Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2013 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/2013

 Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Háskóla Íslands

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Háskóli Íslands auglýsti þann 7. desember 2012 laust starf ritstjóra Háskólaútgáfunnar. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Kærunefnd taldi að ekki lægi fyrir að kærandi hefði verið hæfari til starfsins en sá en ráðinn var. Heldur hallaði á karlmenn í störfum hjá Háskóla Íslands, þar með talið hjá Háskólaútgáfunni. Var því ekki talið að um brot hefði verið að ræða.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 28. ágúst 2013 er tekið fyrir mál nr. 2/2013 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 29. janúar 2013, kærði A ákvörðun Háskóla Íslands um að ráða karl í starf ritstjóra hjá Háskólaútgáfunni. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Háskóli Íslands brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 4. febrúar 2013. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 28. febrúar 2013, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 7. mars 2013.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 18. mars 2013, með athugasemdum við greinargerð kærða og var það kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 25. mars 2013. Engar athugasemdir bárust frá kærða vegna bréfs kæranda. Með bréfi, dagsettu 16. apríl 2013, óskaði kærunefndin eftir gögnum frá kærða og bárust þau með tölvupósti þann 22. apríl 2013. Með bréfi, dagsettu 3. júní 2013, óskaði kærunefndin eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kærða og bárust þau með bréfi, dagsettu 1. júlí 2013. Með bréfi, dagsettu 8. ágúst 2013, voru kæranda send gögn er bárust frá kærða með tölvupósti þann 22. apríl 2013 ásamt bréfi kærða, dagsettu 1. júlí 2013.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Kærði auglýsti starf ritstjóra hjá Háskólaútgáfunni á Starfatorgi þann 7. desember 2012 og rann umsóknarfrestur út þann 23. desember s.á. Í auglýsingu kom fram að óskað væri eftir ritstjóra er stýri gæðaeftirliti handrita útgáfunnar og ritrýni þeirra. Þá stýri ritstjóri forvinnslu handrita og annist yfirlestur og frágang þeirra til prentunar. Hann eigi jafnframt að vera tengiliður við höfunda, fræðiritstjóra og ritrýnendur. Helstu ábyrgðarþættir séu gæðastýring útgáfuverka, verkstýring ritrýniferla, samskipti við höfunda, fræðiritstjóra og ritrýnendur á forvinnslustigi, ritnefnd og Vísindasvið Háskóla Íslands, prófarkalestur, skipulagning forvinnslu handrita og tímaáætlana, samskipti við umbrotsfólk og aðra er koma að forprentvinnslu. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar menntunar- og hæfniskröfur: Háskólapróf, góð kunnátta í íslensku og ensku, góð kunnátta í helstu tölvuforritum og ritvinnslu, frumkvæði, nákvæmni og skipulagshæfni, þjónustulipurð og hæfni í mannlegum samskiptum, reynsla af bókaútgáfu og ritstjórn mikilvæg og reynsla af ritrýni bóka og skipulagningu útvistunar til verktaka.
  7. Alls bárust 24 umsóknir og var ákveðið að kalla þrjá umsækjendur í starfsviðtal, tvær konur og einn karl. Kærandi var ekki þar á meðal. Að því loknu var ákveðið að bjóða einum umsækjandanna, karlmanni, starfið sem hann þáði.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  8. Í kæru er að finna samanburð kæranda á rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni og ferilskrá hennar. Kærandi tekur fram að hún voni að við störf sín geti hún talist hafa tileinkað sér fagleg vinnubrögð og samstarf við ólíka aðila. Kærandi bendi á að í rökstuðningi komi ekki fram hvaða forritum sá er starfið hlaut hafi náð færni í og því hafi hún vart forsendur til að bera færni hans saman við tölvukunnáttu hennar. Kærandi veki þó athygli á því að um slíka kunnáttu hefði mátt spyrja í atvinnuviðtali. Í rökstuðningi hafi ekki verið tiltekið hvaða rannsóknir sá er starfið hlaut hafi stundað. Kærandi hafi fyrst fengist við rannsóknarvinnu í meistara- og doktorsnámi, þá í tveggja ára starfi sem lektor, síðan í þrjú ár á nýdoktorastyrk frá Rannís og loks í öðrum smærri verkefnum eftir að Rannísverkefninu lauk sumarið 2012. Hún hafi verið aðstoðarritstjóri Vísindavefsins í tvö ár á árunum 2000–2001, ritstjóri Hugar, sem sé ritrýnt tímarit um heimspeki ólíkt Heimspekivefnum sem sé ekki ritrýndur, einn af ritstjórum greinasafnsins Rechtstheorie, Beiheft 15: Recht, Gerechtigkeit und der Staat/Law, justice, and the state, sem komið hafi út árið 1993, hafi verið í ritnefnd ritsins Vísindavefur: ritgerðasafn til heiðurs Þorsteini Vilhjálmssyni sjötugum árið 2010, hafi verið í ritstjórn vefritsins knuz.is á árinu 2011 og sé nú annar af ritstjórum Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.
  9. Kærandi heldur því fram að hún hafi umtalsvert meiri reynslu af kennslu við háskóla en sá er starfið hlaut. Hún hafi kennt fjölda námskeiða við Háskóla Íslands, bæði á BA-stigi og á meistara- og doktorsstigi, hún hafi kennt námskeið á meistarastigi við Landbúnaðarháskóla Íslands á hverju ári síðan 2006, hafi kennt byrjendum í grunnháskólanámi við Cornell University og haldið fyrirlestra við Listaháskóla Íslands. Hún hafi ekki reynslu af kennslu við framhaldsskóla en bendi á að í auglýsingu um starfið hafi ekki verið tekið fram að slík reynsla væri nauðsynlegt skilyrði.
  10. Þá kveðst kærandi hafa eitthvað fengist við þýðingar á heimspekilegu efni en það sé trúlega í minna mæli en sá er hlaut starfið. Hins vegar geri hún ráð fyrir því að reynsla hennar af því að skrifa greinar á sviði heimspeki og á skyldum sviðum, ekki síst hvað ritrýnt efni varði, sé umtalsvert meiri en reynsla þess er starfið hlaut. Að lokum telji kærandi að í þeim störfum sem hún hafi stundað hljóti einnig að hafa reynt á mannleg samskipti, frumkvæði, nákvæmni og sjálfstæð vinnubrögð.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  11. Í athugasemdum kærða vegna kærunnar kemur fram sú afstaða að ráðning í hið auglýsta starf hafi ekki með neinum hætti brotið ákvæði laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eða aðrar réttarreglur sem um ráðningar opinberra starfsmanna gildi. Kærði rekur að í upphafi ráðningarferilsins hafi verið leitað álits hjá stjórnarformanni Háskólaútgáfunnar, B, sviðsforseta Hugvísindasviðs og C, sem kennt hafi í meistaranáminu, hagnýtri ritstjórn og útgáfu við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þeir hafi gefið ábendingar um þá umsækjendur sem þeir hafi talið öðrum fremur hæfa til að gegna starfinu og hafi lagt orðalag auglýsingarinnar til grundvallar.
  12. Kærði rekur að heildarmat og samanburður á hæfni allra umsækjenda hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að þrír umsækjendur, tvær konur og einn karl, hafi verið boðaðir í viðtal þann 12. janúar 2013 en kærandi hafi ekki verið í þeim hópi. Umræddir umsækjendur hafi verið taldir uppfylla best kröfur í auglýsingu og þarfir Háskólaútgáfunnar um reynslu af ritrýni, ritstjórn og fjölbreytta samskiptareynslu. Á grundvelli almennra stjórnunarheimilda telur kærði sig hafa heimild til að velja hverjir séu kallaðir til viðtals úr stórum hópi hæfra umsækjenda. Kærði tekur fram að hæfnisþættir þeir sem tilteknir hafi verið í auglýsingu hafi legið til grundvallar á heildarmati umsækjenda af hálfu kærða og niðurstaðan einróma.
  13. Kærði bendir á að umfangsmikil og fjölbreytt reynsla af ritstjórn og ritrýni hafi verið höfuðatriði við ráðninguna. Kærandi hafi vísað sérstaklega til menntunar sinnar, þ.e. doktorsprófs, en á það skuli bent að umrætt starf sé ekki akademískt starf heldur tilheyri stjórnsýslu kærða enda hafi ekki verið gerðar kröfur um doktorspróf. Þá hafi sérstök áhersla verið lögð á fjölbreytta reynslu af samskiptum við fólk. Það hafi verið samdóma álit þeirra sem að ráðningunni hafi staðið að reynsla þess er starfið hlaut væri mun víðtækari og fjölbreyttari en reynsla kæranda, þ.e. reynsla af samskiptum bæði utan og innan háskólasamfélagsins. Til grundvallar hafi legið málefnalegt mat óháð kyni umsækjenda. Kærandi hafi ekki verið ein þeirra sem helst hafi verið talin koma til greina í starfið þannig að valið hafi aldrei staðið milli hennar og þess sem starfið hlaut. Það hafi verið einróma niðurstaða þeirra sem að ráðningunni hafi komið að menntun þess sem starfið hlaut, starfsreynsla hans og fjölbreytt samskiptareynsla hafi fallið best að starfinu og þörfum Háskólaútgáfunnar.
  14. Vísað er til þess að í stjórnsýslu kærða séu konur í meirihluta starfa, meðal akademískra starfsmanna sé hlutfallið 677 konur og 593 karlar. Innan stjórnsýslu háskólans séu 257 konur og 135 karlar við störf. Lengst af hafi kynjahlutfallið hjá Háskólaútgáfunni verið nokkuð jafnt en um litla einingu sé að ræða þar sem að jafnaði starfi 3–4 starfsmenn. Í dag starfi tveir ritstjórar við útgáfuna, ein kona og einn karl, þ.e. sá sem starfið hlaut. Kærði tekur fram að við ráðningar sé byggt á jafnréttissjónarmiðum og tekið mið af jafnréttisstefnu og því alfarið hafnað að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 eða öðrum ákvæðum laganna.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  15. Kærandi telur að hún hafi sýnt fram á að hún hafi bæði meiri menntun og starfsreynslu á þeim sviðum sem tiltekin hafi verið í auglýsingu, þ.e. sem varði ritrýni, ritstjórn, fræðileg skrif og útgáfu. Í svari kærða komi ekkert fram sem véfengi þá staðhæfingu og engin mótrök færð fram þar að lútandi. Kærandi hafi ekki aðgang að starfsferilskrá þess er starfið hlaut og hafi því ekki fullar forsendur til samanburðar. Miðað við það sem fram hafi komið sé það helst starf hans hjá skrifstofu Alþingis sem sé eðlisólíkt þeirri reynslu sem hún hafi. Kærandi telur það vera á ábyrgð kærða að færa fram rök fyrir því að samskipti sem fylgi því starfi feli í sér fjölbreytni sem ekki fáist með þeim störfum sem hún hafi gegnt. Auk þess sé þessi tiltekna samskiptareynsla svo mikilvæg að hún hljóti að vega þyngra en sú menntun og ritstjórnarreynsla sem hún hafi óumdeilanlega fram yfir þann sem starfið hlaut, þannig að ekki hafi tekið því að boða hana í viðtal. Kærandi geri athugasemd við það mat kærða að þau samskipti sem fram fari í háskólaumhverfi séu síður fjölbreytt eða minna virði en þau sem eigi sér stað utan þess. Þá minnir kærandi á að starfið sé við fræðilega ritstjórn hjá háskólaútgáfu.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  16. Kærði bendir á að líkt og fram komi í umsóknargögnum þess sem ráðinn hafi verið, hafi hann starfað sem ritari þingmanna hjá Alþingi. Þar komi fram að í starfinu hafi reynt mikið á að leiða saman ólík sjónarmið og ná ásættanlegri niðurstöðu í mörgum erfiðum málum. Þetta hafi einnig verið ítrekað í atvinnuviðtali. Það hafi þótt vega þungt í mati við val á hæfasta umsækjandanum þar sem verkefni ritstjóra feli í sér samskipti við marga ólíka einstaklinga, sérstaklega þegar verið sé að meta rit eða verkefni til birtingar og útgáfu. Framangreind starfsreynsla hafi þannig haft áhrif við val á þeim sem starfið hlaut sem hæfasta umsækjandann um þetta tiltekna starf. Kærði vísi til þess að í auglýsingu um starfið hafi komið fram að helstu ábyrgðarþættir starfsins væru gæðastýring útgáfuverka, verkstýring ritrýniferla, samskipti við höfunda, fræðiritstjóra og ritrýnendur á forvinnslustigi, ritnefnd og Vísindasvið Háskóla Íslands, prófarkalestur, skipulagning forvinnslu handrita og tímaáætlana, samskipti við umbrotsfólk og aðra er komi að forprentvinnslu. Samkvæmt frekari upplýsingum frá forstöðumanni Háskólaútgáfunnar sé inntak starfsins fyrst og fremst mat á nýjum handritum, val á fræðiritstjórum og ritrýnum, eftirfylgni á úrvinnslu ritrýni og samskipti við höfunda og aðra sem að verkunum koma. Samskiptaþátturinn sé þannig mjög mikilvægur og þó margir umsækjendur um ritstjórastarfið hafi verið hæfir til að sinna hinum fræðilega þætti þessara verkefna hafi verið talið að sá sem starfið hlaut hafi haft umfangsmeiri og fjölbreyttari reynslu af slíkum samskiptum en aðrir umsækjendur. Háskólaútgáfan tilheyri miðlægri stjórnsýslu þar sem nú starfi 257 konur og 135 karlar eins og áður gat. Ritstjórar Háskólaútgáfunnar séu tveir, ein kona og einn karl. Lengst af hafi einvörðungu konur gegnt störfum ritstjóra. Önnur þeirra hafi hins vegar sagt starfi sínu lausu og sá er starfið hlaut ráðinn í hennar stað. Hann hafi þótt uppfylla best kröfur sem settar hafi verið fram í auglýsingu um starfið og í samanburði við þá þrjá hæfu umsækjendur sem til greina hafi komið. Ítrekað var að við ráðningar innan Háskóla Íslands sé byggt á jafnréttissjónarmiðum og mið tekið af jafnréttisstefnu skólans. Því sé því alfarið hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008.

    NIÐURSTAÐA
  17. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  18. Háskólaútgáfa Háskóla Íslands auglýsti 7. desember 2012 eftir ritstjóra. Gerð var grein fyrir því að verkefni ritstjóra væru að stýra gæðaeftirliti handrita útgáfunnar og ritrýni þeirra. Þá væri það hlutverk hans að stýra forvinnslu handrita og annast yfirlestur og frágang þeirra til prentunar. Ritstjóri væri jafnframt tengiliður höfunda, fræðiritstjóra og ritrýnenda. Helstu ábyrgðarþættir voru taldir gæðastýring útgáfuverka, verkstýring ritrýniferla, samskipti við höfunda, fræðiritstjóra og ritrýnendur á forvinnslustigi, ritnefnd og Vísindasvið Háskóla Íslands, prófarkalestur, skipulagning forvinnslu handrita og tímaáætlana, samskipti við umbrotsfólk og aðra sem koma að forprentvinnslu. Menntunar- og hæfniskröfur voru þær að ritstjóri þyrfti að hafa háskólapróf, búa að góðri íslensku- og enskukunnáttu og góðri kunnáttu í helstu tölvuforritum og ritvinnslu. Þá voru þeir eiginleikar sérstaklega skilgreindir að ritstjóri þyrfti að búa að frumkvæði, nákvæmni og skipulagshæfni, þjónustulipurð og hæfni í mannlegum samskiptum. Reynsla af bókaútgáfu og ritstjórn var metin mikilvæg auk þess sem reynsla af ritrýni bóka og skipulagningu útvistunar til verktaka var tiltekin.
  19. Kærði mun hafa leitað ráðgjafar stjórnarformanns Háskólaútgáfunnar og kennara í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Þeir tveir munu hafa gefið munnlegar ábendingar um þá umsækjendur sem þeir töldu best til þess fallna að gegna stöðunni með hliðsjón af orðalagi auglýsingar. Að sögn kærða leiddi síðan heildarmat og samanburður á hæfni allra umsækjenda til þess að þrír umsækjendanna voru boðaðir í viðtal, sá sem starfið hlaut og tvær konur. Kærandi var ekki þar á meðal. Skriflegum gögnum er ekki til að dreifa um nefnt mat en að sögn kærða voru þessi þrjú talin uppfylla best tilgreindar kröfur í auglýsingu og þar með þarfir Háskólaútgáfunnar um reynslu af ritrýni, ritstjórn og fjölbreytta samskiptareynslu. Að viðtölum loknum hafi það verið einróma niðurstaða þeirra sem að ráðningunnni komu að menntun, starfsreynsla og fjölbreytt samskiptareynsla þess sem ráðinn var hafi fallið best að hinu auglýsta starfi.
  20. Fyrir liggur að konur eru í meirihluta starfsmanna Háskóla Íslands og ber þar að sama brunni hvort sem litið er til heildarfjölda starfsmanna háskólans eða einvörðungu starfsmanna stjórnsýslu skólans. Þá liggur einnig fyrir að áður en umdeild ráðning átti sér stað gegndu tvær konur starfi ritstjóra Háskólaútgáfunnar. Standa því ekki rök til þess að reyni á skyldu kærða sem atvinnurekanda skv. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 í þágu kæranda.
  21. Hvað menntunarkröfur varðar, sem skilgreindar voru í auglýsingu, liggur fyrir að bæði kærandi og sá sem starfið hlaut búa að þeirri menntun sem eftir var sóst, háskólamenntun. Kærandi er með doktorspróf í heimspeki, sá sem starfið hlaut meistarapróf í heimspeki. Kærandi býr að meira námi en til þess ber að líta að sá sem ráðinn var fullnægir mjög vel þeim menntunarskilyrðum sem kærði lagði til grundvallar samkvæmt auglýsingu.
  22. Bæði kærandi og sá sem starfið hlaut höfðu annast ritstörf og ritstjórn. Af þeim gögnum sem fyrir liggja virðist reynsla kæranda vera heldur yfirgripsmeiri þó um eðlismun sé að ræða.
  23. Kærði hefur með vísan til efnis auglýsingarinnar sérstaklega vísað til þess að það sem ráðið hafi úrslitum við ráðningu hafi verið reynsla þess er starfið hlaut sem ritari þingmanna á skrifstofu Alþingis. Þar hafi hann öðlast fjölbreytta reynslu af samskiptum við fólk en í því starfi hafi reynt mikið á að leiða saman ólík sjónarmið og ná ásættanlegri niðurstöðu í erfiðum málum. Margir meðal umsækjenda hafi verið hæfir til að sinna fræðilegum þáttum þeirra verkefna sem ritstjórnarstarfið felur í sér en þessi tiltekni þáttur hafi skilið hann að frá öðrum umsækjendum.
  24. Þegar horft er til menntunar, reynslu af ritstjórn og samskiptahæfni, sýnast kærandi og sá sem starfið hlaut vera að minnsta kosti jafnhæf til að gegna ritstjórastarfi Háskólaútgáfu Háskóla Íslands. Þannig verður ekki fullyrt að kærandi hafi staðið framar þeim sem ráðinn var. Jafnframt ber til þess að líta að fremur hallar á karlmenn í störfum hjá Háskóla Íslands, þar með talið Háskólaútgáfunni. Með vísan til þess verður ekki talið að kærandi hafi leitt líkur að því að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Háskóli Íslands braut ekki gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar ritstjóri var ráðinn að Háskólaútgáfu Háskóla Íslands í janúar 2013. 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta