Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum

Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur gert drög að frumvarpi til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum sem birt eru meðfylgjandi til umsagnar. Í starfshópnum voru sérfræðingar frá ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi.

Frumvarpið byggir á tilskipunum 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, og tilskipun 2011/89/ESB sem breytti fyrri tilskipuninni. Fjármálasamsteypa kallast það þegar fjármálasamstæður á sviði fjármála og vátrygginga starfa saman.

Fjármálaeftirlitið setti reglur um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum nr. 165/2014 sem voru byggðar á ofangreindum tilskipunum en heppilegra er að kröfur til fjármálasamsteypa hafi stoð í lögum ásamt reglum um Fjármálaeftirlitið.

Ekki eru starfandi neinar fjármálasamsteypur í dag sem myndu falla undir lögin en nauðsynlegt er að til staðar sé löggjöf um viðbótareftirlit með þeim. Það getur t.a.m. komið í veg fyrir að fjármálasamsteypur gætu veikt stöðu fjármálakerfisins ef þær lentu í fjárhagserfiðleikum. Einnig er mikilvægt að eftirlit sé með samsteypum sem starfa í fleiri en einu ríki og er frumvarpið liður í því að samræma reglur á EES-svæðinu að því leyti.

Fjármálasamsteypur geta verið viðamiklar og flóknar og í frumvarpinu eru reglur um viðbótareftirlit með gjaldþoli, samþjöppun áhættu og viðskipti innan samstæðu. Samkvæmt frumvarpinu ber fjármálasamsteypum skylda til að veita eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar um samsteypuna og eftirlitsstjórnvöld skulu hafa samstarf.

Umsagnir og athugasemdir um frumvarpið skulu berast ráðuneytinu fyrir 23. janúar nk. og sendar á eftirfarandi netfang: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta