Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 28. ágúst 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 5/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 17. janúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 28. nóvember 2012, á beiðni hennar um styrk vegna tannlækninga. Synjunin byggðist á því tekjur kæranda væru yfir viðmiðunarmörkum skv. 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi gerir kröfu um að henni verði veittur sá styrkur sem hún óskaði eftir.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi sótti um styrk vegna tannlækninga og til kaupa á gleraugum hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 24. október 2012. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði, dags. 1. nóvember 2012, með þeim rökum að tekjur kæranda væru yfir viðmiðunarmörkum skv. 18. gr. II og 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði synjun um styrk vegna tannlækninga til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með bréfi, dags. 1. nóvember 2012. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar tók málið fyrir á fundi sínum, þann 28. nóvember 2012, og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Fjölskylduráð staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um styrk til greiðslu tannlækninga með vísan til 18. gr. II í reglum um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem tekjur eru yfir þeim viðmiðunarmörkum sem þar eru sett.“  

 

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 28. nóvember 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 17. janúar 2013. Með bréfi, dags. 22. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um styrk vegna greiðslu tannlækninga. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 14. mars 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. mars 2013, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Með ódagsettu bréfi, mótt. 26. mars 2013, lagði kærandi fram frekari gögn.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Í rökstuðningi af hálfu kæranda kemur fram að hún sé 75% öryrki og fái einungis örorkubætur til að framfleyta sér, sem nemi um 170–200 þúsund brúttó á mánuði. Kærandi kveðst vera í leiguíbúð hjá sveitarfélaginu og eiga í miklum fjárhagserfiðleikum en hún hafi gengið í gegnum ferli hjá umboðsmanni skuldara. Kærandi kveðst vera mjög ósátt við niðurstöðu Hafnarfjarðarbæjar um að synja henni um styrk vegna tannlækninga. Hún þjáist af mikilli tannpínu sem ekki sé hægt að lækna sökum fjárskorts og geti ekkert annað leitað og því sé þetta síðasta leiðin sem hún geti farið vegna þessa vanda.

 

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

 

Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar kemur fram að meðferð á umsókn kæranda hafi farið samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ, sem settar hafi verið 1. janúar 2004 og síðast breytt 1. mars 2011. Í 18. gr. I reglnanna komi fram að heimilt sé að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga til einstaklinga sem hafi tekjur við eða undir grunnfjárhæð og fullnægi öðrum skilyrðum sem þar séu tiltekin. Samkvæmt 11. gr. sömu reglna taki framfærslugrunnur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og árið 2012 hafi framfærslugrunnur verið 141.846 kr. Umsókn kæranda hafi verið lögð fyrir afgreiðslufund Fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði, þann 30. október 2012. Þegar umsókn kæranda hafi legið fyrir hafi samanlagðar örorkubætur hennar og greiðslur úr lífeyrissjóði numið 225.519 kr. Tekjur kæranda hafi verið talsvert yfir grunnfjárhæð samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ og því hafi beiðni hennar verið synjað.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ frá 1. janúar 2004 með síðari breytingum síðast 1. mars 2011. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 24. október, um styrk vegna tannlækninga.

 

Í upphafi telur úrskurðarnefndin ástæðu til að gera athugasemd við tilvísun til ákvæða reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ í rökstuðningi fyrir synjun á umsókn kæranda. Í bréfum Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 1. nóvember 2012 og fjölskylduráðs Hafnarfjarðar, dags. 28. nóvember 2012, er í rökstuðningi fyrir synjun vísað til 18. gr. II í reglum um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Hins vegar er ljóst að synjunin var í raun byggð á 18. gr. I eins og fram kemur í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Beinir nefndin þeim tilmælum til sveitarfélagsins að í rökstuðningi fyrir niðurstöðu ákvarðana, sbr. 2. málsl. 28. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ, sé gætt að því að vísað sé til réttra ákvæða í reglunum.

 

Þá bendir úrskurðarnefndin enn fremur á að í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið skýrt á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda. Ákvarðanir sveitarfélagsins í málinu voru kynntar kæranda með bréfum, dags. 1. nóvember 2012 og 28. nóvember 2012. Ákvörðununum fylgdi ekki rökstuðningur sem fullnægir skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga og bar sveitarfélaginu því að leiðbeina aðila máls um heimild til eftirfarandi rökstuðnings. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að tryggja að fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga sé fylgt þegar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins eru ekki rökstuddar.

 

Um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára er fjallað í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Við því mati verður ekki hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Kærandi sótti um styrk vegna tannlækninga með umsókn, dags. 24. október 2012, en var synjað með þeim rökum að tekjur hennar væru yfir viðmiðunarmörkum reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ. Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ er að finna heimild til greiðslu fyrir sérfræðiaðstoð. Þar segir í lið I að heimilt sé að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga til einstaklinga sem hafi tekjur við eða undir grunnfjárhæð og fullnægi nánar tilgreindum skilyrðum. Í 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um grunnfjárhæð. Þar segir að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna dagslegs heimilishalds og breytist 1. janúar ár hvert miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ var grunnfjárhæð fyrir einstakling árið 2012, 141.846 kr. Í 12. gr. reglnanna er nánar fjallað um tekjur umsækjanda. Þar segir að við mat á fjárþörf séu allar tekjur umsækjanda í þeim mánuði er sótt er um og mánuðinn á undan taldar með. Undir tekjur falli atvinnutekjur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að undanskildum greiðslum með börnum. Við matið beri að miða við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Jafnframt segir að húsaleigu- og vaxtabætur teljist ekki til tekna.

 

Kærandi óskaði eftir fjárhagsaðstoð vegna greiðslu nauðsynlegra tannlækninga, dags. 24. október 2012. Í máli kæranda koma tekjur kæranda í september og október 2012 til skoðunar við mat á fjárþörf, sbr. 12. reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðbæ. Kærandi er 75% öryrki og fær örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Samkvæmt greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árið 2012, sem liggur fyrir í gögnum málsins, var áætlað að kærandi fengi greiddar 211.449 kr. bæði í september og október 2012. Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna sem liggur fyrir í gögnum málsins fékk kærandi greiddar 13.935 kr. í bæði september og október árið 2012. Meðaltekjur kæranda í september og október 2012 námu því 225.384 kr. Samkvæmt 18. gr. I reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ er heimilt að veita fjárhagsaðstoð til tannlækninga til einstaklinga sem hafa tekjur við eða undir grunnfjárhæð skv. 11. gr. reglnanna. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ var grunnfjárhæð fyrir einstakling árið 2012, 141.846 kr. Tekjur kæranda voru því töluvert yfir þeirri grunnfjárhæð sem ákvæðið áskilur. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 18. gr. I reglna um fjáhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Hafnarfjaðarbæjar, dags. 28. nóvember 2012, um synjun á umsókn A, um styrk vegna tannlækninga er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta