Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

937/2020. Úrskurður frá 20. október 2020

Úrskurður

Hinn 20. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 937/2020 í máli ÚNU 20100009.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 927/2020 í máli nr. ÚNU 20030013, sem kveðinn var upp þann 25. september 2020, staðfesti úrskurðarnefnd um upplýsingamál að hluta til ákvörðun nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum varðandi endurgreiðslubeiðni félagsins Ljósmáls ehf. vegna framleiðslu kvikmyndar. Ákvörðun úrskurðarnefndarinnar var byggð á því að um væri að ræða gögn um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Ljósmáls ehf. sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu.

Með erindi, dags. 6. október 2020, fór kærandi fram á endurupptöku málsins. Í erindi kæranda kemur fram að öll þau gögn sem synjað hafi verið um aðgang að, og sem úrskurðarnefndin hafi staðfest að undanþegin væru upplýsingarétti, hafi verið unnin af kæranda, að frátöldum tölvupóstsamskiptum á milli forráðamanns Ljósmáls ehf. og starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og reikningsyfirliti bankareiknings. Kærandi hafi þó reikningsyfirlit, dags. til 30. desember 2019, undir höndum. Ástæðan fyrir því að krafist hafi verið afrits af gögnunum hafi verið að kærandi vildi kanna hvort þeim hefði verið breytt í meðförum skráðs stjórnarformanns Ljósmáls ehf. og send þannig til nefndar um endurgreiðslu.

Í beiðni kæranda kemur einnig fram að Ljósmál ehf. hafi ekki rökstutt hvaða tjón kynni að verða af því að kærandi fengi aðgang að öllum gögnum málsins. Í afriti af ársreikningum megi m.a. sjá að kærandi sé skráður með 51% hlutdeild í félaginu. Ekki sé rétt að kærandi hafi ekki greitt hlutafé. Þá eru raktir málavextir sem tengjast ágreiningi kæranda og Ljósmáls ehf. sem óþarft þykir að rekja hér en lúta í stuttu máli að því að ekki hafi verið rétt staðið að fjármálum félagsins.

Kærandi segir að málið hafi náð tilteknu flækjustigi þegar það hafi borist til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og að umtalsvert af gögnum, málavöxtum sem nái aftur til 2017, þyrfti að liggja fyrir til að greina málið að fullu. Þau gögn liggi fyrir sé þeirra óskað.

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins var kynnt nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð með bréfi, dags. 7. október 2020, og nefndinni veittur kostur á koma að athugasemdum. Með bréfi, dags. 14. október 2020, svaraði nefndin því að hún teldi ekki þörf á því að tjá sig um beiðnina.

Beiðni kæranda var einnig kynnt Ljósmáli ehf. með bréfi, dags. 7. október 2020, og félaginu veittur kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi, dags. 19. október 2020, svaraði félagið því að ekki bærust frekari svör en vísað var til fyrri athugasemda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um ákvörðun nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð um að synja beiðni kæranda um aðgang að eftirfarandi gögnum en úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti ákvörðunina með úrskurði nr. 927/2020.

Um er að ræða eftirfarandi gögn:

1. „Ljósmál – yfirlit um framleiðslukostnað“ fyrir tímabilið 2014-2019.
2. „Fjárhagur – Hreyfingalisti“ fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 31. desember 2019.
3. Efnisgreinar 5 og 7 í tölvupóstsamskiptum á milli forráðamanns Ljósmáls ehf. og starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 3. mars 2020.
4. „Uppgjör kostnaðar Vitafélagsins vegna Ljósmáls“, dags. 4. nóvember 2019.
5. Reikningsuppgjör milli Vitafélagsins og Ljósmáls“, dags. 4. nóvember 2019.
6. Reikningsyfirlit bankareiknings sem sýnir stöðu reiknings og ógreidda reikninga, ódagsett.
7. „Minnismiði vegna launa framleiðenda og myndhandrits“, ódagsett og brot úr kvikmyndahandriti.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins hvað varðar þau gögn sem synjað var um aðgang að, á því að gögnin hafi verið unnin af kæranda, að frátöldum liðum 3 og 6. Þá hafi kærandi reikningsyfirlit banka, dags. til 30. desember 2019, undir höndum. Kærandi vilji hins vegar kanna hvort Ljósmál ehf. hafi sent þessi gögn til nefndar um endurgreiðslu óbreytt en það tengist ásökunum kæranda á hendur Ljósmáli ehf. í tengslum við fjármál félagsins.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál komst nefndin að þeirri að niðurstöðu að nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð væri óheimilt að veita kæranda aðgang að framangreindum gögnum þar sem þau vörðuðu mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem óheimilt væri að veita aðgang að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Við mat á efni gagnanna var litið til þess að Ljósmál ehf. væri umsóknaraðilinn. Því væri um að ræða gögn í máli Ljósmáls ehf.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál gat réttur kæranda til aðgangs að gögnum um málefni Ljósmáls ehf., sem voru í vörslum nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð, ekki ráðist af því hvort hann hefði verið hluthafi í félaginu eða ekki. Mat á rétti kæranda til aðgangs að gögnunum fór því fram á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings enda hefði kærandi ekki sýnt fram á sérstaka hagsmuni af því umfram almenning að geta kynnt sér umrædd gögn, sbr. 14. gr. upplýsingalaga.

Sem fyrr segir er beiðni kæranda um endurupptöku málsins reist á því að um sé að ræða gögn sem unnin hafi verið af kæranda. Þar af leiðandi geti hagsmunir Ljósmáls ehf. ekki staðið því í vegi að kærandi fái aðgang að gögnunum. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál getur sú fullyrðing að kærandi hafi unnið þau gögn sem send voru nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð ekki breytt því að gögnin sem deilt er um í máli þessu stafa frá Ljósmáli ehf. og varða hagsmuni þess félags. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að gögnin geymi upplýsingar um hann sjálfan og er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að svo sé ekki. Þá hefur það heldur ekki sérstaka þýðingu að kærandi telji fjármálastórn Ljósmáls ehf. vera ábótavant og þar af leiðandi vilji hann kynna sér gögnin sem send voru nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð. Að mati úrskurðarnefndarinnar er úrskurður nr. 927/2020 því ekki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar væru verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til framangreinds er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 927/2020 frá 25. september 2020.

Úrskurðarorð

Beiðni A, dags. 6. október 2020, um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 927/2020 frá 25. september 2020, er hafnað.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta