Hoppa yfir valmynd
14. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 105/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 105/2020

Fimmtudaginn 14. maí 2020

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjanesbæjar, dags. 3. febrúar 2020, á umsókn um stuðningsfjölskyldu fyrir barn hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var með samþykkta tvo sólarhringa á mánuði í stuðningsfjölskyldu fyrir barn sitt frá apríl til desember 2019. Með erindi, dags. 15. janúar 2020, óskaði kærandi eftir endurnýjun á þeirri samþykkt. Með bréfi velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dags. 3. febrúar 2020, var beiðni kæranda synjað. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi velferðarsviðs, dags. 19. febrúar 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 25. febrúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. mars 2020, var óskað eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 1. apríl 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. apríl 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um stuðningsfjölskyldu hafi verið synjað. Áður hafi kærandi fengið undanþágu á þeirri forsendu að hún væri einstæð móðir með lítið sem ekkert bakland. Kærandi tekur fram að dóttir hennar sé á biðlista eftir greiningu og hafi verið það í meira en tvö ár. Umsókn kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að barn hennar uppfylli ekki skilyrði um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi í mars 2019 óskað eftir stuðningsfjölskyldu fyrir barn sitt. Umsókninni hafi verið synjað þar sem hún samræmdist ekki reglum velferðarsviðs. Kærandi hafi fengið upplýsingar um synjunina munnlega ásamt leiðbeiningum um áfrýjunarleið sem hún hafi viljað nýta sér. Erindi kæranda hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd þann 16. apríl 2019, sbr. bréf dagsett 9. apríl 2019, og hafi verið samþykkt stuðningsfjölskylda, tveir sólarhringar í mánuði til 31. desember 2019. Samningur um það hafi verið gerður 27. júní 2019. Í september 2019 hafi kærandi óskað eftir að fá fleiri sólarhringa í mánuði, eða alls fjóra til sex. Þann 11. september 2019 hafi kærandi skrifað undir rökstuðning fyrir þörf á fleiri sólarhringum í mánuði. Erindið hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd þann 18. september 2019, sbr. bréf dagsett 13. september 2019. Erindinu hafi verið synjað og kæranda verið sent bréf þess efnis, dags. 20. september 2019. Þann 23. september 2019 hafi kærandi óskað eftir og rökstutt þörf fyrir þrjá sólarhringa á mánuði. Erindi kæranda hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd þann 16. október, sbr. bréf dagsett 11. október 2019. Erindinu hafi verið synjað og kæranda hafi verið sent bréf þess efnis, dags. 22. október 2019.

Í ársbyrjun 2020 hafi kærandi óskað eftir endurnýjun á samþykki fyrir stuðningsfjölskyldu. Erindið hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd 17. janúar 2020, sbr. bréf dagsett 15. janúar 2020. Erindinu hafi verið frestað og óskað eftir viðbótarupplýsingum. Erindið hafi farið aftur fyrir áfrýjunarnefnd þann 30. janúar 2020, sbr. bréf dagsett 28. janúar 2020, en verið synjað og kæranda sent bréf þess efnis, dags. 3. febrúar 2020. Í skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðuninni komi fram að umsókninni hafi verið synjað á grundvelli þess að barn kæranda uppfylli ekki skilyrði fyrir þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Ráðgjafa hafi verið falið að meta þörf fyrir þjónustu á grundvelli VII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ráðgjafi sé að meta þarfir barnsins og það sé verið að skoða liðveislu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjanesbæjar á umsókn kæranda um stuðningsfjölskyldu fyrir barn hennar. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að barnið uppfyllti ekki skilyrði fyrir þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Á tímabilinu apríl til desember 2019 var kærandi með samþykkta tvo sólarhringa á mánuði í stuðningsfjölskyldu fyrir barn sitt. Sú samþykkt var á grundvelli umsóknar kæranda frá 22. mars 2019 þar sem fram kom að barn hennar væri ekki fatlað. Barnið væri í greiningarferli en kærandi væri einstæð og ekki með neitt bakland. Í kjölfar áfrýjunar til velferðarráðs Reykjanesbæjar var samþykkt að veita undanþágu frá grein 8.4.1. í reglum Reykjanesbæjar um stuðningsfjölskyldu  sem kveður á um að fjölskyldur fatlaðra barna sem séu með umönnunarmat frá Tryggingastofnun ríkisins í flokki 1-3 eigi kost á stuðningsfjölskyldu. Þá var gerður samningur um þjónustu stuðningsfjölskyldu á grundvelli 15. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem kveður á um rétt fjölskyldna fatlaðra barna til stuðningsfjölskyldu.

Með erindi, dags. 15. janúar 2020, óskaði kærandi eftir endurnýjun á þeirri samþykkt sem hún hafði fengið á árinu 2019 en ekki liggur fyrir formleg umsókn þess efnis. Samkvæmt gögnum málsins var barn kæranda þá enn í greiningarferli og ætla má að umsókn hafi verið lögð fram á sömu forsendum og áður, þ.e. að ekki væri um fatlað barn að ræða. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður því ekki séð að kærandi hafi eingöngu verið að óska eftir aðstoð á grundvelli laga nr. 38/2018.

Í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er með félagsþjónustu átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars vegna málefna barna og ungmenna. Í VII. kafla laga nr. 40/1991 er fjallað um stuðningsþjónustu. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 26. gr. laganna skal sveitarfélag sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Þá skal aðstoð veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Í 27. gr. laga nr. 40/1991 er kveðið á um mat á stuðningsþörfum. Þar segir að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili sem fari með stuðningsþjónustu meta þörf í hverju einstöku tilviki. Læknisvottorð skuli liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður sé að ræða. Sé stuðningsþörf vegna fötlunar meiri en svo að henni verði mætt með þjónustu eða aðstoð samkvæmt VII. kafla skuli stuðningur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma til viðbótar og þjónustan samþætt í þágu notanda, sbr. 2. mgr. 27. gr.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar Reykjanesbæ einnig að leggja mat á umsókn kæranda á grundvelli framangreindra lagaákvæða í ljósi þess að barn kæranda var enn í greiningarferli og fjölskylduaðstæður kæranda með þeim hætti að ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga áttu að koma til skoðunar, enda bar umsókn með sér að óskað væri eftir aðstoð á grundvelli félagslegra aðstæðna. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að synjun á umsókn kæranda um stuðningsfjölskyldu hafi ekki verið reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Reykjanesbæjar á umsókn A um stuðningsfjölskyldu fyrir barn hennar er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta