Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um eignir Íslendingaá aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera

Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í júní sl. starfshóp sem var falið, annars vegar, að leggja tölulegt mat á umfang eigna og umsvif Íslendinga á aflandssvæðum og, hins vegar, að áætla mögulegt tekjutap hins opinbera sem af slíku leiðir.

Í starfshópnum sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins, Hagstofu Íslands, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands og skattrannsóknarstjóra, auk Sigurðar Ingólfssonar, hagfræðings, sem var skipaður formaður hópsins. Skýrsla starfshópsins hefur verið send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umfjöllunar og þóknanlegrar meðferðar.

Samkvæmt niðurstöðum starfshópsins má áætla að í lok ársins 2015 hafi uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 legið á bilinu 350-810 ma.kr. Þá telur starfshópurinn að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna geti numið allt frá 2,8-6,5 ma.kr. árlega miðað við gildandi tekjuskattslög.

Mögulegt umfang eigna á aflandssvæðum

Svo sem tekið er fram í skýrslunni og framangreindar tölur endurspegla er afar miklum vandkvæðum háð að leggja fram nákvæmt mat á þetta umfang og beinar fjárhæðir og nefndin þurfti að ákvarða hvaða aðferðir væru hentugastar í því tilliti. Ákvað nefndin að styðjast við aðferðir sem áður hafa verið notaðar í sambærilegum tilgangi í öðrum ríkjum og beindi sjónum sínum að eftirtöldum þremur meginþáttum:

1.   Ólögmætri milliverðlagningu í vöruviðskiptum (oft nefnt hækkun/lækkun í hafi).

2.   Eignastýringu erlendis.

3.   Óskráðum fjármagnstilfærslum.

Hver þáttur var metinn á grundvelli þeirra upplýsinga sem tiltækar voru, en í mörgum tilvikum reyndist torvelt að nálgast þær. Annmarkar og óvissa sem af þessu leiðir þýðir að matið fyrir þá þrjá þætti, sem skoðaðir voru, liggur á nokkuð breiðu bili svo sem áður segir. Hafa þarf þessa þætti í huga þegar niðurstöður matsins eru túlkaðar.

Meginniðurstaða matsins er að uppsafnað fjármagn á aflandssvæðum vegna ólögmætrar milliverðlagningar í vöruviðskiptum yfir tímabilið 1990-2015 geti verið á bilinu 140-160 ma.kr. Einnig var stuðst við upplýsingar um eignir í stýringu erlendis sem hafa verið notaðar til þess að áætla umfang aflandseigna, en starfshópurinn telur umfang þeirra geta verið á bilinu 110-350 ma.kr. Árétta þarf að ekki er hægt að segja til um það hversu stór hluti umfangsins hafi verið gefinn upp til skatts á íslensku skattframtali. Að lokum var lagt mat á óskráðar fjármagnstilfærslur milli landa og þær taldar geta numið á bilinu 100-300 ma.kr.

Mögulegt er að þær fjárhæðir sem um ræðir skarist að einhverju leyti. Að því gefnu að fjárhæðirnar skarist ekki er niðurstaðan sú að alls geti umfangið hafa numið á bilinu 350-810 ma.kr. í lok árs 2015, með miðgildi í 580 ma.kr.

Mögulegt tekjutap hins opinbera metið

Mögulegt tekjutap hins opinbera af fjármagnstilfærslum og eignaumsýslu á aflandssvæðum var einnig skoðað. Starfshópurinn studdist við nokkrar aðferðir, mis víðtækar. Þar á meðal var stuðst við heimtur á fjármagnstekjuskatti á Íslandi samkvæmt gildandi lögum. Niðurstöður matsins sýndu að hið opinbera geti orðið af 2,8-6,5 ma.kr. ár hvert, með miðgildi í 4,6 ma.kr., miðað við framangreindar áætlanir um eignaumsvif og að því gefnu að fjármagn sem talið er vera á aflandssvæðum sé ekki gefið upp til skatts á íslensku skattframtali. 

Framfarir í upplýsingaskiptum milli landa

Allt bendir til þess að mest öll aflandsvistun eigna í eigu Íslendinga hafi átti sér stað fyrir fall fjármálakerfisins, en frá þeim tíma hafa orðið miklar framfarir í reglulegum upplýsingaskiptum milli landa, m.a. upplýsingagjöf um bankainnstæður Íslendinga í þeim ríkjum sem samþykkt hafa reglur um upplýsingaskipti. Þá standa þó eftir þau félagaform innan Evrópska efnahagssvæðisins sem í skýrslunni eru talin til aflandsfélaga. Þau falla undir almenna tvísköttunarsamninga og eru þar með viðurkennt form í viðskiptum.

Aðgerðir gegn skattsvikum og skattaskjólum

Verkefni starfshópsins er síðasti áfanginn í þríþættri aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn skattsvikum og skattaskjólum (aflandsfélögum) sem kynnt var í ríkisstjórn í apríl sl.

Fyrsti áfangi var sá að óska eftir tillögum frá stofnunum skattkerfisins (ríkisskattstjóra, skattarannsóknarstjóra og tollstjóra) um aðgerðir og úrbætur í baráttu þeirra gegn skattsvikum. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu bárust ítarleg svör frá umræddum stofnunum. Til að gera eftirlitsstofnunum kleift að ráðast þegar í stað í aðgerðir voru þeim tryggðar sérstakar fjárveitingar til rekstrar í fjáraukalögum ársins 2016 og í fjárlögum ársins 2017. Fjárheimildirnar nýtast til kaupa á skattagögnum og til eflingar rannsókna og eftirlits.

Öðrum áfanga lauk með skýrslu starfshóps sem hafði það hlutverk að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum sem saman gætu myndað almenna aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattundanskotum, skattsvikum og nýtingu skattaskjóla almennt. Í kjölfarið lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp á Alþingi sem samþykkt var sem lög nr. 112/2016, um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., auk þess sem gefnar voru út nýjar reglugerðir.

Skýrsla þessi, sem unnin er að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra, hefur verið send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og er henni ætlað að nýtast í umræðu á Alþingi og víðar um það hvaða úrræðum verði beitt til að koma í veg fyrir undanskot frá sköttum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta