Hoppa yfir valmynd
4. mars 2002 Forsætisráðuneytið

A-143/2002 Úrskurður frá 4. mars 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 4. mars 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-143/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 21. desember sl., kærði [...], til heimilis að [...] í [...], synjun flugmálastjórnar, dagsetta 4. desember sl., um að veita honum aðgang að ratsjárgögnum um flugferla nánar tilgreindra flugvéla í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli að kvöldi [dags.] og um að láta honum í té afrit af þeim á prentuðu eða tölvutæku formi.

Með bréfi, dagsettu 7. janúar sl., var kæran kynnt flugmálastjórn og henni veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 21. janúar sl. Sérstaklega var þess óskað, að í umsögn stofnunarinnar yrði upplýst á hvaða formi umbeðin gögn væru varðveitt og hvort afritun þeirra væri einhverjum vandkvæðum bundin. Umsögn flugmálastjórnar, dagsett 21. janúar sl., barst innan tilskilins frests.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að kærandi fór upphaflega fram á að fá afhent ratsjárgögn um flugferla flugvélanna [A], [B], [C] og [D] í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli að kvöldi [dags.] með tölvubréfi til rannsóknarnefndar flugslysa, dagsettu 14. september sl. Rannsóknarnefndin synjaði beiðni hans með bréfi, dagsettu 20. september sl., og kærði hann þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dagsettu 8. október sl. Í skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa til úrskurðarnefndar af því tilefni kom fram að umbeðin gögn væru ekki í vörslum rannsóknarnefndinnar, heldur flugmálastjórnar. Á þeim grundvelli vísaði úrskurðar-nefnd málinu frá nefndinni með úrskurði, uppkveðnum 22. nóvember sl.

Að fenginni þessari niðurstöðu beindi kærandi sams konar erindi til flugmálastjórnar í tölvubréfi, dagsettu 27. nóvember sl. Flugmálastjórn synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 4. desember sl., á þeim grundvelli að 43. gr. laga nr. 107/1999 um fjar-skipti og 5. gr. reglugerðar nr. 83/1986 um leynd vegna fjarskipta, kæmu í veg fyrir að unnt væri að verða við henni. Jafnframt leiðbeindi flugmálastjórn kæranda um að ákvörðun hennar væri kæranleg til samgönguráðuneytisins, í samræmi við ákvæði stjórn-sýslulaga nr. 37/1993.

Í kæru til úrskurðarnefndar dregur kærandi í efa að heimilt hafi verið að afgreiða beiðni hans á framangreindan hátt, þar sem beiðni hans hafi eingöngu tekið til ratsjár-gagna, en þau teljist ekki til fjarskipta. Um þetta segir m.a. í kæru hans til nefndar-innar: "Ekki er um að ræða samskipti manna heldur rafeindamerki frá tæknibúnaði sem nemur endurvarp rafsegulbylgna. Þannig eru radargögn mjög hliðstæð gögnum frá sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum, svo dæmi sé tekið . . . Í nútíma upplýsinga-þjóðfélagi er ekki unnt að skilgreina gögn út frá því eftir hvaða leiðum og um hvers konar tæknibúnað þau berast frá sendanda til móttakanda. Sé til dæmis litið á tölvupóst, með bréf sem viðhengi, eða faxsendingu, er ómögulegt að sjá fyrir hvort slíkar sendingar berist einhvern hluta leiðarinnar um tæknibúnað sem skilgreindur er sem "fjarskiptavirki". Um getur verið að ræða hefðbundnar símalínur, ljósleiðara, örbylgjusendi/móttakara, gervihnött o.s.frv. Líklega fara radarmerkin að mestu um ljósleiðara, en svo er einnig með nær allan tölvupóst . . . Það er því ljóst að radarmerki geta ekki talist fjarskipti . . ."

Ennfremur vísar kærandi til hagsmuna sinna af því að fá aðgang að umbeðnum gögnum sem lögerfingi sonar síns sem lést af völdum áverka er hann hlaut þegar [D] fórst umrætt kvöld. Hafi honum, ásamt fleiri sem málinu tengjast, jafnframt verið leyft að hlusta á fjarskipti umræddra flugvéla og skoða ratsjárferla þá, sem beiðni hans tekur til, hinn 5. apríl 2001 með samþykki flugmálastjóra, sbr. áritun hans á útprentað tölvubréf starfsmanns flugmálastjórnar til kæranda, dagsett 4. apríl sl.

Bendir kærandi á að hliðstæðar upplýsingar og kæra hans tekur til hafi oft birst á opin-berum vettvangi. Sem dæmi er tekin grein í Algrími, blaði félags tölvunarfræðinema við Háskóla Íslands, frá árinu 2001, þar sem birt er skjámynd af raunverulegri flug-umferð úr ratsjárvinnslukerfi flugmálastjórnar.

Í umsögn flugmálastjórnar til úrskurðarnefndar, dagsettri 21. janúar sl., er bent á að flugslysið í [E] [dags.] sæti opinberri rannsókn. Einstakir þættir slyssins hafi ekki verið undanskildir þeirri rannsókn. Umbeðin gögn hafi verið afhent lögreglunni í Reykjavík að fengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. september 2000. Jafnframt hafi leyfi flugmálastjóra til handa aðstandendum þeirra, sem fórust í flugslysinu, til þess að skoða umbeðin ratsjárgögn verið kærð til lögreglu. Rannsókn á því máli sé enn ólokið. Af þessum sökum telur stofnunin að upplýsingalög taki ekki til gagna málsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og fer fram á að nefndin vísi því frá sér af þeirri ástæðu.

Í tilefni af þessari síðastnefndu málsástæðu flugmálastjórnar beindi úrskurðarnefnd því til lögreglustjórans í Reykjavík með bréfi, dagsettu 5. febrúar sl., að nefndinni yrði gerð grein fyrir því hvort umbeðin gögn tengist rannsókn á hans vegum. Í bréfi lögreglustjórans til nefndarinnar, dagsettu 8. febrúar sl., segir m.a.: "Það skal hér með staðfest að afrit umræddra radargagna voru send embætti lögreglustjórans í Reykjavík í septembermánuði 2000 samkvæmt beiðni embættisins og eru hluti rann-sóknargagna í máli sem embættið hefur haft til rannsóknar í tilefni af flugslysinu í [E]. Því máli er ekki lokið hjá embættinu." Í bréfinu er það leiðrétt að hin umbeðnu gögn hafi verið afhent lögreglu, að fengnum úrskurði Héraðs-dóms Reykjavíkur. Hið rétta sé að það hafi verið afrit hljóðupptaka af samtölum flug-umferðar-stjóra við flugumferð sem flugmálastjórn afhenti að fengnum úrskurði héraðsdóms, en ekki umrædd ratsjárgögn. Í bréfi lögreglustjóra segir ennfremur orðrétt: "Einnig skal það staðfest að til meðferðar er hjá embættinu mál vegna beiðni Félags íslenskra flugumferðarstjóra um rannsókn á því hvort starfsmenn flugmála-stjórnar hafi brotið lög með því að afhenda til birtingar í fjölmiðlum afrit af fjar-skiptum milli flugvélarinnar [D] og flug-umferðarþjónustudeilda og jafnframt með því að heimila óviðkomandi aðilum aðgang að hljóðritunum af fjarskiptum. Embættið hefur hins vegar ekki litið svo á að sú kæra varði á nokkurn hátt umrædd radargögn heldur einvörðungu hljóðupptökur af sam-tölum flugumferðarstjóra við flugumferð."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í máli því, sem til úrlausnar er, hefur kærandi farið fram á að fá aðgang að ratsjár-gögnum í vörslum flugmálastjórnar um flugferla nánar tilgreindra flugvéla í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli að kvöldi [dags.] þegar [D] fórst í [E]. Sonur kæranda var farþegi í flugvélinni og lét hann lífið af völdum áverka sem hann hlaut er vélin fórst.

Hin umbeðnu gögn tilheyra ekki stjórnsýslumáli, þar sem tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt því verður ekki leyst úr kærumáli þessu á grundvelli þeirra laga, heldur upplýsingalaga nr. 50/1996, nánar tiltekið III. kafla þeirra, þó að því tilskildu að aðgangur að gögnunum falli undir gildissvið laganna.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að þau gildi ekki um "rannsókn eða sak-sókn í opinberu máli." Það þýðir að ekki er unnt að krefjast aðgangs að gögnum sem falla undir slíka rannsókn eða saksókn á grundvelli laganna. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort rannsókn stendur enn yfir eða henni er lokið.

Vegna ummæla í umsögn flugmálastjórnar, dagsettri 21. janúar sl., hefur lögreglu-stjórinn í Reykjavík staðfest í bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 8. febrúar sl., að hin umbeðnu ratsjárgögn séu hluti af þeim gögnum sem rannsökuð hafa verið vegna rannsóknar lögreglu á flugslysinu í [E] [dags.]. Þeirri rannsókn sé enn ólokið.

Vegna þess að hér er um að ræða rannsóknargögn í opinberu máli er ekki unnt að krefjast aðgangs að þeim á grundvelli upplýsingalaga og því verður synjun um aðgang að gögnunum heldur ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Ber þar af leiðandi að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur flugmálastjórn er vísað frá úrskurðar-nefnd.




Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta