Hoppa yfir valmynd
20. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fyrsta landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks samþykkt á Alþingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, með landsáætlunina á Alþingi nú í dag. - mynd
 Alþingi samþykkti í dag fyrstu landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks hér á landi. Áætlunin felur í sér 60 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samningsins hér á landi. 
 

„Ísland er nú í fyrsta sinn með heildstæða stefnu í málefnum fatlaðs fólks. Dagurinn í dag markar þannig tímamót. Ég er ákaflega stoltur af landsáætluninni sjálfri, sem og gerð hennar. Landsáætlunin var unnin í breiðu og einstöku samráði fatlaðs fólks, hagsmunasamtaka, stjórnvalda og almennings,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. 

„Landsáætlunin felur í sér skýra framtíðarsýn, kortlagningu, greiningu og mat á kostum til að stuðla að farsælli innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Leiðarljósið er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk.“ 

Aðgerðirnar í landsáætluninni eru fjölbreyttar og snerta fjölmörg málefnasvið, stofnanir, sveitarfélög og aðra hagaðila. Þær eru á ábyrgð tíu ráðuneyta. 

Fjölmennur hópur fólks vann sem fyrr segir að gerð áætlunarinnar en alls störfuðu 11 vinnuhópar með verkefnisstjórn. Fulltrúi samtaka fatlaðs fólks stýrði hverjum og einum vinnuhópi en í hópunum sátu fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks; Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og ÖBÍ réttindasamtaka, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar Stjórnarráðsins, þ.e. starfsmenn ráðuneyta eða stofnana þeirra. 

33 ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var skipt upp á milli vinnuhópanna og á grundvelli greiningar á stöðu hvers ákvæðis hér á landi mótuðu vinnuhóparnir tillögur að aðgerðum til að nálgast markmið samningsins. 

Heildstæð stefnumótun 

Landsáætlunin var lögð fram sem tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027. Það var sú þingsályktunartillaga sem samþykkt var í dag.  

Alþingi hefur áður samþykkt tvær framkvæmdaáætlanir í málefnum fatlaðs fólks, fyrir árin 2017-2021 og 2012-2014, en landsáætlun er á hinn bóginn hluti af heildstæðri stefnumótun í þjónustu og þróun réttinda fatlaðs fólks. Henni er ætlað að ná til allra þeirra málefnasviða sem undir samninginn heyra. 

Aðgerðirnar í áætluninni falla undir sex þætti: Vitundarvakningu og fræðslu, aðgengi, sjálfstætt líf, menntun og atvinnu, þróun þjónustu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Opnir fundir út um landið 

Samhliða vinnslu landsáætlunarinnar stóð Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrir opnum samráðsfundum um landið. Þar gafst fólki tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun þjónustu við fatlað fólk hér á landi. Samráðsfundirnir voru vel sóttir og gagnlegar umræður sköpuðust. 
Í febrúar 2023 sóttu auk þess um 300 manns samráðsþing í Hörpu um landsáætlunina, auk þess sem fjöldi fólks fylgdist með í streymi. Að þinginu stóðu félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ásamt forsætisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ÖBÍ réttindasamtökum, Landssamtökunum Þroskahjálp og Geðhjálp. 

 

Frá samráðsþinginu sem fram fór í Hörpu um landsáætlunina.

Fyrsti samráðsfundurinn í hringferðinn um landið fór fram í Reykjanesbæ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á opnum fundi í Hofi á Akureyri í gær.

Frá samráðsfundinum sem fram fór á Akureyri

Bein útsending: Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar; ráðherra; Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka; og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður verkefnastjórnar um gerð landsáætlunar

Spurningar og svör á Sauðárkróki

Samræður í Reykjavík

Landsáætlun og lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks rædd á Höfn

Hádegisfundur á Ísafirði

Ráðherra með framsögu á Egilsstöðum áður en umræður hófust

Málin rædd í Borgarnesi

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, flytur framsögu á fundinum á Akureyri

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, heldur ræðu á Sauðárkróki

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta