Hoppa yfir valmynd
4. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 349/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 349/2018

Þriðjudaginn 4. desember 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2018, um að synja umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 27. ágúst 2018, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2018. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. september 2018, var kærandi upplýst um að ráða mætti af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Kæranda var jafnframt leiðbeint um hvað teldist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a laganna og gefinn kostur á að leggja fram gögn því til staðfestingar. Kærandi lagði fram frekari gögn en með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hafi verið tekjulaus og ekki í ráðningarsambandi á tímabilinu 13. júní til 14. ágúst 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. október 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 11. október 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. október 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi starfað sem […] í grunnskóla síðastliðið skólaár. Á fyrsta starfsári sé eingöngu gerður tímabundinn ráðningarsamningur, eitt ár í senn, og hann endurnýjaður skriflega í byrjun næsta skólaárs, sé áhugi fyrir hendi. Slíkt fyrirkomulag gildi um alla nýja […] við skólann. Kærandi hafi lokið störfum 12. júní 2018 og þá gert munnlegan samning við skólastjóra skólans um áframhaldandi vinnu. Samningurinn hafi verið endurnýjaður 15. ágúst 2018. Skólastjórinn hafi haft samband við Fæðingarorlofssjóð og útskýrt hvers vegna ekki hafi verið gerður skriflegur samningur við kæranda fyrir tímabilið 13. júní til 15. ágúst 2018 og staðfest að munnlegt samkomulag hafi verið fyrir hendi um áframhaldandi ráðningu hennar. Að mati kæranda hafi hún verið í launalausu leyfi á umræddu tímabili vegna hins munnlega samkomulags. Það hafi skólastjóri skólans staðfest, bæði með símtali og tölvupósti. 

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til [sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og  lögum um slysatryggingar almannatrygginga], eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Væntanlegur fæðingardagur barns kæranda sé X 2018. Þar sem barn kæranda sé ófætt sé ekki annað unnt að svo stöddu en að miða ávinnslutímabil hennar sem starfsmanns frá X 2018 og fram að væntanlegum fæðingardegi. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Samkvæmt skrám Ríkisskattstjóra hafi kærandi fengið laun frá B í X, X, X og X 2018 en laun fyrir X liggi ekki fyrir í skrám skattyfirvalda og þá séu engin laun skráð í júlí. Samkvæmt ráðningarsamningum kæranda við B hafi hún verið í tímabundinni ráðningu frá X 2017 til 12. júní 2018 og aftur frá 15. ágúst til X 2018. Þá segi í staðfestingu skólastjóra C, dags. 21. september 2018, að kærandi hafi verið ráðin frá X 2017 til 12. júní 2018 en þá hafi sumarfrí hafist. Síðan segi að ástæða þess að kærandi hafi verið ráðin tímabundið til vors sé sú að það sé vinnuregla hjá skólanum að ráða [...] tímabundið fyrsta árið fram að sumarfríi en endurnýja ráðningarsamning þeirra eftir sumarfrí. Skólastjóri og kærandi hafi sammælst um að hún kæmi aftur til starfa eftir sumarfrí þann 15. ágúst og myndi starfa fram að fæðingu barns. Þannig liggi ótvírætt fyrir að kærandi hafi ekki verið í ráðningarsambandi við B á tímabilinu 13. júní til 14. ágúst 2018 og því ekki í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli sem starfsmaður á því tímabili, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000.

Þá komi til skoðunar hvort einhver stafliða 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 geti átt við í tilviki kæranda tímabilið 13. júní til 14. ágúst 2018. Þar sem kærandi hafi ekki verið í ráðningarsambandi við B á tímabilinu geti stafliður a um ólaunað orlof eða leyfi ekki átt við um aðstæður hennar eins og hún fari fram á í kæru sinni. Breyti þá engu hvort samtal hafi átt sér stað á milli kæranda og vinnuveitanda um að hún kæmi aftur til starfa að afloknum sumarfríum þann 15. ágúst og myndi starfa fram að fæðingu barnsins. Þá liggi fyrir vottorð og staðfesting frá Vinnumálastofnun um að kærandi hafi klárað bótarétt sinn í X 2017 og eigi því ekki rétt til atvinnuleysisbóta á umræddu tímabili. Í samræmi við það geti stafliður b ekki heldur átt við og þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a laganna geti átt við um aðstæður kæranda.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi þannig skýrt fyrir að á tímabilinu 13. júní til 14. ágúst 2018 uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 13. gr. a og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 og því sé ekki  unnt annað en að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Þá kemur fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Væntanlegur fæðingardagur barns kæranda var X 2018. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2018 og fram að væntanlegum fæðingardegi. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði, í skilningi 1. mgr. 13. gr. a laganna, á því tímabili. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu 13. júní til 14. ágúst 2018.

Í málinu liggja fyrir tveir ráðningarsamningar á milli kæranda og B, dags. 10. október 2017 og 14. ágúst 2018. Í þeim fyrri kemur fram að um tímabundna ráðningu sé að ræða frá X 2017 til 12. júní 2018. Í þeim síðari kemur einnig fram að um tímabundna ráðningu sé að ræða frá 15. ágúst til X 2018. Kærandi kveðst hafi verið í launalausu leyfi á tímabilinu 13. júní til 14. ágúst 2018 og vísar til munnlegs samkomulags á milli hennar og C um að hún myndi koma aftur til starfa eftir sumarfrí. Þar sem kærandi var ekki í ráðningarsambandi við B á tímabilinu 13. júní til 14. ágúst 2018 getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að hún hafi verið í launalausu leyfi, sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. ffl.

Samkvæmt launaseðli kæranda, dags. 1. júlí 2018, fyrir júnímánuð 2018 fékk hún greidd laun fyrir tímabilið 1. til 12. júní 2018 sem og orlofsuppgjör.

Í 1. gr. laga nr. 30/1987 um orlof kemur fram að allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eigi rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum laganna. Tekið er fram í 2. mgr. 3. gr. laganna að orlofsárið, þ.e. sá tími sem unnið er til orlofslauna, sé frá 1. maí til 30. apríl. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram sú meginregla að orlof skuli veitt í einu lagi á tímabilinu 2. maí til 15. september en atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt, sbr. upphafsmálslið 5. gr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. á launþegi rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári. Launþega skulu greidd orlofslaun í samræmi við reiknireglu 2. mgr. 7. gr. næsta virkan dag fyrir töku orlofs, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 8. gr. kemur fram að ljúki ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda skuli vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans. Ljóst er að kærandi fékk útgreidd áunnin orlofslaun í júlí 2018 í kjölfar starfsloka 12. júní 2018. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Fæðingarorlofssjóði að kanna hver áunnin orlofsréttur kæranda var og hvaða áhrif þau orlofslaun sem kærandi fékk greidd hefðu á framangreint sex mánaða viðmiðunartímabil.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ljóst er að Fæðingarorlofssjóður gætti ekki að þeirri lagaskyldu sinni áður en ákvörðun um synjun var tekin. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sjóðsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. september 2018, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sjóðsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta