Hoppa yfir valmynd
3. október 2001 Heilbrigðisráðuneytið

29. sept. - 5. okt. 2001

Fréttapistill vikunnar
29. sept. - 5. okt. 2001


Mikilvægt er ,,að veita í einn farveg öllu því fé sem varið er til forvarna" segir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Öflug heilsugæsla er grundvöllur að góðu heilsufari þjóðarinnar og til framtíðar skipta forvarnir verulegu máli um heilsufar landsmanna. Þetta sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í umræðum á Alþingi 2. október um stefnuræðu forsætisráðherra. Jón lagði áherslu á nauðsyn þess að heilbrigðisþjónusta byggist á pólitískri stefnumótun, þekkingu og tækni fagfólks og því hjartalagi sem setur þjónustu við fólk í fyrirrúm. Hann sagði forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu hafa ráðist af því til þessa og ,,mun ráðast af því meðan ég sit í embætti heilbrigðisráðherra hver þarf mest á þjónustunni að halda en ekki á því hver hefur bestu fjárráðin. Ráðherra benti á að meira en helmingur þeirra sem leita sér læknis eru börn, öryrkjar og aldraðir og spurði: ,,Eru það þessir hópar sem menn vilja gefa kost á að kaupa sig fram fyrir á biðlistum eða færast þeir aftur fyrir í biðröðinni þegar fagfólkið er upptekið við að sinna hinum?". Ráðherra sagði að með því að stilla komugjöldum í heilsugæslunni í hóf vilji hann koma þeim skilaboðum til almennings að nýta sér heilsugæsluna í ríkari mæli en nú er gert og boðaði tillögur um leiðir til að efla heilsugæsluna enn frekar. Þá gerði hann að umtalsefni forvarnir og sagðist sannfærður um að veita beri í einn farveg öllu fé sem varið er til forvarna. Til framtíðar skipti forvarnir verulegu máli í heilsufari þjóðarinnar, nauðsynlegt sé að sameina krafta þeirra sem fást við að skipuleggja forvarnir á Íslandi og stjórnun forvarnarstarfs þurfi að vera einföld, gagnsæ og kraftmikil til að skjótur árangur náist og til að fjármunum sé varið á sem hagkvæmastan hátt.

Slysaskrá Íslands tekin til starfa
Slysaskrá Íslands tók formlega til starfa 1. október síðastliðinn. Til þessa hafa slys verið skráð af mörgum aðilum og á ólíkum forsendum þannig að samræmi hefur skort. Meðal þeirra sem starfa við slysavarnir hefur lengi verið áhugi á að samræma skráninguna til að fá betra yfirlit yfir fjölda slysa, orsakir þeirra og afleiðingar. Í Slysaskrá Íslands verða skráðar upplýsingar um öll slys og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Skráin verður vistuðu hjá landlæknisembættinu. Til að byrja með verður skráning í höndum slysadeildar Landspítalans, embættis ríkislögreglustjóra, Vinnueftirlits ríkisins og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. en gert er ráð fyrir að fleiri muni tengjast slysaskránni síðar. Um 50 - 60 þúsund slys verða hér árlega. Með bættri skráningu á slysum, upplýsingum um orsakir þeirra og afleiðingar skapast miklu betri forsendur til að berjast gegn þeim, unnt verður að meta árangur af forvarnarstarfi og vonir standa til að hægt verði að fækka slysum til muna.
Meira um Slysaskrá Íslands á vef landlæknisembættisins...

Auglýst eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra 2002
Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra auglýsir eftir umsóknum um framlög úr sjóðnum árið 2002. Eldri umsóknir koma aðeins til greina séu þær endurnýjaðar. Nota skal sérstök umsóknareyðublöð sem fylla ber samviskusamlega út, en þau má nálgast í afgreiðslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eða á heimasíðu ráðuneytisins. Einnig er ætlast til að umsækjendur lýsi bréflega einingum húsnæðisins, byggingarkostnaði, verkstöðu, fjármögnun, rekstraráætlun, þjónustu- og vistunarþörf ásamt mati þjónustuhóps aldraðra (matshóps) og þar með hvaða þjónustuþætti ætlunin er að efla. Umsókn skal fylgja ársreikningur 2000 endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda og kostnaðaryfirlit yfir fyrstu níu mánuði ársins 2001. Sé ofangreindum skilyrðum ekki fullnægt áskilur sjóðstjórnin sér rétt til að vísa umsókn frá. Umsóknir skulu hafa borist sjóðstjórninni fyrir 1. desember 2001, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Laugavegi 116, 150 Reykjavík.
Umsóknareyðublöð>

LAUF - Landssamtök áhugafólks um flogaveiki kynna nýja heimasíðu félagsins
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra opnaði í dag formlega nýja heimasíðu Landssamtaka áhugafólks um flogaveiki (LAUF). Á síðunni eru birtar margvíslegar upplýsingar um flogaveiki, s.s. um sjúkdóminn sjálfan, einkenni hans og meðferð, áhrif flogaveiki á daglegt líf fólks og hvernig takast megi á við þau. Á síðunni kemur m.a. fram að fjórir til tíu af hverjum 1000 eru með flogaveiki. ,,Samkvæmt því ættu að vera 1080 -2700 Íslendingar með flogaveiki. Hér áður og fyrr þegar lítill skilningur var á af hverju sumir fengu flog urðu einstaklingar með flogaveiki oft fyrir barðinu á fordómum. Sem betur fer er þekking fólks að aukast og fordómar að sama skapi að minnka. Samt sem áður rekumst við oft á einstaklinga sem orðið hafa fyrir barðinu á fordómum sem rekja má til þekkingaleysis. Slíkt er mjög sorglegt því í dag er í flestum tilvikum hægt að hafa stjórn á flogum með réttri lyfjameðferð. Sannarlega getur líf með flogaveiki falið í sér ýmis vandamál en flestir sem eru með flogaveiki geta lifað innihaldsríku og heilbrigðu lífi." Slóð heimasíðunnar er: http://www.lauf.is

Árvekni um brjóstakrabbamein
Í sífellt fleiri löndum hefur októbermánuður ár hvert verið helgaður árvekni um brjóstakrabbamein. Alþjóðlegt tákn þessa átaks er bleik slaufa. Hér á landi verður októbermánuður árið 2001 notaður til að vekja athygli á þessum sjúkdómi, líkt og gert var á síðasta ári, fræða um hann og hvetja konur til að nýta sér boð leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku. Ár hvert greinast um 150 íslenskar konur með brjóstakrabbamein, þar af er nær helmingurinn á aldrinum frá 30 til 60 ára. Fjöldi nýrra tilfella hefur verið að aukast en lífshorfurnar hafa einnig batnað mikið. Um 48% kvenna sem greindust með brjóstakrabbamein á árunum 1956-60 lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 75% vænst þess að lifa svo lengi (miðað við 1991-95). Að teknu tilliti til annarra dánarorsaka eru fimm ára lífshorfur kvenna með krabbamein um 83% af lífshorfum jafnaldra. Nú eru á lífi um 1400 konur sem fengið hafa krabbamein. Samkvæmt nýjum útreikningum frá Krabbameinsskránni getur tíunda hver kona búist við að fá brjóstakrabbamein einhvern tímann fyrir 85 ára aldur.
Sjá Heimasíðu Krabbameinsfélagsins...

K-dagur til stuðnings geðfötluðum 6. október
Á morgun verður svokallaður K-dagur Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi haldinn í tíunda sinn. Þriðja hvert ár hefur Kiwanishreyfingin á Íslandi staðið fyrir landssöfnun til stuðnings geðfötluðum á Íslandi á K-deginum með sölu K-lykilsins. Fyrsti K-dagurinn var haldin árið 1974.




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
5. október 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta