Hoppa yfir valmynd
7. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 7. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 2/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Akureyrarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með bréfi, dags. 23. janúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Akureyrarbæjar frá 2. desember 2013 á umsókn hennar um félagslega heimaþjónustu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 26. nóvember 2012, sótti kærandi um aðstoð við þrif eða önnur heimilisstörf hjá búsetudeild Akureyrarbæjar vegna bakmeiðsla. Með bréfi, dags. 11. desember 2012, var kæranda synjað um félagslega heimaþjónustu þar sem forsendur fyrir þjónustu væru ekki til staðar. Kærandi sótti á ný um heimaþjónustu með umsókn, dags. 24. september 2013, en var synjað á sömu forsendu með bréfi, dags. 8. október 2013. Kærandi áfrýjaði synjun búsetudeildar til félagsmálaráðs Akureyrarbæjar sem staðfesti ákvörðun búsetudeildar með bréfi, dags. 24. október 2013. Með umsókn, dags. 25. nóvember 2013, sótti kærandi á ný um heimaþjónustu en var synjað á sömu forsendu og áður með bréfi, dags. 2. desember 2013. Með umsókn, dags. 13. janúar 2014, sótti kærandi enn á ný um aðstoð við þrif eða önnur heimilisstörf hjá búsetudeild Akureyrarbæjar. Áður en umsókn kæranda var afgreidd hjá Akureyrarbæ lagði kærandi fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Með bréfi, dags. 27. janúar 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Akureyrarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með tölvupósti, dags. 5. febrúar 2014, bárust upplýsingar frá búsetudeild Akureyrarbæjar um að umsókn kæranda frá 13. janúar 2014 hefði verið samþykkt þann 28. janúar 2014. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2014, var kærandi upplýst um ákvörðun Akureyrarbæjar og henni gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Með bréfi, dags. 12. mars 2014, bárust gögn frá Akureyrarbæ og voru þau send til kæranda með bréfi, dags. 19. mars 2014. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 1. apríl 2014.

II. Málsástæður kæranda

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi ítrekað óskað eftir rökstuðningi frá Akureyrarbæ vegna synjunar um heimaþjónustu en aldrei fengið nein svör eða skýringar. Hún sé nú fyrst að fá einhverjar skýringar en þær séu þó af verulega skornum skammti. Í matsniðurstöðum búsetudeildar komi ekki fram hvers vegna henni hafi verið synjað um heimaþjónustu, aðeins að læknirinn legði ekki mat á hvort hún gæti sinnt heimilisstörfum og virðist sem ákvörðunin væri byggð á því. Kærandi bendi á að ef það hafi vantað slíkt mat hefði átt að kalla eftir því í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Það sé einnig með ólíkindum að vottorð frá sjúkraþjálfara kæranda hafi verið algerlega virt að vettugi en hann þekki vel til líkamlegs ástands hennar og mun betur en búsetudeild og ráðgjafinn sem hafi hitt hana í eina klukkustund. Þá bendir kærandi einnig á að búsetudeildin hafi brotið gegn fjölmörgum öðrum greinum stjórnsýslulaga með því að rökstyðja ekki niðurstöðu sína þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um skýringar á höfnuninni.

III. Sjónarmið Akureyrarbæjar

Af hálfu Akureyrarbæjar hefur komið fram að umsókn kæranda um heimaþjónustu hafi verið samþykkt á fundi matshóps búsetudeildar Akureyrarbæjar þann 28. janúar 2014.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Í upphafi telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið skýrt á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda. Ákvarðanir Akureyrarbæjar í málinu voru kynntar kæranda með bréfum, dags. 11. desember 2012, 8. október 2013, og 2. desember 2013. Ákvörðununum fylgdi ekki rökstuðningur sem fullnægir skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga og bar sveitarfélaginu því að leiðbeina kæranda um heimild til eftirfarandi rökstuðnings. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að tryggja að fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga sé fylgt þegar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins eru ekki rökstuddar.

Í 25. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 28. gr. laganna segir að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki. Í 29. gr. laganna er sveitarstjórn gert að setja nánari reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Í gögnum málsins liggja fyrir reglur um heimaþjónustu Akureyrarbæjar sem tóku gildi 1. febrúar 2011.

Í umsóknum kæranda um heimaþjónustu óskar hún eftir aðstoð við þrif eða önnur heimilisstörf. Samkvæmt þjónustusamningi um félagslega heimaþjónustu hjá Akureyrarbæ, dags. 31. janúar 2014, hefur kærandi fengið samþykkta heimaþjónustu til 1. maí 2014. Í heimaþjónustunni felst þrif á gólfum og baðherbergi einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn. Þá kemur fram að þjónustan falli niður þegar maki er heima. Þar sem umsókn kæranda um heimaþjónustu hefur verið samþykkt og kærandi ekki gert athugasemdir við þá þjónustu sem hún hefur fengið samþykkta er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta