Íslandsstofa fundar um ferðamál með fjölmiðlum í sendiráðinu í Nýju-Delhí
Sendiráð og Íslandsstofa kynna Íslandsferðir í Bombay.
Áhugi Indverja á ferðum til Íslands kom glögglega í ljós í heimsókn á vegum Íslandsstofu til Bombay og Delhi 4. – 7. september. Þetta var fyrsta skipulagða heimsókn til Indlands á vegum Íslandsstofu síðan COVID-19 farsóttin skall á og gott merki þess, að bjartar horfur eru í samskiptum þjóðanna í ferðamennsku og viðskiptum. Kristín Anna Tryggvadóttir staðgengill sendiherra og Þorleifur Þór Jónsson verkefnastjóri ferðaþjónustu (fjarmarkaðir) hjá Íslandsstofu kynntu ferðamannalandið Ísland á morgunverðarfundi á Sofitel hótelinu. Vel var mætt og komu um sextíu manns á fundinn og hlýddu á ýmsar kynningar. Í för með Þorleifi voru ýmsir aðilar úr ferðaþjónustu á Íslandi og átt þeir fundi með einstökum fyrirtækjum. Dagskráin var skipulögð í samvinnu Íslandsstofu, sendiráðsins í Nýju-Delhí og Vineet Gopal framkvæmdastjóra sambands ferðaskrifstofa á Indlandi (Outbound Tour Operators Association of India, OTOAI). Indverjar eyða nú meira fé í ferðalög erlendis en nokkru sinni fyrir, samkvæmt UNWTO, eða 596 milljónum í fyrra. Búist er við því að þetta fari vaxandi á næstu árum.
Fulltrúum fjölmiðla, sem fjalla um ferðamál, var boðið til upplýsingafundar um ferðamannalandið Ísland í sendiráðinu í Nýju-Delhí 7. september. Kristín Anna Tryggvadóttir staðgengill sendiherra opnaði fundinn og Þorleifur Þór Jónsson verkefnastjóri hjá Íslandsstofu kynnti ferðamöguleika. Fundinn sóttu nær 20 fulltrúar helstu fjölmiðla á þessu sviði og sýndu mikinn áhuga á Íslandi. Fundurinn var haldinn í samvinnu við samband ferðaskrifstofa á Indlandi (Outbound Tour Operators Association of India, OTOAI).
Um kvöldið sama dag bauð Guðni Bragason sendiherra um 100 fulltrúum frá ferðaskrifstofum, gistiþjónustunni og samtökum aðila í ferðaþjónustunni í Delhí til móttöku í sendiherrabústað. Gafst þá gott tækifæri til að afla sambanda og skiptast óformlega á upplýsingum og skoðunum. Kom m. a. fram, að viðskiptavinir þeirra, sem áhuga hafa á Íslandi eru reiðubúnir að kaupa góða þjónustu í ferðalögum sínum. Í ávarpi sínu sagði sendiherra m. a. að heimsóknin frá Íslandsstofu væri merki þess að ferðamennska á milli landanna væri að færast í eðlilegt horf. Þorleifur kynnti Íslands sem ferðamannaland.