Mál nr. 2/2019 - Úrskurður
Mál nr. 2/2019
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
íslenska ríkinu
Valdsvið. Frávísun.
Máli kæranda var vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem erindi hans fullnægði ekki lagaskilyrðum til að kærunefndin tæki það til efnislegrar meðferðar og kvæði upp úrskurð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 220/2017.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 4. júní 2019 er tekið fyrir mál nr. 2/2019 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með rafrænni kæru, sendri 24. mars 2019, kærði A, málsmeðferð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og dómstóla í málum er varða forsjárdeilu hans við barnsmóður sína. Nánar tiltekið fer kærandi fram á að kærunefndin rannsaki þau lögbrot sem hann hafi orðið fyrir af hálfu íslenska réttarkerfisins, bæði af hálfu sýslumanns og dómstóla, vegna kyns hans.
MÁLAVEXTIR OG MÁLSMEÐFERÐ
- Samkvæmt endurriti úr sifjamálabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 30. ágúst 2017, var ágreiningi kæranda og barnsmóður hans um forsjá, lögheimili og umgengni vísað til sáttameðferðar. Samkvæmt vottorði um sáttameðferð, dagsettu 2. október 2017, var staðfest að sættir hefðu ekki tekist. Með ákvörðun sýslumanns, dagsettri 5. október 2017, var beiðni kæranda um staðfestingu á breyttri skipan forsjár og lögheimilis vísað frá. Með sama bréfi var veittur frestur til þess að skila greinargerð og/eða gögnum í umgengnismáli. Af gögnum málsins verður ráðið að umgengnismálið var fellt niður með ákvörðun sýslumanns, dagsettri 19. október 2017. Með kæru, dagsettri 30. október 2017, kærði kærandi niðurstöðu sýslumanns til innanríkisráðuneytisins. Í úrskurði ráðuneytisins, sem kveðinn var upp 21. desember 2017, er rakið að dómsmál hafi þá þegar verið höfðað fyrir héraðsdómi um forsjá, lögheimili og umgengni við barn kæranda. Ljóst væri að meðferð stjórnsýslumálsins í aðdraganda útgáfu sáttavottorðs kæmi því til endurskoðunar fyrir dómstólum. Niðurstaða ráðuneytisins var því sú að hafna kröfu kæranda um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar sýslumanns um útgáfu sáttavottorðs. Þá felldi ráðuneytið úr gildi umþrætta ákvörðun sýslumanns, dagsetta 19. október 2017, og gerði sýslumanni að fresta málinu þar til dómsniðurstaða lægi fyrir.
- Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] var komist að þeirri niðurstöðu að barnsmóðir kæranda skyldi fara með forsjá barns þeirra og að lögheimili barnsins yrði hjá henni. Þá var kæranda gert að greiða barnsmóður sinni einfalt meðlag með barninu. Þessi niðurstaða var staðfest með dómi Landsréttar frá […], en þar var umgengni barnsins við kæranda ákveðin með nánar tilgreindum hætti.
- Í erindi sínu til kærunefndarinnar greinir kærandi frá því að hann hafi orðið fyrir réttindabrotum vegna kyns hans síðan barnsmóðir hans hafi numið barn þeirra á brott og haldið því ólöglega í […]. Við málsmeðferðina, bæði hjá sýslumanni og dómstólum, hafi honum verið gróflega mismunað út frá kyni. Sýslumaður hafi brotið lög og sleppt lögbundinni sáttameðferð. Flestir karlmenn sem vilji komast í forsjármál bíði mánuðum saman, jafnvel í eitt til tvö ár, en þar sem kona hafi óskað eftir því að sleppa sáttameðferð hafi sýslumaður samþykkt það. Þetta hafi haft í för með sér að úrskurður um umgengni hafi verið hafður af kæranda. Þá hafi sýslumaður blekkt hann til að skrifa undir, þótt hann hafi sagst vera nauðbeygður til þess og verið ósáttur með fyrirkomulagið, með loforði um að þetta yrði endurskoðað á næsta fundi. Þetta hafi verið skrifað í endurrit frá fundinum og sé því til skriflegt.
- Þar sem kærandi sé karlmaður hafi öll stjórnsýsla og dómstólar lagst á eitt við að eyðileggja réttarstöðu hans. Dómstólar hafi ekki einungis hunsað öll málsgögn sem hann hafi lagt fram heldur búið til ólögleg málsgögn sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og rökstutt niðurstöðu sína með vísan til þeirra. Hér sé um alvarlegt kynbundið misrétti að ræða. Dómstólar hafi neitað að vísa málinu frá þótt kærandi hafi ekki fengið lögbundna sáttameðferð, en það hafi eyðilagt réttarstöðu hans. Þeir hafi neitað að rétta hlut barnsins og af þeim sökum hafi því verið haldið frá lögheimili sínu. Það hafi þó verið til skamms tíma eftir bráðabirgðaúrskurð Landsréttar að barnið hafi notið jafnrar umgengni við foreldra sína. Hefði kærandi verið kona, hefði hann aldrei þurft að sæta slíkri meðferð. Dómarar hafi gengið svo langt í að mismuna kæranda út frá kyni að þeir hafi hunsað aðalvitni málsins, dómkvaddan matsmann, og öll sönnunargögn sem hafi sýnt fram á að barnið myndi njóta samvista við báða foreldra sína á Íslandi. Þess í stað hafi þeir búið til sönnunargögn til að réttlæta niðurstöður sínar sem hafi verið eftir hagsmunum móður en ekki hagsmunum barnsins, systur þess og föður.
- Með erindi, dagsettu 30. apríl 2019, fór kærunefndin þess á leit við kæranda að hann legði fram niðurstöðu innanríkisráðuneytis vegna fyrrgreindrar stjórnsýslukæru hans á málsmeðferð sýslumanns. Með tölvubréfi kæranda frá 13. maí 2019 bárust umbeðin gögn.
NIÐURSTAÐA
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Nánar er fjallað um réttarstöðu málsaðila við málsmeðferð fyrir nefndinni í 4. til 7. mgr. 5. gr. laganna.
- Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 220/2017 um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála skulu erindi sem berast nefndinni lögð fram á næsta fundi eftir að þau eru móttekin. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. skal nefndin taka til athugunar hvort erindi fullnægi lagaskilyrðum til að hljóta nánari athugun og meðferð. Sé svo ekki leiðir það til frávísunar málsins án kröfu. Jafnframt skal nefndin athuga hvort ágallar séu á erindum að öðru leyti. Sé málatilbúnaði svo áfátt er málinu vísað frá nefndinni við svo búið með úrskurði. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar að skorti á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn um efnisatriði kæru eða að mál eigi undir valdsvið nefndarinnar, eða leiði önnur lagaskilyrði til slíkrar niðurstöðu, þá skuli vísa málinu frá.
- Eins og áður segir fer kærandi fram á að kærunefnd jafnréttismála rannsaki meint lögbrot sem hann hafi orðið fyrir af hálfu íslenska réttarkerfisins, bæði af hálfu sýslumanns og dómstóla, vegna kyns hans.
- Undir rekstri málsins aflaði kærunefndin nánari upplýsinga um afdrif stjórnsýslukæru kæranda til innanríkisráðuneytis, dagsettrar 30. október 2017, þar sem hann kvartaði yfir málsmeðferð sýslumanns. Í úrskurði ráðuneytisins, dagsettum 21. desember 2017, er rakið að dómsmál hafi þá þegar verið höfðað fyrir héraðsdómi um forsjá, lögheimili og umgengni við barn kæranda. Ljóst væri að meðferð stjórnsýslumálsins í aðdraganda útgáfu sáttavottorðs kæmi því til endurskoðunar fyrir dómstólum. Þá felldi ráðuneytið úr gildi umþrætta ákvörðun sýslumanns, dagsetta 19. október 2017. Við þessar aðstæður er ekki til að dreifa gildri ákvörðun sýslumanns, sbr. áskilnað 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 220/2017 um lögvarða hagsmuni kæranda af úrlausn um efnisatriði kæru. Hvað sem þessu líður þá verður auk þess ráðið af fyrirliggjandi kæru og fylgiskjölum með henni að álitaefni um forsjá og lögheimili barns kæranda ásamt afmörkun á rétti hans til umgengni við barnið var ráðið til lykta með dómi Landsréttar frá […] í máli nr. […]. Í gögnum málsins er einnig að finna beiðni kæranda til Hæstaréttar um áfrýjunarleyfi, dagsetta 20. febrúar 2019. Ekki liggur fyrir hver afdrif málsins verða þar en ljóst er þó að ákvörðun um framangreind atriði, þ.e. forsjá, lögheimili og umgengnisrétt eru ekki lengur á borði stjórnvalda heldur dómstóla. Fellur það utan valdmarka kærunefndarinnar að leggja mat á réttmæti lögskýringa dómstóla í máli kæranda, sbr. 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 220/2017.
- Að öllu framangreindu virtu ber að vísa erindi kæranda frá nefndinni.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
Arnaldur Hjartarson
Þórey S. Þórðardóttir
Guðrún Björg Birgisdóttir