Fjörutíu ára afmæli Jarðhitaskólans fagnað með afmælisdagskrá í Hörpu
Á alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunni sem stendur yfir í Hörpu þessa dagana var í morgun fagnað með sérstakri afmælisdagskrá 40 ára afmæli Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skólinn tók til starfa í desember 1978 og fertugasta starfsárið hófst á dögunum. Fyrsta árið sem skólinn starfaði voru nemendurnir tveir en á fertugsafmælinu hefur skólinn útskrifað 670 nemendur frá 60 þjóðríkjum víðs vegar um heiminn.
Eins og kunnugt er býður skólinn upp á sex mánaða þjálfun fyrir starfsfólk í jarðhitageiranum í þróunarríkjum auk styrkja sem hann veitir til meistara- og doktorsnáms við HÍ og HR, auk árlegs námskeiðahalds í þróunarríkjum fyrir jarðhitafólk. Fjárveitingar til Jarðhitaskólans eru hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.
Á afmælishátíðinni í morgun voru undirritaður samningur milli Jarðhitaskólans og jarðhitafyrirtækisins LaGeo, sem er hluti af CEL – Landsvirkjun El Salvador um áframhaldandi samstarf vegna diplómanáms í jarðhitafræðum fyrir rómönsku Ameríku en það hefur verið haldið síðustu ár í háskóla El Salvador. Þá liggja fyrir drög að viljayfirlýsingu um áframhaldandi samstarf við KenGen og GDC, tvö helstu jarðhitafyrirtæki Kenía.
Í tilefni afmælisins fluttu starfsmenn skólans í morgun fyrirlestra um sögu hans og stöðu. Þá héldu nokkrir fyrrverandi nemendur skólans, sem nú gegna lykilstöðum í jarðhitageiranum heima fyrir, fyrirlestra um jarðhitanotkun og þátt skólans í eflingu jarðhitanýtingar í heimalöndum sínum og á heimsvísu. Loks héldu núverandi doktors- og meistaranemendur skólans stutta kynningu á þeim rannsóknarverkefnum sem þeir vinna að við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík með styrk frá Jarðhitaskólanum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir starfandi utanríkisráðherra og ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar flutti ávarpsorð á afmælishátíðinni.
Nánari upplýsingar um skólann er að finna á vef skólans, www.unugtp.is.