Yfir 93% Íslendinga telja mannréttindi mikilvæg
Í tengslum við vinnu við kortlagningu á stöðu mannréttinda á Íslandi lét forsætisráðuneytið Maskínu gera skoðanakönnun um þekkingu og viðhorf almennings til mannréttinda.
Af niðurstöðum könnunarinnar má ráða að þekkingu almennings á mannréttindum sé töluvert ábótavant þrátt fyrir jákvætt viðhorf til mannréttinda. Í könnuninni kom í ljós að svarendur telja mannréttindaeftirliti ekki nægjanlega vel sinnt en einungis rúm 30% að mannréttindaeftirliti sé vel sinnt á Íslandi.
Tæp 93% almennings þykja mannréttindi mikilvæg til að skapa réttlátara samfélag sem er sambærilegt viðhorfum í Evrópu. 93,4% Íslendinga eru ósammála því að mannréttindi séu tilgangslaus en það er mun hærri tala en í Evrópu þar sem 64% eru ósammála þeirri fullyrðingu. Þó eru aðeins 9,2% sem þekkja mannréttindakafla stjórnarskrár Íslands vel og í tilfelli Mannréttindasáttmála Evrópu er hlutfallið svipað eða 10,6%.
Kortlagning á stöðu mannréttinda er hluti af vinnu við Grænbók sem unnið er að í forsætisráðuneytinu samhliða vinnu við frumvarp um mannréttindastofnun sem forsætisráðherra áformar að leggja fram haustið 2023.