Gripið verði til aðgerða gegn einelti í skólum og á vinnustöðum
30 tillögur að samhæfðum aðgerðum gegn einelti í skólum og á vinnustöðum eru settar fram í skýrslu starfshóps sem þrjú ráðuneyti, þar á meðal heilbrigðisráðuneytið, skipuðu í fyrra.
Meðal aðgerða sem lagt er til að ráðist verði í og heilbrigðisráðuneytið tekur þátt í er tilraunaverkefni nokkurra heilsugæslustöðva um stuðning við þolendur eineltis.
Starfshópur ráðuneytanna hefur lagt til að sérstakur dagur verði árlega helgaður baráttu gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Þá er lagt til að komið verði á fót fagráði sem almennir vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til þegar koma upp erfið og illleysanleg eineltismál.
Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að styðja sérstaklega við aðgerðirnar með því að leggja þeim til 9 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu. Önnur verkefni sem lögð eru til í skýrslunni rúmast innan núverandi fjárlagaramma.
Starfshópurinn sem nú hefur skilað skýrslu hefur starfað í u.þ.b. eitt ár á vegum þriggja ráðuneyta, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum