Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 93/2012.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 28. ágúst 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 93/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Sveitarfélagsins Voga

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 20. nóvember 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, dags. 9. nóvember 2012, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur. Synjunin byggðist á því að búsetuskilyrðum reglna um sérstakar húsaleigubætur hafi ekki verið fullnægt en kærandi var ekki talin uppfylla skilyrði um undanþágu frá þeim reglum. Krafa kæranda er sú að henni verði veitt undaþága frá búsetuskilyrðum reglna um sérstakar húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi flutti frá B og settist að í Vogum þann 1. desember 2011, samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu leigir kærandi 64 m² íbúð og greiðir 70.000 kr. í leigu á mánuði. Þá fái hún 18.000 kr. í húsaleigubætur og 135.444 kr. í fjárhagsaðstoð á mánuði.

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga með ódagsettri umsókn sem barst sveitarfélaginu þann 31. október 2012. Kærandi uppfyllti ekki búsetuskilyrði 3. gr. reglna um sérstakar húsaleigubætur. Með greinargerð, dags. 5. nóvember 2012, sem unnin var af starfsmanni félagsþjónustunnar og lögð var fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd, dags. 8. nóvember 2012, var farið fram á undanþágu frá búsetuskilyrði 3. gr. reglnanna fyrir kæranda. Í greinargerðinni var óskaði eftir því að tekið væri til greina að tekjur kæranda hefðu verið um eða undir viðmiðunartekjum síðustu tíu mánuði og að staða hennar myndi ekki breytast í bráð. Ráðstöfunartekjur hennar hafi verið mjög lágar til langs tíma og því væri hún í miklum fjárhagserfiðleikum.

 

Umsókn kæranda var lögð fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 8. nóvember 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Umsókn um undanþágu frá búsetuskilyrðum reglna um sérstakar húsaleigubætur hafnað.

 

Niðurstaða fjölskyldu- og velferðarnefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 9. nóvember 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. nóvember 2012. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð af hálfu nefndarinnar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lægju fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð, dags. 5. nóvember 2012, sem lögð var fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd þann 8. nóvember 2012, barst frá sveitarfélaginu ásamt bréfi með bókun fjölskyldu- og velferðarnefndar, dags. 27. apríl 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. janúar 2013, var bréf fjölskyldu- og velferðarnefndar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með beiðni, dags. 24. júní 2013, óskaði nefndin eftir frekari gögnum frá sveitarfélaginu varðandi mat á félagslegum erfiðleikum og bárust þau með tölvupósti þann 26. júní 2013.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst nauðsynlega þurfa á sérstökum húsaleigubótum að halda. Hún sé óvinnufær og í námi. Þá eigi hún von á barni og sjái ekki fram á að eiga fyrir mat út mánuðinn fyrir sig og barnið sitt, en kærandi kveðst vera einstæð. Enn fremur hafi kærandi viljað koma því á framfæri að vinkona hennar, sem hafi flutt til Reykjavíkur, hafi sótt um sérstakar húsaleigubætur og fengið neitun en eftir að hún hafi kært niðurstöðuna hafi umsókn hennar um sérstakar húsaleigubætur verið samþykkt.  

 

 

III. Sjónarmið sveitarfélagsins

 

Engin greinargerð barst frá sveitarfélaginu til úrskurðarnefndarinnar með rökstuðningi fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur þrátt fyrir beiðni þess efnis af hálfu nefndarinnar, með bréfi dags. 30. nóvember 2012. Mun nefndin því styðjast við sjónarmið sveitarfélagsins eins og þau birtast í greinargerð starfsmanns félagsþjónustunnar, dags. 5. nóvember sem lögð var fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd, dags. 8. nóvember. Sveitarfélagið synjaði umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur þar sem hún uppfyllti hvorki búsetuskilyrði 3. gr. reglna um sérstakar húsaleigubætur í Sandgerðisbæ, Garði og Vogum né undanþágur frá því skilyrði. Að mati sveitarfélagsins uppfyllti kærandi öll skilyrði um sérstakar húsaleigubætur utan eitt þar sem kærandi hafði einungis búið í Vogum frá 1. desember 2011 en skv. 3. gr. reglnanna sé það skilyrði að umsækjandi hafi átt lögheimili í a.m.k. þrjú ár samfellt í viðkomandi sveitarfélagi. Undanþágur frá búsetuskilyrði reglnanna sé að finna í 4. gr. sem eigi eingöngu við ef umsækjandi hafi þurft að flytja tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda eða að faglegt mat starfsmanns félagsþjónustunnar sé að umsækjandi eigi við mjög mikla félagslega erfiðleika að stríða. Að mati sveitarfélagsins uppfylli umsækjandi hvorugt skilyrðið. Kærandi hafi ekki búið áður í sveitarfélaginu auk þess sem hún hafi gott stuðningsnet og í raun hafi ekki verið til staðar neinir félagslegir erfiðleikar fyrir utan fjárhagserfiðleika.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um sérstakar húsaleigubætur í Sandgerðisbæ, Garði og Vogum frá 19. apríl 2006, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort sveitarfélaginu hafi borið að samþykkja ódagsetta umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur.

 

Úrskurðarnefndin bendir á að í ákvörðunarbréfi fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, dags. 9. nóvember, er tekið fram að hægt sé að áfrýja ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og að áfrýjun skuli send innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins. Umrædd ákvörðun er hins vegar kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála skv. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, og er kærufrestur nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 er tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga með ódagsettri umsókn. Kærandi uppfyllti ekki búsetuskilyrði reglna um sérstakar húsaleigubætur og í greinargerð, dags. 5. nóvember 2012, sem lögð var fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd, dags. 8. nóvember, var farið fram á undanþágu frá búsetuskilyrði 3. gr. reglnanna. Umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur var synjað með bréfi, dags. 9. nóvember 2012, þar sem hún uppfyllti ekki undanþágu frá búsetuskilyrði reglnanna. Kærandi hafði ekki búið áður í sveitarfélaginu auk þess sem hún var talin hafa gott stuðningsnet og í raun væru ekki til staðar neinir félagslegir erfiðleikar fyrir utan fjárhagserfiðleika.

 

Í lögum um húsaleigubætur er að finna almenn ákvæði um rétt til húsaleigubóta. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skulu sveitarfélög greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir að jafnaði afgreiðslu umsókna. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna setur ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, ákvæði í reglugerð um útreikning og fjárhæð bóta, þar á meðal um grunnfjárhæðir bóta. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna skal sveitarstjórn taka ákvörðun fyrir 1. nóvember ár hvert um fjárhæðir húsaleigubóta á næsta ári sem geta verið hærri en grunnfjárhæðir sem ráðherra setur í reglugerð. Samkvæmt 21. gr. laganna setur ráðherra með reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og það ráðuneyti er fer með sveitarstjórnarmál, nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þar á meðal varðandi umsókn um húsaleigubætur og um framkvæmd, útreikning og greiðslu húsaleigubóta. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, með síðari breytingum, annast sveitarfélög framkvæmd laga um húsaleigubætur. Lög um húsaleigubætur veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf fjárhæðir húsaleigubóta umfram þær grunnfjárhæðir sem ráðherra setur í reglugerð sem og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt sem ekki koma fram í lögum um húsaleigubætur. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um sjálfsstjórn sveitarfélaga er matið að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Samkvæmt 2. gr. reglna um sérstakar húsaleigubætur í Sandgerðisbæ, Garði og Vogum eru sérstakar húsaleigubætur ætlaðar þeim einstaklingum og fjölskyldum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Að jafnaði eru sérstakar húsaleigubætur fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu á almennum markaði umfram almennar húsaleigubætur. Í 3. gr. reglnanna er kveðið á um skilyrði fyrir því að umsókn verði gild. Þar segir að við vinnslu umsóknar skuli leita upplýsinga, meðal annars um félagslegar aðstæður, lögheimili, tekjur og eignir. Þarf umsækjandi að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði til að umsókn öðlist gildi:

 

a)      Umsækjandi hefur ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði.

b)      Umsækjandi uppfyllir öll skilyrði um almennar húsaleigubætur og hefur sótt um þær.

c)      Umsækjandi skal hafa átt lögheimili í a.m.k. þrjú ár samfellt í viðkomandi sveitafélagi þegar umsókn berst.

d)      Eignir og tekjur umsækjanda miðast við hámarksupphæðir skv. nýjustu skattaskýrslu. Eignir og tekjur umsækjanda miðast við eftirfarandi hámarksupphæðir: Eignarmörk eru kr. 2.390.000. Tekjumörk eru kr. 2.149.000 fyrir einhleyping en kr. 2.516.00 fyrir hjón og sambúðarfólk, auk þess kr. 329.000 fyrir hvert barn á framfæri innan 18 ára. Heimilt er að taka tillit til skuldastöðu/greiðslubyrði umsækjanda.

e)      Umsækjendur skulu vera orðnir 18 ára á umsóknardegi.

f)        Umsækjandi býr við félagslega erfiðleika.

g)      Umsækjandi þarf að velja á milli þess að þiggja sérstakar húsaleigubætur eða að vera á biðlista/þiggja félagslegt húsnæði á vegum Sandgerðisbæjar og Garðs.

 

Í 4. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágur frá skilyrðum 3. gr. reglnanna varðandi lögheimili og tekjuviðmið, sem og g-liðar í eftirfarandi tilvikum:

 

Undanþága frá lögheimili:

a)      Umsækjandi hefur búið í Sandgerðisbæ, Garði eða Vogum en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda.

 

Undanþága frá g-lið og lögheimili og/eða tekjuviðmiði:

b)      Umsækjandi er samkvæmt faglegu mati starfsmanns Félagsþjónustu í mjög miklum félagslegum erfiðleikum.

 

Að mati sveitarfélagsins uppfyllti kærandi öll skilyrðin í 3. gr. fyrir utan c-lið þar sem kærandi hafði ekki átt lögheimili í a.m.k. þrjú ár samfellt hjá sveitarfélaginu. Kærandi óskaði eftir undanþágu frá skilyrði um þriggja ára búsetu í sveitarfélaginu í greinargerð sem lögð var fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd, dags. 8. nóvember 2012. Óskaði kærandi eftir því að tekið væri til greina að hún hafi verið með tekjur um eða undir viðmiðunartekjum síðustu tíu mánuði og að staða hennar myndi ekki breytast í bráð. Ráðstöfunartekjur hennar hafi verið mjög lágar til langs tíma og því ætti hún í miklum fjárhagserfiðleikum. Umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur var synjað um með bréfi, dags. 9. nóvember 2012, þar sem hún uppfyllti ekki undanþágu frá búsetuskilyrði reglnanna. Kærandi kveðst nauðsynlega þurfa á sérstökum húsaleigubótum að halda. Kærandi kveðst vera óvinnufær, ólétt og í námi. Kærandi kveðst eiga von á barni 24. desember 2012 og sjái ekki fram á að eiga fyrir mat út mánuðinn fyrir sig og barnið sitt en kærandi kveðst vera einstæð. 

 

Í c-lið 3. gr. reglnanna kemur fram að umsækjandi skuli hafa átt lögheimili í a.m.k. þrjú ár í viðkomandi sveitarfélagi þegar umsókn berst. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá flutti kærandi í Sveitarfélagið Voga 1. desember 2011. Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði c-liðar 3. gr. reglna um sérstakar húsaleigubætur í Sandgerðisbæ, Garði og Vogum þar sem hún hefur ekki átt lögheimili í Vogunum síðustu þrjú ár samfleytt áður en hún lagði fram umsókn um sérstakar húsaleigubætur.

 

Samkvæmt a-lið 4. gr. reglnanna er heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði c-liðar 3 gr. um lögheimili hafi umsækjandi búið í sveitarfélaginu áður en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur kærandi ekki búið áður í Vogunum og því uppfyllir kærandi ekki skilyrði a-liðar 4. gr. varðandi undanþágu frá búsetuskilyrði reglnanna.

 

Samkvæmt b-lið 4. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá g-lið og lögheimili og/eða tekjuviðmiði ef umsækjandi samkvæmt faglegu mati starfsmanns félagsþjónustu er í mjög miklum félagslegum erfiðleikum. Kemur þá til skoðunar hvort kærandi eigi við mikla félagslega erfiðleika að stríða. Við mat á félagslegum erfiðleikum er notast við leiðbeiningarreglur sem hafðar eru að leiðarljósi. Samkvæmt leiðbeiningarreglunum er litið til framfærslu, eigna, framfærslubyrði, stöðu á vinnumarkaði, menntunarstöðu og möguleika til náms, hjúskaparstöðu, stuðningsnets, heilsufars og húsnæðisaðstæðna. Við mat á félagslegum erfiðleikum fer fram heildarmat á þessum þáttum í samræmi við 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem segir að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Er þá fyrst og fremst horft til þess hvernig möguleikar umsækjanda eru á því að sjá sér fyrir húsnæði.

 

Að mati starfsmanns félagsþjónustunnar var kærandi með gott stuðningsnet og taldi viðkomandi að í raun hafi ekki verið til staðar neinir félagslegir erfiðleikar fyrir utan fjárhagserfiðleika. Í gögnum málsins er hvorki að finna gögn sem styðja þá niðurstöðu né frekari rökstuðning fyrir þessu mati. Það er því mat nefndarinnar að mat sveitarfélagsins á félagslegum erfiðleikum kæranda, sbr. b-lið 4. gr. reglnanna, hafi ekki verið fullnægjandi. Í gögnum málsins kemur ekki fram á hvaða grundvelli starfsmaður félagasþjónustunnar mat kæranda með gott stuðningsnet auk þess sem ekki er tekin afstaða til annarra þátta sem koma til skoðunar við mat á félagslegum erfiðleikum. Þá vekur úrskurðarnefndin einnig athygli á því að í greinargerð, dags. 5. nóvember 2012, sem lögð var fyrir fjölskyldu- og velferðarnefnd, dags. 8. nóvember 2012, kemur fram að kærandi hafi uppfyllt öll skilyrði 3. gr. varðandi sérstakar húsaleigubætur utan eitt þar sem kærandi hafði ekki búið í sveitarfélaginu í a.m.k. þrjú ár samfellt. Í því sambandi bendir nefndin á að skv. f-lið 3. gr. er eitt af skilyrðum þess að umsækjandi eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum það að umsækjandi búi við félagslega erfiðleika. Var kærandi því talinn uppfylla skilyrði 3. gr. um félagslega erfiðleika en ekki skilyrði b-liðar 4. gr. um mjög mikla félagslega erfiðleika. Ekkert mat liggur fyrir í málinu varðandi þann stigsmun sem er á milli félagslegra erfiðleika og mikilla félagslegra erfiðleika. Í ljósi þessa telur nefndin ekki upplýst hvort kærandi falli undir skilyrði b-liðar 4. gr. reglnanna um mikla félagslega erfiðleika.

 

Tekið skal fram að sveitarfélagið hefur á grundvelli heimildar 4. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur ákveðið að greiða sérstakar húsaleigubætur og sett sér reglur þar að lútandi. Sveitarfélögum er ekki skylt að greiða sérstakar húsaleigubætur og í lögum um húsaleigubætur er eingöngu kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu almennra húsaleigubóta. Ekki verður séð að sveitarfélaginu sé óheimilt að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu sérstakra húsaleigubóta en þau skilyrði sem löggjafinn hefur sett fyrir greiðslu almennra húsaleigubóta. Í máli þessu verður ekki talið ómálefnalegt að setja skilyrði um þriggja ára búsetu kæranda í sveitarfélaginu. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að synjun á umsókn kæranda um húsaleigubætur á grundvelli þess að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði 3. gr. reglnanna um þriggja ára búsetu hafi verið lögmæt. Hins vegar telur nefndin að mat sveitarfélagsins á því hvort kærandi uppfylli undanþágu frá búsetuskilyrði reglnanna vegna mikilla félagslegra erfiðleika, sbr. b-lið 4. gr., hafi ekki verið fullnægjandi. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort sú ákvörðun hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum.  

 

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að það sé tilefni til að upplýsa nánar um félagslegar aðstæður kæranda og er ekki talið unnt að bæta úr því á vettvangi úrskurðarnefndarinnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er því nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til sveitarfélagsins til löglegrar meðferðar.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að mat félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga á félagslegum aðstæðum kæranda hafi ekki fullnægt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun sveitarfélagsins, dags. 9. nóvember 2012, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                 Gunnar Eydal

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta