Hoppa yfir valmynd
21. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2011

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 21. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 42/2011:

Beiðni A

um endurupptöku máls

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með ódagsettu erindi, mótt. 10. mars 2014, óskað endurupptöku máls nr. 42/2011 er varðaði kæru á ákvörðun Íbúðalánasjóðs vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum vegna fasteignar að B. Úrskurður í málinu var kveðinn upp á fundi nefndarinnar þann 22. júní 2011 þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest. Vegna breyttrar framkvæmdar úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun verðmats er Íbúðalánasjóður byggði á við niðurfærslu veðlána var mál kæranda endurupptekið að beiðni kæranda. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála kvað upp nýjan úrskurð í málinu á fundi nefndarinnar, dags. 26. febrúar 2014, þar sem hin kærða ákvörðun var felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 12. maí 2014, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um afskrift lána niður í 110% af verðmati fasteignar væri samþykkt.

Kærandi hefur lagt fram útprentun úr ökutækjaskrá vegna bifreiðarinnar C og óskar eftir að málið verði endurskoðað með tilliti til þess er þar komi fram.

Úrskurðarnefndin bendir á að við afgreiðslu umsóknar kæranda um niðurfærslu veðlána hjá Íbúðalánasjóði var lagt til grundvallar að kærandi ætti bifreiðina C sem metin var á 1.242.945 krónur. Í lögum nr. 29/2011 er eingöngu fjallað um við hvaða tímamark skuli miðað þegar staða áhvílandi veðkrafna er metin, en í 1. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að staða veðkrafna skuli miðast við 1. janúar 2011. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 29/2011 þar sem tekið er fram að talið hafi verið nauðsynlegt að miða við ársbyrjun 2011 svo flýta mætti fyrir nauðsynlegri aðlögun veðkrafna að veðrými og greiðslugetu umsækjenda. Hins vegar er í lögunum ekki mælt fyrir um við hvaða tímamark skuli miða þegar verðmæti fasteignar er metið eða verðmæti aðfararhæfra eigna í eigu lántaka eða maka hans. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við ákvæðið að því er varðar stöðu veðkrafna og til að gætt sé samræmis milli þess tímamarks sem staða veðkrafna er miðuð við annars vegar og mats á verðmæti fasteignar hins vegar, hefur úrskurðarnefndin talið rétt miða við sama tímamark. Var meðal annars tekið fram í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 29/2011 að til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála væri ekki gert ráð fyrir að eignastaða umsækjenda yrði skoðuð umfram það sem fram kæmi á skattframtali og yfirlýsing umsækjanda um eignir gæfi tilefni til. Í athugasemdunum virðist því hafa verið gert ráð fyrir að litið yrði til skattframtals við mat á verðmæti aðfararhæfra eigna enda þótt gert hafi verið ráð fyrir að skuldari gæti sýnt fram á að orðið hefði breyting á eignastöðu hans þegar kom að ársbyrjun 2011, en fram kemur að með umsókn hafi átt að fylgja yfirlýsing um eignastöðu hlutaðeigandi.

Samkvæmt framlagðri útprentun úr ökutækjaskrá seldi kærandi bifreiðina C þann 18. nóvember 2010 og var því ekki eigandi hennar þann 1. janúar 2011. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að bifreiðin hafi ekki átt að koma til frádráttar niðurfærslu veðlána hjá Íbúðalánasjóði, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Útreikningur Íbúðalánasjóðs, dags. 12. maí 2014, vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningahlutfall af verðmæti fasteignar verður því felldur úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Útreikningur Íbúðalánasjóðs, dags. 12. maí 2014, vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningahlutfall af verðmæti fasteignar A er felldur úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta