Fimmti fundur fjármálastöðugleikaráðs 2016
Fimmti fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2016 var haldinn föstudaginn 16. desember í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Áhætta í fjármálakerfinu hefur lítið breyst frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs. Þjóðhagslegar aðstæður hafa í meginatriðum verið fjármálakerfinu hagstæðar undanfarin misseri. Hagvöxtur er enn þróttmikill, dregið hefur úr atvinnuleysi, ráðstöfunartekjur heimila hafa aukist og hagnaður fyrirtækja verið ágætur. Útlánavöxtur hefur verið hóflegur og kjör innlendra aðila á erlendum lánsfjármörkuðum hafa batnað. Erlend staða þjóðarbúsins er hin hagstæðasta í sögu landsins svo langt sem sambærileg gögn ná og með því hagstæðara sem gerist meðal þróaðra ríkja. Á hinn bóginn gætir vaxandi spennu á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði, sem gæti aukið á áhættuna síðar meir. Losun fjármagnshafta hefur gengið vel og úttektir innlána hafa verið óverulegar. Staða stóru viðskiptabankanna styrktist á síðasta ársfjórðungi og viðnámsþróttur þeirra er því enn góður, hvort heldur horft er til eiginfjárhlutfalla eða lausafjárstöðu.
Eftirfarandi mál voru á dagskrá: Ársfjórðungslegt mat á sveiflujöfnunarauka, samræming á starfsemi ráðsins við opinbera stefnu um fjármálastöðugleika og lög um fjármálafyrirtæki og samþykkt á vísum fyrir millimarkmið 1.
Frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs hefur sveiflutengd kerfisáhætta heldur aukist en þó ekki hraðar en gert var ráð fyrir við síðustu ákvörðun. Fjármálastöðugleikaráð beinir því þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að halda sveiflujöfnunaraukanum um sinn óbreyttum í 1,25%.
Megintilgangur sveiflujöfnunaraukans er að styrkja viðnámsþrótt fjármálakerfisins og milda þar með fjármálasveiflur. Losun aukans veitir lánastofnunum svigrúm til útlána í fjármálaniðursveiflu og dempar þannig áhrif áfalls á raunhagkerfið. Fjármálasveiflur ganga að jafnaði yfir á nokkuð löngum tíma og er meðallengd þeirra nálægt sextán árum.[1] Hraði uppbyggingar sveiflujöfnunaraukans tekur m.a. mið af því. Þess má vænta að fjármálastöðugleikaráð muni á næstu misserum leggja til að sveiflujöfnunaraukinn verði aukinn frekar í takt við framvindu fjármálasveiflunnar.
Fjármálastöðugleikaráð staðfesti á fundi sínum 14. apríl 2015 þrjá kjarnavísa fyrir millimarkmið 1. Einn af þessum vísum, þróun útlána í hlutfalli við VLF, hefur verið birtur með tvennum hætti, þ.e. annars vegar sem frávik skuldahlutfalls frá leitni og hins vegar sem vöxtur skuldahlutfalls. Eiginlegir vísar sem horft hefur verið til eru því fjórir. Á fundi sínum sl. föstudag samþykkti ráðið að styðjast við vísi um aukningu skulda í hlutfalli við landsframleiðslu í stað vaxtar skuldahlutfalls og að bæta nýjum viðbótarvísi, vexti gengis- og verðlagsleiðrétts skuldastofns, fyrir sama millimarkmið.
Ákveðið var að fyrir næsta fund ráðsins myndi kerfisáhættunefnd meta hvernig best væri fyrir ráðið að upplýsa með reglubundnum hætti til hvaða vísa það horfir einkum við greiningu á kerfisáhættu, sbr. opinbera stefnu um fjármálastöðugleika og hvernig standa ætti að tilmælum um sveiflujöfnunarauka þegar ákveðið væri að halda honum óbreyttum með hliðsjón af 86. gr. d. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Fundir fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2017 verða 6. apríl, 10. júní, 6. október og 19. desember.
[1] Sjá t.d. Drehmann, M., C. Borio og K. Tsatsaronis. Characterising the financial cycle: don't lose sight of the medium term! BIS Working Paper Nr. 380, júní 2012 og Bjarni G. Einarsson o.fl. The long history of financial boom-bust cycles in Iceland. Part II: Financial cycles. Rannsóknarritgerð nr. 72. Seðlabanki Íslands, ágúst 2016.