Mál nr. 103/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 103/2020
Miðvikudaginn 8. júlí 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 23. febrúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. febrúar 2020 um stöðvun á greiðslu mæðralauna til kæranda frá X 2018 og endurkröfu vegna tímabilsins X 2018 til X 2020.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greidd mæðralaun frá Tryggingastofnun ríkisins vegna tveggja barna sinna frá X 2014. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 18. febrúar 2020, var kæranda tilkynnt að frá X 2018 hefði stofnuninni ekki verið heimilt að greiða henni mæðralaun þar sem hún hefði verið skráð í hjúskap frá X 2018 og því yrðu greiðslurnar stöðvaðar. Þá hefði krafa verið stofnuð vegna ofgreiddra mæðralauna og með bréfi, dags. 31. mars 2020, var kæranda tilkynnt um greiðsludreifingu vegna skuldar hennar við stofnunina.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. mars 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer í fyrsta lagi fram á að að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. febrúar 2020 um stöðvun og endurkröfu mæðralauna verði felld úr gildi. Að öðrum kosti fer kærandi fram á að ákvörðunin verði felld úr gildi frá og með X 2019 þegar sambandi kæranda og eiginmanns hennar lauk.
Í kæru segir að kærandi hafi verið ein um fjárhagslega framfærslu og ábyrgð vegna barna sinna síðan hjúskapur hófst. Kærandi hafi ein séð um greiðslur fyrir allt matartengt í skóla og frístundum, fyrir fatnað, skó og allar nauðsynjar, auk þess að hafa ein greitt fyrir allar tómstundir. Þar að auki hafi hún verið ein með börnin þar sem hjúskaparaðili sé í X í X og hún hafi unnið að meðaltali X klst. á mánuði. Því hafi hann ekkert getað hlaupið undir bagga með henni, hvorki í formi samvista með börnunum né fjárhagslega. Sambandinu hafi lokið formlega X 2019 og lögskilnaður verið veittur X 2020.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að með bréfi, dags. 18. febrúar 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að frá 1. maí 2018 hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að greiða kæranda mæðralaun með tveimur börnum hennar því að þann X 2018 hafi kærandi gengið í hjúskap. Því hafi greiðslur verið stöðvaðar frá þeim tíma og krafa mynduð að fjárhæð 137.097 kr. vegna tímabilsins X 2018 til X 2020. Kæranda hafi verið veittur frestur til að andmæla en engin andmæli hafi borist fyrr en nú með kæru.
Samkvæmt 2. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 sé heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára á framfæri og séu búsett hér á landi.
Í reglugerð nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun, séu nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Í 7. gr. reglugerðarinnar komi fram að greiðslur stöðvist í lok þess mánaðar sem einstætt foreldri gangi í hjúskap, hefji óvígða sambúð við fyrri sambýlisaðila eða foreldri þeirra barna sem greitt sé vegna.
Í 55. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.
Í 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi og þá segi í 13. gr. sömu laga að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Tryggingastofnun hafi greitt kæranda mæðralaun með sonum hennar frá X 2014. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi gengið í hjúskap þann X 2018.
Mæðralaun séu greiðslur til einstæðra foreldra sem hafi börn sín á framfæri. Stöðva skuli greiðslur fyrsta næsta mánaðar eftir að móttakandi greiðslna gangi í hjúskap. Þar sem kærandi hafi gengið í hjúskap í X 2018 hafi stofnuninni borið að stöðva greiðslur til kæranda og endurkrefja hana um ofgreiddar greiðslur frá þeim tíma, sbr. framangreind laga- og reglugerðarákvæði. Tryggingastofnun hafi enga heimild til að taka til greina það sem komi fram í kæru um að kærandi hafi ein séð um framfærslu barnanna þar sem eiginmaður hennar hafi verið í námi erlendis.
Í kæru komi fram að nú sé kærandi skilin við eiginmann sinn og bendi Tryggingastofnun því kæranda á að hún þurfi að sækja um greiðslu mæðralauna að nýju ef þess sé óskað.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu mæðralauna til kæranda frá 1. maí 2018 og endurkröfu vegna tímabilsins X 2018 til X 2020.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir:
„Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. [...]“
Í 3. mgr. ákvæðisins segir:
„Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. 49. gr. laga um almannatryggingar. Nú skráir viðtakandi launanna sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá launin strax niður.“
Í 6. gr. reglugerðar nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun er tiltekið að greiðslur mæðra- og feðralauna stöðvist í lok þess mánaðar sem skilyrði fyrir greiðslum eru ekki lengur uppfyllt. Í 7. gr. reglugerðarinnar er tiltekið að greiðslur stöðvist í lok þess mánaðar sem einstætt foreldri gengur í hjúskap, hefur óvígða sambúð eða staðfesta samvist við fyrri sambýlisaðila eða foreldri þeirra barna sem greitt er vegna.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.
Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:
„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi stofnaði til hjúskapar X 2018 og lauk honum með útgáfu leyfis til lögskilnaðar X 2020. Kærandi fékk þó greidd mæðralaun á því tímabili frá Tryggingastofnun ríkisins.Tryggingastofnun stöðvaði greiðslur mæðralauna frá X 2018 til kæranda á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki 1. mgr. 2. gr. laga um félagslega aðstoð um að vera einstætt foreldri þar sem hún hafði gengið í hjúskap. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skulu mæðralaun falla strax niður þegar viðtakandi þeirra gengur í hjúskap.
Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að þar sem kærandi gekk í hjúskap X 2018 hafi hún ekki átt rétt á mæðralaunum frá X 2018. Með stofnun hjúskaparins taldist hún ekki lengur einstætt foreldri í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga um félagslega aðstoð og uppfyllti hún þarf af leiðandi ekki skilyrði fyrir greiðslu mæðralauna samkvæmt ákvæðinu. Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins greiddi kæranda mæðralaun vegna tímabilsins X 2018 til X 2020, þrátt fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði ákvæðis 2. gr. laga um félagslega aðstoð fyrir greiðslum. Kærandi bar skyldu til að tilkynna um breytingar á aðstæðum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 13. gr. laga um félagslega aðstoð. Var því Tryggingastofnun rétt að stöðva greiðslur til kæranda frá og með X 2018. Þá á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar, vegna ofgreiddra mæðralauna, og krafa, dags. 18. febrúar 2020, á hendur kæranda er því réttmæt.
Varðandi varakröfu kæranda um að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi frá og með X 2019 þegar sambandi hennar og eiginmannsins lauk að sögn kæranda, er bent á að í a-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun segir að með einstæðu foreldri sé átt við foreldri sem skilið sé við maka sinn að borði og sæng eða að lögum. Með hliðsjón af framangreindu telst kærandi ekki einstæð fyrr en eftir skilnað að borði og sæng eða lögskilnað. Kæranda var veittur lögskilnaður þann X 2020. Ekki er tilgreint í gögnum málsins að áður hafi verið veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Því var hún ekki einstæð í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/2007 fyrr en á þeim degi sem lögskilnaður var veittur, þó svo að sambandi kæranda og eiginmanns hennar kunni að hafa verið lokið fyrir það tímamark.
Kærandi byggir jafnframt á því að hún hafi ein staðið straum af framfærslu barna sinna. Ákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna er fortakslaust og ekki er þar heimild fyrir að finna um að víkja megi frá skýru orðalagi ákvæðisins um að mæðra- og feðralaun skuli falla niður þegar við stofnun hjúskapar. Því er ekki heimilt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu mæðralauna til kæranda frá X 2018 og endurkröfu vegna tímabilsins X til X 2020 staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu mæðralauna til A, frá X 2018 og endurkröfu vegna tímabilsins X 2018 til X 2020, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir