Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2010 Heilbrigðisráðuneytið

9 milljónir í rannsókn á áhrifum eldgoss á heilsu

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu heilbrigðis-, umhverfis- og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um 9 milljóna króna framlag til rannsóknar á áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli á heilsu manna og dýra.

Óskað var eftir framlaginu vegna vinnu við gagnasöfnun á gossvæðinu sem fram á að fara í haust, en mikilvægt er að það náist svo gögnin glatist ekki.

Heilbrigðisráðherra skipaði í sumar stýrihóp sem vinna á vísindarannsókn á heilsufarslegum áhrifum eldgossins til langs tíma. Sérstaklega á að skoða þá sem búsettir eru í námunda við eldstöðina, en hópurinn kallar þá aðila til samstarfs sem hann telur þörf á.

Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða er formaður stýrihópsins. Hún segir að undirbúningur haustrannsóknarinnar, sem verður þverfræðileg, gangi mjög vel. Um þessar mundir sé verið að ganga frá umsókn til Vísindasiðanefndar vegna rannsóknarinnar.

Guðrún segir rannsóknina brýna. „Það er mikill hörgull á langtímarannsóknum, þar sem fylgst er með heilsufarsáhrifum yfir lengri tíma eftir náttúruhamfarir af þessu tagi. Mörg samfélög þar sem eldgos verða hafa ekki nógu sterka innviði til þess að rannsaka áhrifin, en það höfum við hér,” segir Guðrún.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta