Hoppa yfir valmynd
24. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur FSA 2002

Ársfundur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, 24. maí 2002
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jóns Kristjánssonar



Ágætu starfsmenn og ársfundargestir.

Það er alltaf ánægjulegt að koma til Akureyrar, í höfuðstað Norðurlands, og sértstakt ánægjuefni að fá tækifæri til ávarpa ykkur hér á Fjórðungssjúkrahúsinu sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra.

Mig langar fyrst að vekja athygli á því að hér var verið að veita fimm manns viðurkenningu fyrir að hafa starfað hér í 25 ár og hér er líka með okkur kona, sem hóf störf á Fjórðungssjúkrahúsinu í miðju kalda stríðinu og áður en ég varð fimmtán ára, eða þegar Hermann Jónasson var forsætisráðherra svo ég minnist á einn af þeim stóru.

Þegar hún hætti núna í marz voru sem sé 43 ár og einn mánuður frá því hún hóf störf hér.

Þetta segir auðvitað mest um trúmennsku starfsmannsins við stofnunina, en hlýtur líka að segja okkur að hér leggja stjórnendur áherslu á að koma vel fram við starfsmenn sína.

Hvoru tveggja er afar mikilvægt í heilbrigðisþjónustunni og gildir einu hvort við erum að tala um heilbrigðisstarfsmenn, eða þá sem sinna öðrum störfum á sjúkrahúsinu. Starfsemi sjúkrahúss má nefnilega líkja við klukku sem í eru óteljandi og mismunandi tannhjól. Þau snúast hvert með sínum hraða allt eftir stærð og lögun, í gangverki, þar sem samstillingin þarf að vera fullkomin til að klukkan gangi rétt. Von mín er sú að ykkur takist hér að láta klukkuna ganga rétt.


Ágætu ársfundargestir.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er engin venjuleg heilbrigðisstofnun.

Það er í fyrsta lagi stærsta sjúkrahúsið utan Höfuðborgarsvæðisins,

í öðru lagi sú eina heilbrigðisstofnun, sem í mörgum greinum hefur fulla burði til að keppa við Landspítala – háskólasjúkrahús, og,

í þriðja lagi er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sú öfluga stofnun sem er, í samvinnu við aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki, ein af forsendunum fyrir þeirri miklu uppbyggingu sem er staðreynd á Eyjafjarðarsvæðinu.

Við skulum ekkert vera feimin við að halda því fram, að til að byggð fái þrifist þurfa að vera nokkur grundvallaratriði til staðar fyrir utan atvinnu fólksins.

Það þarf skóla, það þarf aðstöðu til tómstunda og menningar, og síðast en ekki síst þarf að tryggja íbúunum örugga læknis- og heilbrigðisþjónustu.

Þetta eru þau lágmarksskilyrði sem að mínum dómi þurfa að vera fyrir hendi til að heilbrigt og blómlegt mannlífi fái þrifist um hinar dreifðu byggðir landsins.

Heilbrigðisstofnanirnar, heilsugæslustöðvarnar og sjúkrahúsin gegna því afar mikilvægu hlutverki á svæðunum þar sem þau eru staðsett.

Ég hygg að menn geti verið sammála um að af öllum þeim heilbrigðisstofnunum sem starfræktar eru utan Höfuðborgarsvæðisins gegni FSA veigamestu hlutverki. Ekki bara vegna þess að það er stærst - FSA gegnir mikilvægu hlutverk á því stóra upptökusvæði sem það þjónar, og hér eru auk þess einstakir möguleikar á að byggja upp heilbrigðisþjónustu, sem er bæði sveigjanleg og faglega í fremstu röð.

Allra aðstæður eða forsendur eru hér fyrir hendi til að byggja upp ennþá öflugri heilbrigðisstofnun. Hér nýtur sjúkrahúsið nálægðarinnar við Háskólann á Akureyri og miðlar honum aftur af reynslu sinni og þekkingu. Hér er miðstöð sjúkraflugs í landinu, sem ekki væri mögulegt að reka án sjúkrahússins og þjálfaðra sjúkraflutningamanna, og síðast en ekki síst finnst mér full ástæða til að nýta reynsluna sem við höfum öðlast af reynslusveitarfélagsverkefninu þegar framtíðarhlutverk Fjórðungssjúkrahússins verður skilgreint nánar.

Landspítalinn – háskólasjúkrahús er staðreynd á Höfuðborgarsvæðinu og þótt stjórnendur hins sameinað spítala hafi stundum staðið nánast ráðþrota frammi fyrir tvítugum hamrinum, og erfiðleikum sem í fyrstu virtust óyfirstíganlegir, þá sé ég mörg merki þess að þeir séu komnir yfir erfiðasta hjalla og að komast á beinu brautina. Samining sérgreinanna er með öðrum orðum þegar farin að skila sér fyrir alvöru á faglega sviðinu eins og því fjárhagslega.

Sameiningin syðra var mikilvæg fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu til langs tíma og skilgreining á framtíðarhlutverki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er á sama hátt jafn miklvægt verkefni.

Það er rétt að greina frá því hér opinberlega sem sum ykkar vitið að ég hef ákveðið að skipa nefnd til að vera ráðgefandi við skipulagningu og uppbyggingu húsnæðis fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri – FSA, og undirbúa ákvarðanatöku um frumathugun og áætlunargerð fyrir þær framkvæmdir sem ákveðið verður að ráðast í.

Þessi nefnd skal gæta þess að undirbúningur verði í fullu samræmi við gildandi lög og reglur um skipan opinberra framkvæmda.

Nefndin skal sjá til þess að frumathuguna fyrir hverja framkvæmd verði í samræmi við reglur, og þegar henni er lokið að leggja hana fyrir ráðuneytið, sem mun þá afla fullnægjandi heimilda til gera megi áætlun um framkvæmdir.

Frumathugun og áætlunargerð skulu skipulagðar með tilliti til þeirra fjármuna sem fyrir hendi eru hverju sinni og skal nefndin leggja fjárhags- og tímaáætlun hvers árs fyrir ráðuneytið til samþykktar. Einnig skal hún gæta þess að undirbúningur framkvæmda verði innan þeirra heimilda sem ráðuneytið veitir hverju sinni. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið undirritar samninga fyrir hönd ríkisins. Framkvæmdasýsla ríkisins veitir nefndinni faglega ráðgjöf og er forstjóri stofnunarinnar tengiliður við nefndina.

Og það er best að lýsa yfir því strax að ég hef ákveðið að formaður nefndarinnar verður Elsa B. Friðfinnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðarmaður minn í ráðuneytinu, og verður tilkynnt um aðra nefndarmenn þegar tilnefningar liggja endanlega fyrir. Rétt er að taka fram að auk fulltrúa Fjórðungssjúkrahússins verður fulltrúi frá Háskólanum á Akureyri í nefndinni, enda sjálfsagt og eðlilegt að sjúkrahúsið og háskólinn vinni að einhverju leyti sameiginlega að stefnumótun á sviði sem skiptir miklu um framtíð beggja stofnana.


Ágætu ársfundargestir.
Störf á sjúkrahúsi eru að ólík öðru störfum. Þar er krafist mikils af starfsfólki, oft er vinnutími langur og störfin erfið, bæði líkamlega og þeim fylgir oft mikið andlegt álag.

Hvert einasta handtak er mikilvægt og skiptir miklu hvernig menn sinna störfum sínum. Gott starfsfólk er jafnframt það mikilvægasta sem stofnunin á og ekkert skiptir meira máli en að því sé gert kleift að sinna störfum sínum af kostgæfni.

Hér eru unnin kraftaverk á hverjum degi og þakklæti þeirra er njóta þjónustu ykkar er mér vel kunnugt. Fyrir hönd þeirra sem þjónustunnar njóta vil ég vil nota tækifærið til að ítreka þetta þakklæti. Ég hvet ykkur hér líka til þess að gefa áfram gaum að því viðkvæma sambandi sem er milli heilbrigðisstarfsfólksins, sjúklinganna og aðstandenda þeirra.

Burtséð frá því hvort við erum í stjórnsýslu heilbrigðisþjónustunnar eða í faglega hluta hennar þá bera okkur ávalt að hugsa um hagsmuni þeirra sem við eigum að þjóna.

______________
Talað orð gildir











Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta