Íslenskur hönnuður tekur þátt í Hönnunarvikunni í Peking
Hönnuðurinn og frumkvöðullinn Kristrún Hjartar tekur þátt í Hönnunarvikunni í Peking, Beijing Design Week, í ár með nýtt „app“ fyrir Iphone og Ipad sem hún kallar Starters. Það gengur út á að bjóða upp á stuttar en áhrifaríkar líkamsræktaræfingar fyrir önnum kafna einstaklinga. Forritið er aðgengilegt á netinu.
Þetta er í fyrsta skipti sem Kristrún kynnir Starters opinberlega. Kínverska ríkissjónvarpið CCTV tók viðtal við hana á forsýningu þar sem hún kynnti Starters fyrir fjölmiðlum. Starters er samskiptaforrit sem býður upp á leiðsögn í leikfimi fyrir önnum kafið fólk og er jafnframt hópefli þar sem færi gefst á viðurkenningu auk samanburðs og samkeppni. Þeir sem skrá sig á Starters geta boðið vinum sínum og kunningjum að halda skrá yfir daglegar líkamsæfingar sínar innan miðilsins og þannig fylgjast með frammistöðu hvers og eins í átt að betri heilsu. Kristrún hefur ásamt félögum sínum stofnað samnefnt fyrirtæki sem heldur utan um og rekur Starters.
Kristrún er iðnhönnuður að mennt og hefur einnig hannað húsgögn undir merkinu Vakna Design. Nýlega hóf Designtorget í Svíþjóð sölu á bókamerki sem Kristrún hannaði og ýmis hönnunarverk hennar hafa verið sýnd víðs vegar um heiminn.
Hönnunarvikan í Peking er einn stærsti kynningarviðburðurinn á sviði skapandi greina í Kína á hverju ári. Hún er haldin árlega í Peking og margir af þekktustu hönnuðum heims eru meðal þátttakenda. Þetta í þriðja árið í röð sem sendiráð Íslands hefur milligöngu um þátttöku íslenskra listamanna og hönnuða. Í fyrra sýndi Goddur veggspjöld sín og Bjarna H. Þórarinssonar, og árið á undan voru sýningar á vegum Hönnunarmiðstöðvar, Steinunnar Sigurðardóttur, Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ragnars Axelssonar settar upp í hinu nýja hönnunarhverfi Pekingborgar, 751 hverfinu.
Hönnunarvikan verður formlega sett í dag, 28. september, og er búist við mikilli aðsókn á sýningar, fyrirlestra og aðra viðburði víðs vegar í Pekingborg næstu daga þar sem hönnun er í fyrirrúmi.
Hönnunarvikan verður formlega sett í dag, 28. september, og er búist við mikilli aðsókn á sýningar, fyrirlestra og aðra viðburði víðs vegar í Pekingborg næstu daga þar sem hönnun er í fyrirrúmi.
Heimasíða Starters er: www.stare.rs.