeyrismálum okkar með öðrum hætti en Danir og margar aðra þjóðir sem við berum okkur oftast saman við, en engu að síður eru viðhorfin sem þarna koma fram til umhugsunar fyrir okkur og röksemdirnar sem stjórnmálaleiðtogar framtíðarinnar í Danmörku færa fram í þessu máli.
"Þegar kostnaður við ellilífeyriskerfi okkar er framreiknaður kemur í ljós að við þyrftum að greiða 120% í skatta til að standa undir kerfinu" er haft eftir talsmanni systurflokks Framsóknarflokksins.
"Allir sem eru þrítugir og yngri eiga að fá að vita að þeir fá engan ellilífeyri í framtíðinni", segir fulltrúi ungra íhaldsmanna og fulltrúi kratanna segir: "Uppgjör vegna ellilífeyrisgreiðslna er bara einn þáttur í nauðsynlegum aðgerðum", en þar fyrir utan verðum við að innheimta þjónustugjöld af öldruðum á sviðum sem við gerum ekki nú. "Við gætum til dæmis byrjað á því að láta best stæðu ellilífeyrisþegana greiða sjálfa fyrir heimþjónustuna sem þeir fá" segir fulltrúi ungra jafnaðarmanna.
Ég undirstrika að hér erum við að tala um annan veruleika en hér, en samt sem áður er hér á ferðinni vandi sem við stöndum líka frammi fyrir þótt með öðrum hætti sé.
Á öldrunarráðstefnunni sem nú stendur yfir í Madrid hefur komið fram að Evrópa breytist hratt þessi árin í þeim skilningi að hún er að eldast.
Sérfræðingar sjá fram á að eftir hálfa öld gerist það í fyrsta sinn í sögu mannsins að þeir sem eru eldri en sextugir verða fleiri en börn innan 15 ára aldurs. Sömu sérfræðingar segja: Þessi breyting á aldurssamsetningu þjóða Evrópu mun umbylta hvunndegi allra íbúa álfunnar.
Nú eru um 20 prósent Evrópubúa eldri en sextugir, en eftir hálfa öld, sem er stuttur tími í lífi þjóðar, verður þetta hlutfall farið að nálgast 40 prósentin og verður 37 af hundraði.
Þessar breytingar þýða fyrir Evrópu, að þar munu menn standa frammi fyrir stærsta efnahagsvanda sem nokkur þjóð hefur staðið frammi fyrir innan nokkurra áratuga.
Danir reikna til dæmis með því að þurfa að greiða 400 milljarða króna aukalega, ég endurtek aukalega frá 2035, þróist mál með þessum hætti að öðru óbreyttu.
Og Efnhags-og framfarastofnun Evrópu, OECD metur það svo, að heilbrigðisútgjöld vegna aldraðra muni aukast um 50 af hundraði á Vesturlöndum að öllu öðru óbreyttu.
Ágætu ráðstefnugestir.
Eins og ég sagði í upphafi máls míns eru ríkjandi aðrar aðstæður á Íslandi en víðast í Evrópu í þessum málum. Hér er lífeyrismálum skipað með öðrum hætti en þar og þessi framtíð þarf því ekki að verða okkar framtíð.
Staða eldri borgara á Íslandi er að mörgu leyti góð og skýrist það fyrst og fremst af því að okkur hefur lánast það sem öðrum hefur ekki tekist, en það er að tryggja mönnum vinnu langt fram á efri ár. Það er þessi víðtæka atvinnuþátttaka eldri borgara sem veldur því að hér eru útgjöld til velferðarmála lægri en annars staðar, og það er atvinnuþátttakan sem skýrir, að ráðstöfunartekjur eldri borgara mældar sem hlutfall af ráðstöfunartekjum allra annara í samfélaginu á Íslandi eru hærri, en annars staðar á Norðurlöndum.
"Atvinnuþátttakan er líka velferð þótt hún mælist ekki á þann mælikvarða", sagði erlendur kollegi minn við mig í fyrra, þegar við vorum að ræða þennan samanburð og útgjöldin til velferðarmála. Og vissulega er það rétt og við verðum að varðveita þetta sérkenni íslenska samfélagsins til framtíðar vegna þess að einmitt þetta og lífeyriskerfið munu forða okkur frá þeirri framtíð sem ég dró upp hér áðan og rædd er í nálægum löndum. En við í þessu fámenna, gegnsæja samfélagi, eigum líka okkar vandamál. Í mínum augum er það mismunurinn sem fram kemur í aðstæðum eldri borgara.
Það liggur fyrir í rannsóknum á vegum OECD og virtra rannsóknastofnana í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, að raunverulegar ráðstöfunartekjur eldri borgara ráðast á meginlandinu ekki eingöngu af umfangi hins opinbera velferðarkerfis og upphæð lífeyrisbótanna. Hin almennu kjör mótast hins vegar af heildaraðstæðum í þjóðfélaginu og ákvarðast af flóknu samspili atvinnutekna, bótatekna, opinberri velferðarforsjá og skattheimtu í viðkomandi landi.
Þannig er það niðurstaða sérfræðinga að samanburður á útgjöldum til opinberu velferðarkerfanna, eða ellilífeyriskerfanna, sé ekki góður mælikvarði á raunverulega velferð eldri borgara.
Nettólífeyrisgreiðslur, það er að segja lífeyrir þar sem tekið er tillit til flókinna tilfærslna og margskonar uppbóta sem falla öldruðu í skaut, séu betri mælikvarði á velferðina.
Á Íslandi hefur Stefán Ólafsson, prófessor, komist að því að hér sé ójöfnuður í tekjuskiptingunni meiri en annars staðar á Norðurlöndum. Skýringin sem hann gefur er að það sé atvinnuþátttakan, eignatekjurnar, og lífeyrisréttindi einstaklinganna sem mestu ráði um það hvort menn bera skarðan hlut frá borði eða ekki.
Þeir sem fyrst og fremst hafa lífeyristekjur úr almannatryggingakerfinu standa höllum fæti. Um þetta er ekki deilt, og þetta reyndu menn að hafa í huga þegar gripið var til umfangsmikilla leiðréttinga á kjörum ellilífeyrisþega og öryrkja á liðnu ári.
Til þess að bæta ástand, eða breyta því, verðum við fyrst að horfast í augu við vandamálin og skilgreina þau.
Fyrir margt löngu bentu fræðimenn og sérfræðingar á að veruleg hætta væri á því að á Vesturlöndum yrði í þeirri framtíð til "tveggja þjóða velferð". Þessi framtíð þeirra er nútíminn í dag.
Með tveggja þjóða velferð eiga menn við samfélag þar sem í stórum dráttum eru tvenns konar ellilífeyrisþegar. Í fyrsta lagi þeir sem hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í starfstengdum lífeyrissjóðum og í öðru lagi hinir, fátækari hlutinn, sem byggir afkomu sína á lífeyrisbótum opinbera velferðarkerfisins.
Stefán Ólafsson, prófessor, segir: "Sú óánægja með efnahagsleg lífskjör sem verið hefur á Íslandi undanfarið á líklega stærstar rætur í þessum mun sem þarna er fyrir hendi," og nefnir einnig til sögunnar víðtækar tekjutengingar bóta þótt sú óánægja sé væntanlega af öðrum meiði. Stefán segir hins vegar orðrétt:
"Þegar fjallað er um aðstæður úrræði vegna lífskjara eldri borgara er því nauðsynlegt að taka tilit til þessa munar á aðstæðum og möguleikum sem er innan hóps eldri borgara hér á landi."
Þessi niðurstaða ætti að verða sá grundvöllur sem stjórnmálaöflin í landinu ættu og gætu að sameinast um til að lagfæra hlut þess hóps eldri borgara, sem verst stendur.
Mér hefur stundum fundist flokkar og menn horfa framhjá þeirri staðreynd að hér á Íslandi eru að minnsta kosti drög að því sem kallað hefur verið "tveggja þjóða velferð" og þar af leiðandi hópur eldri borgara sem ber skarðan hlut frá velferðarborðinu. Skoðun mín er sú, að lagfæring á kjörum þessa hóps hljóti að hafa forgang umfram almennar aðgerðir á meðan hópurinn er til.
_____________
Talað orð gildir