Hoppa yfir valmynd
19. september 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 21/2013

Hinn 8. júlí 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 21/2013:


Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 250/2012

Jón Ólafsson

gegn

íslenska ríkinu

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 19. nóvember 2013 fór Ragnar Aðalsteinsson hrl. þess á leit fyrir hönd Jóns Ólafssonar að hæstaréttarmál nr. 250/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. desember 2012, yrði endurupptekið. Með bréfi dags. 7. mars 2014 sendi ríkislögmaður skriflega greinargerð um viðhorf gagnaðila til endurupptökubeiðninnar. Endurupptökubeiðanda var kynnt sú greinargerð og kom hann á framfæri athugasemdum við hana með bréfi dags. 4. apríl 2014. Gagnaðila voru kynntar þær athugasemdir.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

 II.        Málsatvik

Hinn 16. apríl 2012 áfrýjaði endurupptökubeiðandi til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. janúar 2012. Endurupptökubeiðandi krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður ríkisskattstjóra frá 2003 um að hann hefði skattalega heimilisfesti og bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi 1. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 allt árið 1998 og áfram uns annað yrði ákveðið. Jafnframt krafðist endurupptökubeiðandi þess að viðurkennt yrði að hann hefði frá 1. september 1998 borið takmarkaða skattskyldu hér á landi. Þá krafðist hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krafðist aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms sem hafði sýknað hann af kröfu endurupptökubeiðanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann yrði felldur niður.

Í dómi Hæstaréttar var borin saman krafa endurupptökubeiðanda fyrir réttinum, sem var tvíþætt eins og áður greinir, og sú niðurstaða ríkisskattstjóra í tilvitnuðum úrskurði, að endurupptökubeiðandi teldist hafa skattalega heimilisfesti hér á landi í skilningi 1. gr. laga nr. 90/2003 allt árið 1998 og áfram uns annað yrði ákveðið. Byggt var á því að í úrskurðinum hefðu verið leidd rök að því að endurupptökubeiðandi hefði í raun verið heimilisfastur hér á landi á tímabilinu 1998 til 2001 þrátt fyrir tilkynningu hans frá 22. nóvember 2002 þess efnis að hann hefði átt lögheimili í Bretlandi frá 1. september 1998. Hæstiréttur taldi á hinn bóginn að í úrskurði ríkisskattstjóra væri ekkert fjallað um dvöl endurupptökubeiðanda, hvorki hér á landi né í Bretlandi, á árunum 2002 og 2003. Í hinum áfrýjaða dómi hefði síðan ekki verið tekið til umfjöllunar og úrlausnar hvort endurupptökubeiðandi hefði verið heimilisfastur hér á landi þessi tvö ár, en slíkt hefði verið nauðsynlegt vegna þessa annmarka á úrskurðinum. Af þeim sökum yrði ekki leyst úr þessum hluta sakarefnisins fyrir Hæstarétti, heldur einvörðungu, að teknu tilliti til kröfugerðar endurupptökubeiðanda og forsendna úrskurðar ríkisskattstjóra, hvort endurupptökubeiðandi hefði verið heimilisfastur og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi frá 1. september 1998 til 31. desember 2001.

Hæstiréttur fjallaði því næst um það hvort endurupptökubeiðandi skyldi teljast heimilisfastur hér á landi í skilningi laga um tekjuskatt. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að  endurupptökubeiðandi hefði verið heimilisfastur og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 90/2003, frá 1. september 1998 til 31. desember 2001. Krafa endurupptökubeiðanda um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra frá 17. desember 2003 yrði því ekki tekin til greina. Rétt væri að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi gerir eftirfarandi athugasemdir við dóm Hæstaréttar: a) Hæstiréttur hafi farið út fyrir kröfur aðila með því að kveða upp viðurkenningardóm, en íslenska ríkið hafi einvörðungu krafist sýknu af öllum kröfum endurupptökubeiðanda; b) Hæstiréttur hafi einungis tekið afstöðu til hluta af kröfum endurupptökubeiðanda, þ.e. skattskyldu hans á tímabilinu frá 1. september 1998 til 31. desember 2001, en ekki alls tímabilsins frá 1. janúar 1998 til dómsuppkvaðningardags 6. desember 2012; c) Hæstiréttur hafi ekki tekið afstöðu til viðurkenningarkröfu endurupptökubeiðanda þess efnis að hann bæri einungis takmarkaða skattskyldu hér á landi. Niðurstaðan af framansögðu sé sú að endurupptökubeiðandi hafi ekki notið réttar síns að fá úrlausn málsins fyrir Hæstarétti, eins og honum sé þó áskilið meðal annars í 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Hann geti ekki lagt málið fyrir að nýju fyrir héraðsdóm vegna res judicata verkana dóms Hæstaréttar.

Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði fyrir endurupptöku í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt. Hvað varðar a-lið ákvæðisins, þá telur endurupptökubeiðandi að málsatvik hafi verið réttilega í ljós leidd við meðferð málsins en dómur Hæstaréttar beri með sér að dómarar málsins hafi ekki áttað sig til fullnustu á málsatvikum. Hvað varðar b-lið ákvæðis, þá leggur endurupptökubeiðandi fram úrskurð ríkisskattstjóra frá 25. október 2011, sem hann kveður vera nýtt skjal, en hann lýtur að því að endurupptökubeiðandi hafði neyðst til að kæra álagningu tiltekinna gjalda gjaldárið 2011 vegna búsetu hans í London á þeim tíma. Telur endurupptökubeiðandi þetta sönnun þess að réttarstaða hans hafi verið óljós hjá skattayfirvöldum haustið 2011 og sé það enn. Endurupptökubeiðandi sé alls óöruggur um hvaða skattar og gjöld verði á hann lagðir hér á landi á hverjum tíma þrátt fyrir 15 ára búsetu erlendis. Þessi óvissa verði eingöngu rakin til vankanta á umræddum dómi Hæstaréttar. Hvað varðar c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, þá telur endurupptökubeiðandi að skilyrðið vísi bæði til almannahagsmuna og einstaklingsbundinna hagsmuna málsaðila. Það séu almannahagsmunir að dómstólar njóti traust og virðingar meðal borgaranna og að borgarar geti í því trausti lagt mál sín fyrir dómstólana í þeirri fullvissu að þar fái þeir réttláta úrlausn lögum samkvæmt um réttindi sín og skyldur. Hæstiréttur geti ekki lögum samkvæmt leiðrétt dóma sína þegar mistök verða og því sé eina úrræðið að íslenskum lögum að leita eftir endurupptöku máls til endurupptökunefndar. Þá telur endurupptökubeiðandi sig hafa mikla einstaklingsbundna hagsmuni af endurupptöku. Nefnir hann að enn hafi hann ekki fengið úrlausn um réttindi sín og skyldur gagnvart íslenska ríkinu og réttarstaða hans sé því óljós. Þá hafi hann verulegra hagsmuna að gæta af þeim kostnaði sem hann hafi haft af rekstri dómsmálsins gegn íslenska ríkinu.

Að lokum fjallar endurupptökubeiðandi almennt um skilyrði endurupptöku dæmdra mála. Þar til endurupptökunefnd hafi verið stofnuð hafi Hæstiréttur farið með ákvörðunarvaldið um leyfi til endurupptöku dæmdra mála. Skilyrði til endurupptöku einkamála hafi verið hin sömu að minnsta kosti frá árinu 1991. Dæmi séu um að Hæstiréttur hafi heimilað endurupptöku vegna vanhæfis dómara. Meðal annars með vísan til ákvörðunar Hæstaréttar varðandi endurupptökubeiðni í hæstaréttarmáli nr. 291/2010, er laut að slíku vanhæfi, telur endurupptökubeiðandi að ekki verði séð að Hæstiréttur hafi í raun gert kröfu um að uppfyllt hafi verið skilyrði a- eða b-liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd eða að ný gögn muni leiða til breyttrar niðurstöðu. Hafi Hæstiréttur í þeirri ákvörðun einnig metið endurupptökuskilyrði með hliðsjón af 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Endurupptökubeiðandi færir fyrir því rök að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað 6. gr. mannréttindasáttmálans á þann hátt að bregðist dómstóll því hlutverki sínu að taka afstöðu til krafna og málsástæðna aðila brjóti hann á réttindum hans sem njóti verndar 6. gr. sáttmálans. Vísar endurupptökubeiðandi í því sambandi til dóma Mannréttindadómstólsins í málunum Kuznetsov gegn Rússlandi (mál 182/02) og Pronina gegn Úkraínu (mál nr. 63566/00).

Í ljósi framangreinds telur endurupptökubeiðandi að endurupptökunefnd sé skylt samkvæmt fordæmum í endurupptökuákvörðunum Hæstaréttar að túlka ákvæði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála í ljósi eða með hliðsjón af ákvæðum 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt þessum fordæmum beri að líta til þess hvort endurupptökubeiðandi hafi notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í málinu, meðal annars þannig að hann hafi fengið úrlausn krafna sinna og málsástæðna.

IV.      Viðhorf gagnaðila og athugasemdir endurupptökubeiðanda

Með bréfi ríkislögmanns, dags. 7. mars 2014, er athugasemdum gagnaðila komið á framfæri. Að mati embættis ríkislögmanns er ekki uppfyllt þau skilyrði fyrir endurupptöku hæstaréttarmáls sem kveðið er á um í 169. gr., sbr. a- til c- liði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, sem að mati gagnaðila þurfa öll að vera uppfyllt til að endurupptaka sé heimil. Hvað skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. varðar, þá sé ekkert sem styðji það að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós, og taki endurupptökubeiðandi jafnvel sjálfur fram að málsatvik hafi verið í réttilega í ljós leidd. Endurupptökubeiðandi haldi því hins vegar fram að Hæstiréttur hafi með dómsorði sínu farið út fyrir kröfur stefnda íslenska ríkisins sem hafi krafist sýknu af öllum kröfum endurupptökubeiðanda og að dómarar í Hæstarétti hafi ekki áttað sig til fullnustu á því að úrskurðurinn, sem krafist hafi verið ógildingar á, laut að tímabilinu frá 1. janúar 1998 þar til annað yrði ákveðið. Þessi sjónarmið fái ekki staðist og hafi dómarar í Hæstarétti verið fyllilega meðvitaðir um hvað hafi falist í hinum umdeilda úrskurði. Hæstiréttur hafi ekki farið út fyrir kröfur aðila í dómi sínum, sbr. forsendur í kafla II í dómi Hæstaréttar. Í kröfugerð endurupptökubeiðanda hafi samhliða kröfu um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra falist krafa um að viðurkennt yrði að hann hafi borið takmarkaða skattskyldu hér á landi frá 1. september 1998. Í sýknukröfu gagnaðila hafi því falist krafa um að sú niðurstaða úrskurðar ríkisskattstjóra stæði óhögguð að endurupptökubeiðandi hefði verið heimilisfastur og bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi frá 1. september 1998 og áfram.Hvað b-lið 1. mgr. 167. gr varði, þá telur gagnaðili að umræddur úrskurður ríkisskattstjóra frá 25. október 2011 geti ekki talist nýtt gagn í skilningi laganna þar sem hann hafi gengið áður en endurupptökubeiðandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Auk þess hafi hann fylgt með tilvísunum endurupptökubeiðanda vegna málflutnings í Hæstarétti.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2014, gerði endurupptökubeiðandi athugasemdir við viðhorf gagnaðila og áréttaði fyrri kröfu um endurupptöku.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna.

 Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

 Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

 Hvað varðar áskilnað a-liðar 1. mgr. 167. gr. þá kemur fram í endurupptökubeiðni að endurupptökubeiðandi telji að málsatvik hafi verið réttilega í leidd ljós. Á hinn bóginn telur hann að dómur Hæstaréttar beri með sér að dómarar málsins hafi ekki áttað sig á málsatvikum, þar á meðal því að úrskurður sá sem krafist var ógildingar á hafi lotið að tímabilinu frá 1. janúar 1998 þar til annað yrði ákveðið.

Í dómi Hæstaréttar er tekin afstaða til skattskyldu endurupptökubeiðanda frá 1. september 1998 til 31. desember 2001. Í forsendum réttarins kemur fram að það tímabil byggist á kröfugerð endurupptökubeiðanda og forsendum úrskurðar ríkisskattstjóra. Úrskurður ríkisskattstjóra er frá árinu 2003 en Hæstiréttur taldi ekki unnt að leysa úr sakarefninu á tímabilinu 2002 til 2003 vegna annmarka á forsendum úrskurðar ríkisskattstjóra og héraðsdóms hvað varðar það tímabil. Með vísan til þessa verður ekki séð að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar, sbr. áskilnað a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Hvað varðar áskilnað b-liðar 1. mgr. 167. gr. leggur endurupptökubeiðandi fram sem nýtt skjal úrskurð ríkisskattstjóra frá 25. október 2011. Úrskurður þessi gekk áður en endurupptökubeiðandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Þá kemur fram í athugasemdum gagnaðila að úrskurðurinn hafi fylgt með tilvísunum endurupptökubeiðanda vegna málflutnings í Hæstarétti. Endurupptökubeiðandi hefur ekki gert athugasemd við þá staðhæfingu. Í ljósi þessa verður ekki séð að sterkar líkur eru leiddar að því að téður úrskurður feli í sér að vera nýtt gagn sem muni verða til breyttrar niðurstöðu í málinu í mikilvægum atriðum, sbr. skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Endurupptökubeiðandi telur að endurupptökunefnd beri að túlka skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku dæmdra mála í ljósi eða með hliðsjón af ákvæðum 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telur hann að Hæstiréttur hafi í raun ekki gert kröfu um að uppfyllt væru skilyrði a- eða b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála í tilteknum málum og að endurupptökunefnd sé skylt að fylgja þeim fordæmum. Líta beri til þess hvort endurupptökubeiðandi hafi notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í málinu, meðal annars hvort hann hafi fengið úrlausn krafna sinna og málsástæðna.

Skilyrði fyrir endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti eru talin upp með tæmandi hætti í 1. mgr. 167. laga um meðferð einkamála. Ekki verður fallist á þann rökstuðning endurupptökubeiðanda að víkja megi frá þeim skilyrðum, eða að fyrir liggi að slíkt hafi verið gert í framkvæmd Hæstaréttar. Að auki er sú aðstaða sem uppi er í máli því sem hér er til úrlausnar önnur en sú sem Hæstiréttur leysti úr í þeim málum sem endurupptökubeiðandi vísar til. Þá lá fyrir að málsatvik höfðu ekki verið réttilega í ljós leidd þegar málið var til meðferðar í Hæstarétti og lögð voru fram ný gögn sem voru þess eðlis að líkur töldust leiddar að því að niðurstaða málsins gæti breyst í mikilvægum atriðum. Engar sambærilegar aðstæður eru í máli þessu.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a-liðar og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a – c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla frekar um aðra liði.

 ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Jóns Ólafssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 250/2012 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. desember 2012 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

 Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta